Heather Mills og Paul McCartney yfirgefa Perluna og stíga upp í bílaleigubíl í gærkvöldi.
Heather Mills og Paul McCartney yfirgefa Perluna og stíga upp í bílaleigubíl í gærkvöldi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BÍTILLINN Sir Paul McCartney, einn þekktasti tónlistarmaður aldarinnar, er nú staddur hér á landi. Einkaþota hans lenti á Reykjavíkurflugvelli í fyrrakvöld.
BÍTILLINN Sir Paul McCartney, einn þekktasti tónlistarmaður aldarinnar, er nú staddur hér á landi. Einkaþota hans lenti á Reykjavíkurflugvelli í fyrrakvöld.

Með honum í för er vinkona hans, fyrirsætan Heather Mills, en hún hélt fyrirlestur á ráðstefnu breska fyrirtækisins Landmark um jarðsprengjur í Perlunni í gærkvöldi.

McCartney lenti í bobba er hann hugðist yfirgefa Perluna í gærkvöldi og áttaði sig ekki á hægri umferðinni, en í heimalandi hans er sem kunnugt er vinstri umferð. Hann beygði yfir á vinstri akrein Suðurhlíðar, en áttaði sig skjótt og hélt áfram för. Ljósmyndari eins dagblaðsins var að veita honum eftirför. Mikil leynd hefur hvílt yfir ferðum McCartneys, en hann fer ferða sinna á bílaleigubíl.

Paul McCartney var lagahöfundur, söngvari og bassaleikari í einni frægustu hljómsveit allra tíma, The Beatles. Hljómsveitin sló í gegn á sjöunda áratugnum og upphófst þá hið svokallaða bítlaæði. Hvorki fyrr né síðar hafa hljómsveitir náð þvílíkum vinsældum.

Berst gegn jarðsprengjum

Árið 1970 var tilkynnt um endalok The Beatles og síðan hefur McCartney, auk þess að njóta velgengni sem tónlistarmaður, helgað sig baráttu í umhverfis- og dýraverndunarmálum. Eiginkona hans, Linda McCartney, lést fyrir rúmum tveimur árum, en hún var sömuleiðis þekkt fyrir störf í fyrrgreindum málaflokkum. Heather Mills er einnig kunn fyrir góðgerðastarfsemi, en hún missti annan fótinn við hné í bílslysi árið 1993. Hún hefur látið mikið að sér kveða í baráttu gegn jarðsprengjum, sem hafa valdið milljónum manna útlimamissi.