4. júní 2000 | Bréf til blaðsins | 632 orð | 1 mynd

"Föðurland vort hálft er hafið"

Altaristafla í Siglufjarðarkirkju. Það var trú fólks í Siglufirði að gamlir Siglfirðingar hefðu verið fyrirmyndir listmálarans Gunnlaugs Blöndal.
Altaristafla í Siglufjarðarkirkju. Það var trú fólks í Siglufirði að gamlir Siglfirðingar hefðu verið fyrirmyndir listmálarans Gunnlaugs Blöndal.
Öldum saman fóru sjómenn með sjóferðabænir áður en haldið var á haf út. Stefán Friðbjarnarson staldrar við trúarviðhorf kynslóðanna á ströndu hins yzta hafs.
Föðurland vort hálft er hafið helgað þúsund feðra dáð. Þangað lífsbjörg þjóðin sótti, þar mun verða stríðið háð. Yfir logn og banabylgju bjarmi skín af Drottins náð. Föðurland vort hálft er hafið, hetjulífi og dauða skráð. (Jón Magnússon.)

Föðurland vort hálft er hafið

helgað þúsund feðra dáð.

Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,

þar mun verða stríðið háð.

Yfir logn og banabylgju

bjarmi skín af Drottins náð.

Föðurland vort hálft er hafið,

hetjulífi og dauða skráð.

(Jón Magnússon.)

Sjávarútvegur hefur verið stundaður hér á landi, samhliða landbúnaði, frá upphafi byggðar. Í Íslandssögu Einars Laxness segir: "Um 1340 vóru sjávarafurðir orðnar aðal útflutningsvörur Íslendinga, skreið (hertur fiskur) og lýsi - í stað vaðmála. Orsök breytingar var m.a. efling verzlunar þýzkra Hansakaupmanna í Noregi (Björgvin), en þá opnaðist nýr fiskmarkaður á meginlandinu, samhliða mikilli stækkun borga í Evrópu og útbreiðslu kristni, sem leiddi til aukinnar fiskneyzlu á föstum; lýsi var hagnýtt til lýsingar borga...". Allar götur síðan hafa aflabrögð og erlendur markaður fyrir sjávarvörur sniðið Íslendingum afkomustakk.

Það er þó ekki fyrr en með vélvæðingu fiskiskipaflotans og nýrri fiskveiðitækni á morgni 20. aldarinnar að sjávarútvegurinn verður "ær og kýr" íslenzkrar velmegunar, undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Útfærzlur fiskveiðilögsögunnar í 4 mílur 1952, 12 mílur 1958, 50 mílur 1972 og loks 200 mílur 1975 vóru mikilvæg skref í baráttunni fyrir efnahagslegu fullveldi. Fullyrða má að bróðurpartur eigna og afkomu þjóðarinnar á 20. öldinni hafi verið sóttur í auðlindir sjávar.

"Föðurland vort hálft er hafið". Án sjávarnytja væri Ísland vart byggilegt. Það er mikilvægt að landsmenn nýti hyggilega og varðveiti vel þetta dýrmæta bjargræði, sem forsjónin hefur lagt þeim upp í hendur. Dýrkeypt reynslan hefur og kennt Íslendingum að tryggja verður - eins og frekast er kostur - starfsöryggi sjómanna. Þótt sjórinn sé gjöfull þá er hann einnig viðsjárverður og tekur sinn toll. Stöldrum við eitt dæmi af fjölmörgum sem sýnir þann veruleika er kynslóðirnar á ströndum hins yzta hafs bjuggu við í þúsund ár: "Í ofsaverðri 7. apríl (1906) strandaði þilskipið Ingólfur á Viðeyjarsundi. Hundruð Reykvíkinga horfðu á skipverja slitna hvern á fætur öðrum úr reiðanum og hverfa í hafrótið. Engri björgun varð við komið. Síðar hafa borizt fregnir af því, að tvö önnur þilskip hafi farizt í sama veðri uppi við Mýrar. Á skipum þessum vóru samtals 68 menn." (Öldin okkar 1901-1930).

Sjómannadagurinn, fyrsti sunnudagur í júnímánuði, er baráttu- og hátíðisdagur sjómanna. Það hefur hann verið allar götur frá árinu 1938. Sjómannadagurinn tók að hluta til við af hinum forna lokadegi vetrarvertíðar, 11. maí, sem fyrrum var hátíðisdagur. Í sjávarplássum landsins stendur hann næst þjóðhátíðardeginum, 17. júní. Og þótt margt hafi breytzt í atvinnuháttum þjóðarinnar - fleiri stoðum verið skotið undir afkomu og atvinnu - segir "seltan í blóðinu" til sín hjá þorra eyþjóðarinnar á sjómannadaginn.

Sjávarþéttbýli tók ekki að myndast hér á landi fyrr en í lok 19. aldar. Þar sem fiskur gekk á grunnmið risu þó verbúðir úr torfi og grjóti snemma í Íslands sögu. Þaðan var fiskveiði stunduð á vertíðum á opnum bátum, allt að tólfæringum. Aðalvertíð við mestu veiðisvæðin sunnan- og vestanlands stóð venjulega frá febrúar fram í maí. Sjósókn á opnum bátum á vetrarvertíðum var bæði erfið og hættuleg því skjótt skipast veður í lofti. Það einkenndi sjómenn, eins og fleiri, sem lifðu í náinni snertingu við náttúruöflin, að hafa næman skilning á tilveru æðri forsjónar, trú á tilveru "Guðs vors lands". Þeir ræktuðu trú sína af alúð og heilum hug. Sérhver veiðiferð hófst á sjóferðarbæn. Í mörgum verstöðvum tíðkuðust staðbundnar trúarlegar athafnir. Og messan er enn í dag fastur og ómissandi þáttur í hátíðardagskrá sjómannadagsins.

Íslendingar samgleðjast sérhvern sjómannadag. Þeir gera sér grein fyrir því að sjávarauðlindin er hornsteinn afkomu þeirra og efna. Sem og að sjómenn vinna erfið störf og áhættusöm í þágu heildarinnar. Landsmenn allir taka heilshugar undir bæn Jóns skálds Magnússonar til gjafara alls hins góða í tilverunni:

Vertu með oss, vaktu hjá oss,

veittu styrk og hugarró.

Þegar boðin heljar hækkar,

herra, lægðu vind og sjó!

Gleðilega sjómannahátíð!

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.