[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef hugað er til ferðar yfir Auðkúluheiði er sjálfsagt að byrja ferðina norðan frá, segir Jón Torfason sem skoðar heiðina með augum gamals gangnamanns og ferðalangs.

Lingur veitti eina enn, er það góður siður, gleðjum okkur gangnamenn, Gísli ratar niður.

Auðkúluheiði í Húnaþingi nær frá daladrögum Svína- og Blöndudals fram til Hveravalla milli Langjökuls og Hofsjökuls. Telst sú leið um 60 km löng í beinni loftlínu. Austurmörk heiðarinnar fylgja Blöndu en í vestri nær hún að svonefndri Miðkvísl og Búrfjöllum og er víðast hvar ekki mjög breið. Heiðin smáhækkar fram, hálsarnir norðan til eru í 400 til 500 metra hæð en svo er talið að Breiðmelur við Hveravelli sé 600 metra yfir sjávarborði.

Eftir endilangri heiðinni, þó meir eftir henni austanverðri, liggur Kjalvegur, öllum farartækjum fær að sumarlagi því árnar hafa nú verið brúaðar. Utan vegar verða engar stórvægilegar hindranir í vegi fótgangandi manni því vatnsföll eru fá og væð víðast hvar en auðvitað þarf hvarvetna að viðhafa skylduga gætni. Annars einkennist landslagið af ásum, öldum, flóum og fellum.

Ferðin hefst á Blönduósi

Ef hugað er til ferðar yfir Auðkúluheiði eftir Kjalvegi, hvort sem farið er á fæti, bifreið, hestum eða hjóli, er sjálfsagt að byrja ferðina norðan frá, helst að kaupa kostinn í Kaupfélaginu á Blönduósi til að styrkja verslun í heimabyggð. Frá Blönduósi eru rösklega 100 km á Hveravelli þannig að engan asa þarf við að hafa ef bifreið er farkosturinn. Gangandi ferðalangur eða hjólandi getur auðveldlega fengið far fram í Blöndudal og á þá eftir 70-80 km að Hveravöllum sem væri hæfilegt að skipta í tvo áfanga eða þrjá eftir fararbúnaði og farkosti. Það má einnig minna á að Norðurleið hefur undanfarin ár skipulagt rútuferðir milli Reykjavíkur og Akureyrar um hásumarið þannig að farið er norður Sprengisand og suður Kjalveg.

Frá Blönduósi er beinasta leiðin upp Svínvetningabraut. Þessi sveit kallast Ásar. Eins og nafnið bendir til eru hér ásar þvers og krus, vaxnir lyngi og grasi og gott land fyrir sauðfé. Þeim, sem vanir eru slíku landslagi, finnst ekki annað land fegurra, jafnvel ekki í súld og rigningu.

Þegar komið er fram hjá Ytri-Löngumýri er beygt til hægri og stefnt fram Blöndudalinn. Neðan vegar eru Höllustaðir þar sem núverandi félagsmálaráðherra á sínar rætur. Vegurinn liggur frekar upp á við og eftir að komið er yfir svonefnt Gilsárgil, hrikalegt klettagljúfur þar sem skyggnast má árþúsundir aftur í jarðsöguna, er snarbeygt til hægri og farið að potast upp heiðarbrekkurnar. Þar í hlíðinni er vélarhús Blönduvirkjunar en lítið ber á því frá veginum því það er allt neðanjarðar. Helstu ummerkin eru nokkrir starfsmannabústaðir í brekkunum vestur frá Eiðsstöðum.

Þegar komið er upp brekkurnar, sem er auðvelt á bíl en kostar hjólreiðamenn og gangandi drjúga svitadropa, því þar er allbratt, blasir inntakslón Blönduvirkjunar við á hægri hönd. Það fyllir svonefnda Eiðsstaðaflá og teygir sig langa leið fram eftir neðan vegar. Handan flárinnar eða lónsins er Heygarðsás. Þar er hlið á afréttargirðingunni þar sem safnið er rekið um til réttar í göngum á haustin. Lengra til vesturs er Svínadalsfjall og enn lengra Vatnsdalsfjall. Í norður og norðvestur blasa Langadalsfjöllin við en nær er Blöndudalur. Loks er svo þrívörðuháls en þar marka þrjár vörður stefnuna fram heiðina.

