[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
RAGNHEIÐUR Viggósdóttir á mjög stórt safn póstkorta og þar kennir ýmissa grasa. Ragnheiður safnar íslenskum kortum frá síðustu aldamótum, þegar þau byrjuðu að koma út, og fram til 1950 eða þar um bil.
RAGNHEIÐUR Viggósdóttir á mjög stórt safn póstkorta og þar kennir ýmissa grasa. Ragnheiður safnar íslenskum kortum frá síðustu aldamótum, þegar þau byrjuðu að koma út, og fram til 1950 eða þar um bil. Auk þess safnar hún frönskum, þýskum og dönskum kortum, sem og jóla- og tækifæriskortum frá sama tíma. "Þegar ég byrjaði að safna kortum var starfandi hér félag sem hét Kortakallar og ég gekk að sjálfsögðu í. Þetta voru um tíu manns og við hittumst reglulega og skiptumst á kortum. Því miður lognaðist félagið út af fyrir um átta árum og hefur ekki verið endurreist."

Hvar hefurðu fengið öll þessi kort?

"Mest hef ég keypt, ýmist af kaupmönnum eða í heimahúsum hjá fólki sem hefur verið að ganga frá dánarbúum og slíku. Margir hafa gefið mér kort, bæði vinir og vandamenn og algjörlega óvandabundið fólk. Svo hef ég farið á stóra kortamarkaði erlendis, þar er ekki mikið af íslenskum kortum en ég safna líka dönskum kortum og vissum gerðum af þýskum og frönskum kortum. Auk þess er það frábær skemmtun að koma á slíka markaði þar sem allir eru á sama áhugasviði."

Myndir segja mikla sögu

Ragnheiður er ekki í vafa um hvar nýgræðingar í kortasöfnun eiga að leita hófanna. "Í versluninni Hjá Magna. Magni á mikið úrval íslenskra korta og hann er eina hjálparhellan mín hérlendis. Kortasöfnun er afar vinsæl iðja erlendis en hér á landi erum við allt of fá í þessu.

Það eru um það bil tuttugu ár síðan ég byrjaði að safna póstkortum og þó það hafi kannski verið dálítil vinna og nokkur kostnaður finnst mér þegar ég lít til baka að þetta hafi eingöngu verið frábær skemmtun og töluverður fróðleikur. Myndir segja manni oft svo mikla sögu og leiða mann út á þá braut að fara að rannsaka betur og skyggnast bak við það sem liggur í augum uppi. Við getum að vísu skyggnst inn í fortíðina með því að lesa frásagnir í bókum en það er alltaf eitthvað sem myndin hefur fram yfir orðin eða eykur við þau."

Ótrúleg gróska framan af öldinni

Að sögn Ragnheiðar eru frumkvöðlar í íslenskri póstkortaútgáfu þeir Ólafur Johnson og Karl Finsen. Þeir munu hafa gefið út 80 kort, öll svarthvít og flest númeruð. "Síðan koma kortaútgefendur hver af öðrum og alls eru þeir samkvæmt minni skráningu 203 á þessu tímabili, þ.e. fram til 1950," segir Ragnheiður. "Langstórtækastur í kortaútgáfu var Helgi Árnason sem meðal annars var húsvörður í safnahúsinu við Hverfisgötu. Hann gaf út 350 póstkort og auk þess 60 jóla- og tækifæriskort sem flest voru með vísum auk myndar. Flestar myndirnar voru teknar af útlendum kortum en stundum voru þær teiknaðar hér. Eyjólfur Eyfells teiknaði a.m.k. tíu myndir. En skrautletur og aðrar skreytingar kringum myndirnar gerði Steindór Björnsson frá Gröf ævinlega og hefur samvinna Helga og hans verið með ágætum. Kortin eru smekkleg og vönduð og mjög þjóðleg.

Aðrir sem gáfu út sams konar kort í talsverðum mæli voru Sigurjón Jónsson og Guðmundur Ásbjörnsson með þrettán gerðir korta og Friðfinnur Guðjónsson leikari sem gaf út 45 kort en þar af teiknaði Muggur þrjú. Næst á eftir Helga hvað fjölda áhrærir eru Egill Jacobsen og Björn Kristjánsson með um 240 kort auk þess sem Egill er einn skráður fyrir um 70 kortum. Þá er Baldvin Pálsson með 210 kort. Á þessum tíma voru kortaútgefendur á hverju strái og sumir gáfu einungis út eitt kort. Það er því ótrúlega mikil gróska í þessari kortaútgáfu framan af öldinni og margir sem leggja hönd á plóginn. Hversu stór upplög þessara korta voru veit ég ekki en fljótlega mun reglan hafa orðið sú að hvert kort væri prentað í þúsund eintökum þótt stundum hafi verið einhver frávik."

"Brjefspjöld" notuð í stað símans

Árin 1915-1930 voru aðalkortatíminn hérlendis að mati Ragnheiðar. "Allt fram undir 1930 notaði fólk kortin innanbæjar eins og það notar síma núorðið, sendi börnin með kort til að bjóða einhverjum í matarboð og þess háttar."

Í stríðinu bárust hingað tvöföld tækifæriskort frá Bandaríkjunum og Bretlandi sem leystu af hólmi einföldu íslensku tækifæriskortin en það finnst Ragnheiði miður. "Ég hef aldrei haft áhuga á þessum tvöföldu kortum og mér finnst þau ekki falleg. Hins vegar héldu póstkortin með svarthvítu landslagsmyndunum velli. Athyglisverð er breyting sem varð á kortunum 1906 en þá komu kortin með tvískipta bakinu. Eitthvað framan af öldinni voru íslensk póstkort kölluð "brjefspjöld" en ég veit ekki fyrir víst hvenær það breyttist. Ég á líka nokkuð af frönskum póstkortum með ljósmyndum frá Íslandi og þótt myndin þekti framhlið kortsins var áletrun á bakhliðinni um að þar ætti að skrifa heimilisfang viðtakanda. Ekkert rými var hugsað fyrir skilaboð og nafn sendanda."

Skrásetning kortanna

Kortin hennar Ragnheiðar eru flokkuð eftir myndefnum í möppur og snúa bökum saman þannig að textinn á bakhliðinni sést ekki nema kortið sé tekið úr plastvasanum. Ragnheiður upplýsir að sumir sem selji henni kort kroti vel og vandlega yfir það sem skrifað er á kortið en flestir láti það þó ógert. Ragnheiður gerir fleira en að safna kortunum og flokka þau. Þegar ljósmynd er á kortinu úr íslensku þjóðlífi, af fólki eða byggingum, reynir hún að komast að því hver er á myndinni, grennslast fyrir um sögu húsa o.s.frv. Hún skráir líka með skipulögðum hætti kortin og upplýsingar um þau. "Ég hef unnið að skrásetningu íslenskra póstkorta á fyrri hluta aldarinnar og þau sem ég get heimfært á ákveðna útgefendur á þessu tímabili eru um það bil 2.700 talsins. Skrána hef ég unnið út frá eigin safni og auk þess hafa Þjóðminjasafn, Háskólabókasafn og Árbæjarsafn leyft mér að fara gegnum það sem þar er til og er ég þeim öllum mjög þakklát fyrir þá aðstoð og tiltrú sem ég naut. Ég hafði hugsað mér að gefa skrána út í snotru hefti með nokkrum myndum, aðallega með kortasafnara framtíðarinnar í huga og ýmsa fleiri sem gagn gætu haft af slíkum upplýsingum. En þar sem kostnaður við svona útgáfu yrði líklega nokkuð mikill og sölumöguleikar litlir hef ég ekki látið til skarar skríða."