AÐ gefnu tilefni sé ég mig knúna til þess að gera fáeinar athugasemdir vegna greinar listgagnrýnandans Braga Ásgeirssonar í Morgunblaðinu 20. júlí síðastliðinn og fyrri skrifa hans um Ásmundarsafn á umliðnum árum.
Síðasta greinin ber yfirskriftina Lífsorka og er skrifuð í tilefni yfirstandandi sýningar á verkum föður míns, Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara, í Ásmundarsafni við Sigtún. Mér þykir vænt um hve lofsamlegum orðum greinarhöfundur fer um föður minn og lífsstarf hans. Engum blandast hugur um að greinarhöfundur metur hann og verk hans mikils. Hins vegar gætir ýmiss konar misskilnings í skrifum Braga sem hann hefur endurtekið hvað eftir annað í greinum sínum í Morgunblaðinu á undanförnum árum og birtist í ítrekaðri gagnrýni á Ásmundarsafn í núverandi mynd og tilurð þess.
Þegar faðir minn var kominn á efri ár ákvað hann að fela Reykjavíkurborg varðveislu listaverka sinna og húsa við Sigtún eftir sinn dag. Í bréfi til borgarinnar voru sett ákveðin skilyrði fyrir gjöfinni, m.a. um viðhald bæði á húsum og listaverkum. Skemmst er frá því að segja að á þessum tíma voru húsin í afar bágbornu ástandi, enda höfðu þau verið reist af vanefnum. Ljóst var að gera þyrfti á þeim miklar og kostnaðarsamar lagfæringar til þess að þau gætu nýst til sýninga. Sama gilti um margar myndanna í garðinum.
Frá því faðir minn lést hef ég átt sæti í stjórn Ásmundarsafns og tekið þátt í þeirri uppbyggingu sem þar hefur orðið á undanförnum árum. Tveir menn hafa verið forstöðumenn safnsins á þessu tímabili, þeir Gunnar B. Kvaran og Eiríkur Þorláksson og hefur samstarf stjórnar og þeirra verið með miklum ágætum.
Þegar Reykjavíkurborg tók við Ásmundarsafni var henni nokkur vandi á höndum. Sú ákvörðun var tekin þegar í upphafi að safnið skyldi rekið í anda listamannsins og óska hans, þ.e. að verkin yrðu höfð í öndvegi, listamaðurinn lifði í verkum sínum. Þetta er í fullu samræmi við þær hugmyndir sem faðir minn hafði margoft látið í ljós í viðtölum á opinberum vettvangi og í einkasamtölum við vini og kunningja. Ákveðið var að ráðast strax í að bjarga húsunum og reisa nýja tengibyggingu milli ,,kúlunnar" og ,,skeifunnar" þannig að til yrði heildstætt sýningarsvæði. Garðurinn hefur nú einnig verið endurgerður og myndir sem áður lágu undir skemmdum verið lagfærðar. Ég tel að Reykjavíkurborg, bæði núverandi og fyrrverandi meirihluti, og reyndar Reykvíkingar allir, eigi þökk skilda fyrir þá alúð og virðingu sem safninu og lífsstarfi föður míns hefur verið sýnd.
Alltaf má þó deila um árangur og Braga Ásgeirssyni er að sjálfsögðu heimilt að hafa aðrar skoðanir í þessu efni. Ef til vill telja einhverjir að varðveita hefði átt Kúluna nokkurn veginn eins og listamaðurinn skildi við hana, inniskórnir og neftóbaksdósirnar á sínum stað o.s.frv. Slíkt hefði borið vott um persónudýrkun sem hefði verið í algerri mótsögn við óskir og hugmyndir föður míns. Tekið skal fram að verkfæri sem hann notaði við vinnu sína sem sum hver voru smíðuð af honum sjálfum eru varðveitt í safninu. Vel kemur til greina að sýna þau þegar við á í tengslum við sýningar á verkum hans.
Ásmundur Sveinsson var afar litríkur og skemmtilegur maður. Þeir eru margir sem eiga minningar um ógleymanlegar heimsóknir til hans í ,,Kúluna". Faðir minn naut þess að ganga um, spjalla við gesti, segja þeim frá myndum sínum og sögunni að baki þeim. Því miður er Ásmundur Sveinsson ekki lengur á meðal okkar í eigin persónu, en eins og aðrir listamenn lifir hann fyrst og fremst í verkum sínum. Það er trú mín að þeim hafi nú verið búin sú umgjörð að heimsóknir í Ásmundarsafn geti orðið gestum minnisstæðar eins og áður.
Í grein Braga Ásgeirssonar 20. júlí síðastliðinn víkur hann að samstarfi Hallsteins föðurbróður míns og föður míns. Hallsteinn var alla tíð hjáparhella föður míns og veitti honum ómælda aðstoð við húsbyggingar og uppsteypu stærri mynda. Milli þeirra ríkti gagnkvæm virðing og ástúð. Það er hins vegar fráleit ályktun hjá Braga að Hallsteinn ,,eigi eitt og annað" í tréskúlptúrum Ásmundar. Áður en faðir minn sigldi til náms í höggmyndalist í Svíþjóð og síðar Frakklandi lærði hann tréskurð í Reykjavík. Tréskúlptúrar hans bera því líka glöggt vitni og get ég fullyrt að hann vann sjálfur umræddar myndir, bæði hugverk og tréverk.
Bragi saknar þess í greininni að gestir sem koma í Ásmundarsafn fái ekkert í hendur um verkin. Þetta er ágæt ábending. Ég vænti þess að á þessu verði gerð bragarbót hið fyrsta og sömuleiðis að lokið verði við að merkja allar myndirnar í garðinum innan skamms.
Í myndartexta með greininni er því haldið fram að í stóru verkunum í garðinum sé ekkert burðarjárn. Þetta er alger misskilningur hjá listgagnrýnandanum. Ég fylgdist sjálf með því þegar pabbi minn vann að þessum myndum. Mér er minnisstætt hve mikið járn fór í burðarverk þeirra. Þessar myndir voru reistar á þeim árum þegar hér á landi var notað lélegt og gallað sement sem átti eftir að valda miklum alkalískemmdum. Myndirnar urðu illa úti af þessum sökum og hefur þurft að kosta miklu til við viðgerðir á þeim. Í vor var lokið við að gera við yngstu myndina, ,,Tóna hafsins". Hún er eins og segir í myndartextanum hvít eins og sjávarlöðrið. Þannig hefur hún verið frá upphafi.
Höfundur er í stjórn Ásmundarsafns.