Eftir nokkurn spöl verður fyrir allhár hóll, nefndur þramarhaugur, á vinstri hönd. Þaðan má sjá yfir mestalla heiðina og í góðu skyggni sést vel til jöklanna í suðri og vestri, Hofsjökuls, Langjökuls og Eiríksjökuls, svo og til fellanna á heiðinni en í austri eru fjöll Skagfirðinga þar sem Mælifellshnjúk ber hæst.

Þramarhaugur er kenndur við harðvítuga kvensnift en bær hennar, Þröm, liggur nánast í norðaustur frá haugnum niður í Blöndudal. Þröm var harður húsbóndi því hún lét smalaþræl sinn bera strokkinn á bakinu allan daginn. Eitt sinn tók hana að lengja eftir smalanum, fór að leita hans og fann hann kúguppgefinn sofandi hjá svokallaðri Smalatjörn og réð honum bana þegar í stað. Það fer alltaf hrollur um mann þegar samtök atvinnurekenda eða ráðamenn í þjónustu þeirra taka að ráða til sín starfsfólk úr Blöndudal.

Vegurinn er nú heldur á fótinn en allur bratti er búinn svo auðvelt er bæði að ganga og hjóla og bílar fara náttúrlega með geysihraða. Nokkuð fyrir framan Þramarhaug er Vallgil á vinstri hönd og er þá orðið skammt í Blöndugil. Það er víða um 200 metra djúpt og hrikalegt en er ekki vatnsmikið lengur eftir að áin var virkjuð. Frá veginum eru að jafnaði 2-4 km að gilinu og víðast hvar hæg gönguleið. Þeir sem erfitt eiga um gang ættu að staðnæmast sunnan við vatnið Galtaból en þar er skammur spölur að gilinu. Þar heita Réttir og mótar þar fyrir gömlum rústum. Í Blöndugili er fjölbreytilegur gróður. Þótt það sé breitt átti Grettir Ásmundarson að hafa stokkið yfir það á einum stað og heitir þar Grettishlaup, en eitthvað mundi vefjast fyrir nútímamönnum að leika það eftir.

Bungur og vötn

Nokkurn spöl framan Vallgils rís lágt fell, Arnarhöfði, og þar við eru Lómatjarnir. Á hægri hönd er hins vegar Friðmundarvatn austara sem er örgrunnt. Úr því rann Fiskilækur út í Gilsvatn en hann er nú horfinn undir rennslisskurði Blönduvirkjunar. Friðmundarvötnin eru tvö, það austara og vestara, og eru kennd við Friðmund sem nam land innst í Vatnsdal samkvæmt Landnámu. Vestan vatnanna er Friðmundarhöfði (509 m hár) talsvert áberandi, brattur sunnan í móti.

Þegar komið er framhjá Friðmundarvatninu er farið yfir svokallaða Vatnabungu. Þar er upplagt að staðnæmast til að glöggva sig á umhverfinu. Raunar einkennist þessi hluti Auðkúluheiðar af lágum bungum og ásum en milli þeirra liggja flár og vötn þar sem er gnægð af silungi, tilvalinn staður fyrir stangveiðimenn, þótt hyggnir menn veiði jafnan í net eins og Frelsarinn og postular hans. Nöfnin á vötnunum eru nokkuð föst en verra er með bungurnar því þeirra nöfn hafa breyst í aldanna rás eða færst til og eru mismunandi eftir því hvaðan er horft. Það kemur sér ekki illa í gangnaskálunum á kvöldin þegar búið er að ræða um veðrið og færð á vegunum því þrætur um örnefni eru nær ótæmandi umræðuefni.

Handan Vatnabungu er stefnt á Smalatjörn, sem áður er minnst á, en hún er raunar horfin undir Blönduvirkjunarskurðinn. Vinstra megin vegar er Fannlækjarbunga, allbrött. Framan við hana er Galtaból, mikið fiskivatn en á hægri hönd er allstórt vatn, óreglulegt í lögun, sem ber nafnið Þrístikla. Svo er sagt að hvergi sjái yfir það allt, það er að segja af jörðu niðri. Annað merkilegt við þetta vatn er það að í því er öfuguggi, sem er samkvæmt þjóðsögunum álíka hollur til átu og kampýlóbakterfylltur kjúklingur.

