STEFNUMÓT - Smásögur Listahátíðar hefur að geyma tólf sögur úr smásagnasamkeppni Listahátíðar í Reykjavík árið 2000.
STEFNUMÓT - Smásögur Listahátíðar hefur að geyma tólf sögur úr smásagnasamkeppni Listahátíðar í Reykjavík árið 2000. Mikill fjöldi sagna barst í keppnina og í bókinni eru birtar verðlaunasögurnar þrjár ásamt níu öðrum sögum sem dómnefnd valdi til birtingar. Aðfaraorð skrifar Sveinn Einarsson, formaður framkvæmdastjórnar Listahátíðar, sem sat í dómnefnd ásamt Þorsteini Þorsteinssyni, er tilnefndur var af Rithöfundasambandi Íslands, og Bergljótu Kristjánsdóttur, sem Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands tilnefndi.

Fyrstu verðlaun fékk saga Úlfs Hjörvar, saga Egils Helgasonar hlaut 2. verðlaun og saga Birgis Sigurðssonar 3. verðlaun.

Aðrir höfundar eru Elín Ebba Gunnarsdóttir, Hans Jón Björnsson, Helgi Ingólfsson, Kristín Sveinsdóttir, Kristján Þórður Hrafnsson, Kristján Kristjánsson, Sindri Freysson og Sveinbjörn I. Baldvinsson.

Útgefandi er Vaka-Helgafell. Bókin er 211 bls. Prentsmiðjan Oddi prentaði. Sigurður Ármannsson hannaði bókarkápu. Verð 3.280 kr.

ÞYRNAR og rósir - sýnisbók íslenskra bókmennta á 20. öld .

Í henni er að finna úrval fjölbreyttra íslenskra bókmenntatexta frá aldarbyrjun og til nútímans. Efnið völdu Kristján Jóhann Jónsson, Sigríður Stefánsdóttir og Steinunn Inga Óttarsdóttir, íslenskukennarar. Bókin er einkum er ætluð til kennslu í framhaldsskólum. Hún hefur að geyma um 300 texta eftir tæplega 100 höfunda; ljóð, smásögur og brot úr skáldsögum.

Útgefandi er Vaka-Helgafell. Bókin er 410 bls. Kápu hannaði Magnús Valur Pálsson en málverk á kápu er eftir Tryggva Ólafsson. Prentsmiðjan Oddi prentaði. Verð 3.990 kr.

GEIMTUGG er ljóðbók eftir Jóhann Helgason tónlistarmann frá Keflavík. Bókin hefur að geyma 57 ljóð og örsögur í gráglettnum og súrrealískum anda, segir í fréttatilkynningu. Hvert ljóð er myndskreytt sérstaklega, en teikningar gerðu myndlistarmennirnir Ágúst Bjarnason, Pétur Stefánsson og Þorsteinn Eggertsson, auk Jóhanns.

Geimtugg er samið í Keflavík á fyrri hluta áttunda áratugarins og kom að hluta út í tveim fjölrituðum heftum á árunum 1975 og 1976.

Útgefandi er Hugverkaútgáfan. Bókin er 130 bls. Fjölritunarstofa Daníels Halldórssonar fjölritaði. Bókin er fáanleg í nokkrum bóka- og ritfangaverslunum, auk þess sem stök ljóð munu hanga uppi í völdum fiskbúðum og bakaríum. Verð: 1.490 kr.