13. júlí 2000 | Íþróttir | 565 orð | 1 mynd

Íslendingar senda 11 keppendur til Sydney

Jón Arnar Magnússon tekur þátt í sínum þriðju Ólympíuleikum. Hann er hér ásamt Völu Flosadóttur og Þóreyju Eddu Elíasdóttur, sem taka þátt í sínum fyrstu ÓL, en í Sydney er keppt í fyrsta skipti í stangarstökki kvenna.
Jón Arnar Magnússon tekur þátt í sínum þriðju Ólympíuleikum. Hann er hér ásamt Völu Flosadóttur og Þóreyju Eddu Elíasdóttur, sem taka þátt í sínum fyrstu ÓL, en í Sydney er keppt í fyrsta skipti í stangarstökki kvenna.
ÓLYMPÍULEIKARNIR í Sydney í Ástralíu verða settir eftir rétt rúma tvo mánuði, föstudaginn 15. september. Tíu íslenskir íþróttamenn hafa tryggt sér rétt til að keppa á leikunum og hugsanlega gætu einn eða tveir bæst í þann hóp en frestur til að ná lágmarki rennur út í byrjun næsta mánaðar.
Sex frjálsíþróttamenn hafa náð tilsettu lágmarki, Guðrún Arnardóttir, Jón Arnar Magnússon, Magnús Aron Hallgrímsson, Martha Ernstsdóttir, Vala Flosadóttir og Þórey Edda Elísdóttir.

Tveir sundmenn hafa náð íslenska lágmarkinu, Jakob Jóhann Sveinsson og Örn Arnarson. Í fimleikum verður einn íslenskur keppandi, Rúnar Alexandersson, og siglingamaðurinn Hafsteinn Ægir Geirsson keppir á Laser-kænum.

Talið er nær öruggt að Alfreð Alfreðsson skotmaður fari einnig og er aðeins beðið eftir staðfestingu frá alþjóðaólympíunefndinni þess efnis að Ísland megi senda einn skotmann. Júdómenn höfðu einnig vonast til að fá slíkt boð en það mun víst vera tómt mál að tala um.

Sundforystan vill fleiri keppendur

Sundfólkið hafði vonast eftir að 5-6 sundmenn færu á leikana en nú er ljóst að það verða aðeins þeir Jakob Jóhann og Örn sem fara, enda þeir einu sem hafa náð tilsettu lágmarki til slíks. Sundsambandið herti hið svokallaða B-lágmark alþjóðasundsambandsins, FINA, og gaf út í maí í fyrra hið nýja lágmark. Því lágmarki hafa bara Jakob Jóhann og Örn náð. Heyrst hafa þær raddir að sundsambandsforystan vilji senda fleiri en þá tvo enda hafi lágmark fyrir sundmenn verið hert en ekki fyrir aðrar íþróttir.

Sundsambandinu er þó nokkur vandi á höndum ætli það sér að hverfa frá áður settu lágmarki. Við hvað á að miða? Hverjir eiga að fara og hverjir eiga að sitja heima?

Í hinum svonefnda Sydney-hópi Sundsambandsins voru tíu sundmenn, en til að komast í hópinn urðu menn að ná B-lágmarki FINA. Það eru sem sagt átta sundmenn sem náðu alþjóðlega lágmarkinu en tveir því íslenska. Þau sem eru í hópnum auk ólympíufaranna eru Elín Sigurðardóttir, Eydís Konráðsdóttir, Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, Lára Hrund Bjargardóttir, Íris Edda Heimisdóttir, Friðfinnur Kristinsson, Hjalti Guðmundsson og Ríkarður Ríkarðsson.

Ef fjölga á sundmönnum, eins og einhverjir virðast vilja, hverja á þá að taka og hverja ekki? Kolbrún Ýr hefur að undanförnu verið á styrk frá Ólympíusamhjálpinni fyrir unga og efnilega íþróttamenn og þykir mjög slæmt ef slíkir styrkþegar eru ekki meðal keppenda á leikunum. Íþróttasamband Íslands fékk altént skömm í hattinn þegar Pétur Guðmundsson var á slíkum styrk en keppti ekki á Ólympíuleikum. Á hún að fara á leikana, eða verður fundin einhver önnur leið til að ákveða hver eða hverjir eiga að bætast við þrátt fyrir að hafa ekki náð tilskildu lágmarki?

Varla fleiri frjálsíþróttamenn

Frjálsíþróttamenn lifa enn í þeirri von að Einari Karli Hjartarsyni takist að vippa sér yfir 2,25 metra. Honum hefur aldrei tekist að stökkva svo hátt en í vetur sveif hann yfir 2,24 metra og þá vöknuðu vonir um að við myndum sjá hann meðal keppenda í Sydney. Einar hefur stokkið 2,20 í sumar og satt best að segja virðist hann ekki orðinn það sterkur að hann geti náð lágmarkinu í tíma.

Næsti sem hugsanlega gæti komist til Sydney er Vigdís Guðjónsdóttir. Til þess þarf hún að kasta spjótinu 57 metra en hún kastaði því 52 metra á dögunum.

Eins og staðan er nú verða því ellefu Íslendingar meðal keppenda á leikunum í Ástralíu í haust, tveimur fleiri en í Atlanta fyrir fjórum árum. Íslendingar sendu hins vegar 29 á leikana í Barcelona 1992, 32 til Seoul 1988 og 30 til Los Angeles 1984. Þess ber þó að geta að handknattleikslandsliðið var á þrennum síðasttöldu leikunum og þar eru sextán keppendur hvert ár. Á þessum leikum var þátttaka Íslendinga mikil en minnkaði verulega, þó svo handboltinn sé fráskilinn, 1996. Keppendur verða altént tveimur fleiri þegar flautað verður til leiks í Ástralíu hinn 15. september - hvað svo sem sundmenn gera.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.