Áður en Blöndulónið varð til lá vegurinn fram með Blöndu nokkurn veginn í stefnu á Kjöl. Næst hefði verið komið að Sandárhöfða (rétt tæpir 500 m) sem nú rekur kollinn upp úr Blöndulóninu. Var þar víða fagurt í hvömmum og gróðri vöfðum bollum. Nú sveigir vegurinn hins vegar til hægri framan við Þrístiklu en utan við Blöndulónið. Þá er farið yfir skurðinn úr lóninu, þar sem Blanda beljar nú með boðaföllum og ekki fýsilegt að lenda í þeim svelg. Stuttu síðar er komið að stíflu vestan eða norðvestan við lónið og er rétt að staldra þar við um sinn.

Kólkuskálinn horfni

Í stíflustæðinu stóð öldum saman gangnakofi, Kólkuskáli, á litlum höfða eða brekkubrún. Framan brúnarinnar rann Kólkukvísl, sem kom úr Kólkuflóa, en nokkru vestar var sérkennilegur hóll, Kólkuhóll. Kvíslin rann drjúgan spöl til vesturs en féll þá í Fellakvísl sem kemur langt sunnan af heiðinni. Niður með Fellakvísl, nálægt norðvestri frá Kólkuhól séð, er Réttarhóll, en erfitt er að greina hann. Á Réttarhól bjuggu Björn Eysteinsson og Helga Sigurgeirsdóttir frá 1886-1891 með ung börn, og var víst silungurinn í vötnunum drýgsta búbótin. Utan við Réttarhól er ein stærsta fláin á Auðkúluheiði, Melbrigða, og hefur margur orðið votur í fæturna í þessari flá við að draga upp kindur enda dúar þar víða undir fótum.

Kólkuörnefnið er sérkennilegt en varðveitist líka í Kólkumýrum og úti á Skaga í Kólkumiðum, en væntanlega er nafnið írskt. Annað mál er það að við Kólkuhól hélt lengi til draugur sem ýmsir urðu varir við en sýndi þó jafnan þá kurteisi að verða engum að meini. Í Kólkuskála var alltaf gott að koma og hvíla lúin bein eftir strangan dag við smalamennsku í göngum. Hér má skjóta að vísukorni eftir landsþekktan mann og skal þess getið að Lingur var einn gangnamanna en Gísli gangnaforinginn:

Lingur veitti eina enn,

er það góður siður,

gleðjum okkur gangnamenn,

Gísli ratar niður.

Nú liggur leiðin yfir Áfangafell (580 m) en handan þess er gamall áfangastaður, Áfangi. Nú er risinn þar gangnaskáli sem á sumrin er notaður til að taka á móti ferðalöngum. Þar er í boði gisting í ágætu húsnæði, bað, matur og rúm eða tjaldstæði. Hér er Blöndulónið steinsnar frá og geta stangveiðimenn spreytt sig á sinni iðju ef þeir svo kjósa og dvalist þá dag eða dagpart eftir því hvernig á stendur.

Hvort sem gist er í Áfanga eða ekki þarf að halda ferðinni áfram inn til fjallanna. Utar á heiðinni einkenndist landslagið af bungum og vötnum en hér eru fellin hins vegar mest áberandi. Áfangafellið er yst en síðan kemur Sauðafell, framan þess Hanskafell, lítil bunga, Helgufell austan vegar firnastórt, og loks Sandkúlufell, einnig býsna mikilfenglegt. Fellin eru nokkuð gróin hið neðra en minna eftir því sem hærra kemur. Efst á Sauðafelli eru litlir hnjúkar eða stapar, kallast Sauðaskjól, og má þar finna vindhlé í flestum áttum. Norðan við fellið, á svonefndum Sauðafellshala um 1-2 km frá Kjalvegi, eru margar reiðgötur sem liggja nánast austur og vestur. Þetta er Skagfirðingavegur sem lá upp úr Mælifellsdal í Skagafirði, vestur heiðar Húnvetninga en kom niður í Borgarfjörð hjá Kalmanstungu. Skagfirðingavegur hefur verið mjög fjölfarinn. Vegurinn lá yfir Blöndu á Blönduvöðum en þar fyrir handan er Galtará á Eyvindarstaðaheiði, þar sem Jónas greiddi Þóru Gunnarsdóttur lokka langt fyrir löngu en sá staður er nú geymdur eilífðinni undir Blöndulóni.

Skagfirðingavegur liggur vestur um svonefndar öldur, sem taka við til vesturs frá fellunum. Það getur verið óhemjuþreytandi að fara yfir öldurnar, því þær eru allar keimlíkar, melrunnar efst en grunnir dalir á milli. Ekki mjög aðlaðandi staður í regni og stormi. Margir kannast við hendinguna:

Átján öldur undir sand

eru frá Sauðafelli.

Og mikil skemmtun mönnum til forna að prjóna framan við góða fyrriparta.

Nú fer gróður að minnka, leiðin löng en melar og sandbreiður taka við. Helgufell, sem er á vinstri hönd (austan megin vegar), er kennt við konu sem varð úti einhvers staðar við fellið og hét Helga. Framan Helgufells er Arnarbæli.

Sunnan við Sandkúlufell

Sandkúlufell eða Kúlusandfell gnæfir nú yfir vegfaranda til hægri handar. Fellið er röskir 830 m yfir sjó og vel þess virði að ganga á það ef tími er nægur því uppgangan er ekki létt. Þaðan sést til háfjallanna í austri, suðri og vestri en þegar gengið er suður á fellið blasa við svokölluð Seyðisárdrög. Drögin eru mýrarflákar með tjörnum og smásprænum, allt grasi vafið. Það getur varla fegurri sjón í heiðskíru veðri en horfa af Sandkúlufelli yfir þetta land, sveittur og móður eftir uppgönguna, en í grænflákunum neðanundir glampar sólin á þúsund gimsteina. Þá rifjast upp kveðlingur Ásgríms Kristinssonar frá Ásbrekku, þótt annar staður sé hafður í huga:

Enn um þetta óskaland

ótal perlur skína.

Hitti ég fyrir sunnan Sand

sumardrauma mína.

Og á þessi vísupartur ekki að sanna annað en það að sveitamenn geti haft gaman af því að horfa á fjölskrúðugt landslag.

Sé nú aftur horfið á Kjalveg verður næst fyrir Kúlukvísl sem kemur frá Sandkúlufelli. Niður með kvíslinni er gamall gangnakofi úr torfi og grjóti sem nú hefur verið gerður upp. Fyrir gangandi menn er vel til fallið að tjalda þar því dagleiðin frá Áfanga er drjúg og enn talsverður spölur í hlýjuna á Hveravöllum. Það er upplagt fyrir bílandi fólk að fara sér hægt og taka nokkra klukkutíma til að ganga upp á fellin áðurnefndu og virða fyrir sér útsýnið. Þó skyldi hafa í huga að gönguferðir geta orðið drjúglangar því vegalengdir virðast styttri en þær eru í raun.

Frá Kúlukvísl að Seyðisá, sem er næsta kennileitið og er nú brúuð, er þurrlent, melar og lágar dældir en Blanda breiðir úr sér á vinstri hönd. Seyðisá kemur úr Seyðisárdrögum og er orðin allmikið vatnsfall enda aukin vatni af drjúgmiklu vatnasvæði.

Neðan við brúna yfir Seyðisá, til vinstri handar eða austurs, eru rústir eftir gamla rétt og þar hjá Biskupsáfangi þar sem biskupar hafa væntanlega gist á leið sinni milli landsfjórðunga. Nú liggur leiðin fram gróðurlitla mela en á hægri hönd glittir í kvíslar sem koma frá fjöllunum í vestri. Utar eru Búrfjöllin, heldur kollhúfuleg, vestan Seyðisárdraga, en sunnar Þjófadalafjöll með fjölmörgum hnjúkum. Neðan undir þeim eru svokallaðir Tjarnardalir, heillandi landslag í auðninni. Frá Kjalvegi er óravegur að fjöllum þessum og kallast Djöflasandur þar sem verst er yfirferðar enda væri hendingin "í birkilaut hvíldi ég bakkanum á" hið argasta öfugmæli á þeim sandi. Kindur finna hins vegar snapir í lægðum og kvosum á þessu svæði. Hér var eitt sinn ort:

Vindar svalir suðri frá

svífa um kalinn völlinn,

þó skal smala þokugrá

Þjófadalafjöllin.

Nokkur fell eru til suðurs nálægt veginum og ber hæst Dúfunefsfjall. Nafnið helgast af Þóri dúfunef sem átti hryssuna Flugu og lenti í kappreiðum við Örn nokkurn. Svo segir í Landnámu um fyrstu kappreiðar á Íslandi þar sem vitað er um úrslit:

"Þeir riðu báðir suður um Kjöl þar til er þeir komu á skeið það er síðan er kallað Dúfunefsskeið. En eigi varð minni skjótleiksmunur hrossa en Þórir kom í mót Erni á miðju skeiði. Örn undi svo illa við félát sitt að hann vildi eigi lifa og fór upp undir fjallið, er nú heitir Arnarfell, og týndi sér þar sjálfur, en Fluga stóð þar eftir því að hún var mjög móð."

Hveravellir

Hveravellir eru handan við sauðfjárveikivarnargirðinguna milli Norður- og Suðurlands og er nú komið fram milli jöklanna. Hofsjökull er í austri en að vestan er Langjökull en út úr honum gengur Regnbúðajökull alláberandi. Sunnlendingar kenna þennan jökul hins vegar við hrúta. Til suðurs glittir í Kerlingarfjöll en nær er Kjalhraunið með sínum harmsögum og ber þar Strýturnar hæst. Nú beygir vegurinn til Hveravalla til hægri en Kjalvegur heldur áfram suður á heiðar Biskupstungnamanna. Það má minna á að í Kjalhrauni er svokallaður Grettishellir þar sem sá forni kappi hafðist víst einhvern tíma við og rændi ferðamenn. Nú fara vegaránin hins vegar fram að siðaðra manna hætti í pylsusjoppum og á bensínstöðvum.

Hveravellir eru ein af mörgum vinjum hálendisins. Hverirnir liggja í grunnri lægð eða daladragi og frá þeim sitrar lítill lækur með grösugum bökkum. Hverirnir eru margir hinir fegurstu og hafa nú verið lagðir stígar úr timbri um svæðið. Er varasamt að fara út af þeim því víða er sjóðheitt undir. Syðst í hveradyngjunni er Eyvindarhver og mótar í hvernum fyrir hleðslu þar sem Fjalla-Eyvindur sauð kjöt sitt. Þar suður af er Eyvindarhola, hraunsprunga sem Eyvindur á að hafa reft yfir, ekki ýkja dægilegur bústaður. Ef áfram er haldið er komið að gömlum gangnakofa hlöðnum úr torfi og grjóti.

Á Hveravöllum er hægt að gista í skálum Ferðafélagsins. Nú stendur fyrir dyrum að færa aðalskálann lengra frá hverasvæðinu enda hefur gróðurlendið við kvíslina látið stórlega á sjá undanfarin ár fyrir ágangi ferðamanna. Er þess að vænta að það heillaskref komi gróðri á Hveravöllum vel í framtíðinni ef framkvæmdir tefjast ekki fyrir gnaddi misviturra lögspekinga.

Þegar hálendið er opnað ferðamönnum þarf að gæta fyllstu varúðar í umgengni við viðkvæma náttúru. Engir eru betur fallnir til þess að hafa umsjón með náttúruperlum landsins en heimamenn, sem þekkja landið af umgengni við það í misjöfnum veðrum á öllum árstíðum.

Hvað sem þessum vangaveltum líður þá er upplagt að ljúka ferðinni í litlu sundlauginni fyrir neðan hinn gamla skála Ferðafélagsins sem stendur í jaðri hverasvæðisins. Eftir þreytandi keyrslu, hoss á hestbaki, barning á hjólhesti eða tosandi göngu í sandroki í stinningsgolu er ekkert betra en að skella sér í heita laugina. Eftir slíkt bað sofnar maður sáttur við guð og menn.

Höfundur er íslenskufræðingur.