4. september 1990 | Miðopna | 513 orð

Jafn sannfærður og áður um að viðurkenna beri sjálfstæði Eystrasaltsríkja

Jafn sannfærður og áður um að viðurkenna beri sjálfstæði Eystrasaltsríkja -segir Þorsteinn Pálsson eftir viðræður við helstu ráðamenn Eistlands ÞORSTEINN Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, átti í gær viðræður við Arnold Ruutel, forseta Eistlands, og...

Jafn sannfærður og áður um að viðurkenna beri sjálfstæði Eystrasaltsríkja -segir Þorsteinn Pálsson eftir viðræður við helstu ráðamenn Eistlands

ÞORSTEINN Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, átti í gær viðræður við Arnold Ruutel, forseta Eistlands, og forseta þingsins í höfuðborg landsins, Tallinn. Þorsteinn segist jafn sannfærður um það og fyrr að Íslendingum beri að viðurkenna sjálfstæðiEystrasaltsríkjanna og styðja þau þannig í baráttunni við Moskvuvaldið. Eistlendingarnir sögðust eiga í samningaviðræðum við Moskvustjórnina en hvorki gengi né ræki. Þar á bæ virtust menn fremur hafa hug á að auka miðstýringarvaldið en draga úr því. Hins vegar lofuðu viðræður við Borís Jeltsín, forseta Rússlands, góðu.

Þorsteinn ræddi um röksemdir þeirra í lýðræðisríkjunum sem teldu varhugavert að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsstríkjanna. "Ég er mjög sannfærður um það eftir þessi samtöl að það er ekki eftir neinu að bíða fyrir okkur Íslendinga að viðurkenna formlega sjálfstæði Eystrasaltslandanna. Þeir leggja mikið upp úr því sjálfir og gera ekkert úr þeim rökum sem bæði heima og annars staðar á Vesturlöndum hefur verið beitt, að slíkar aðgerðir kynnu að skapa einhverja hættu fyrir þessi ríki. Þeir segja sjálfir þvert á móti að þetta myndi styðja þá mjög. Þeir eru einnig þeirra skoðunar að þetta geti hjálpað umbótasinnum í Moskvu; þeir fengju haldgóð rök til að verja sig fyrir gömlu stalínistunum. Umbótasinnar gætu þá einfaldlega vísað til þess að sjálfstæði landanna sé þróun sem ekki verði umflúin."

Þorsteinn sagðist telja greinilegt að viðræður Eistlendinganna við Jeltsín hafi skilað mun meiri árangri en viðræðurnar við Sovétstjórnina. "Hann er opnari fyrir því að viðurkenna sjálfstæði þessara ríkja og taka upp efnahagssamvinnu. Þeir eru að ræða hvorttveggja; efnahagsmálin og pólitísku stöðuna." Hann taldi að breið samstaða virtist um það meðal eistneskra stjórnmálaleiðtoga að taka bæri upp markaðskerfi í landinu og fylgja þannig sjálfstæðismálinu eftir. "Hér eru gamlir kommúnistar í felum. Niðri í miðborginni er stór bygging þar sem kommúnistaflokkurinn hefur haft aðsetur. Hún er núna hálftóm og yfirgefin. Við sjáum ekki sovéska fánann en sá eistneski blaktir alls staðar við hún."

Þorsteinn sagði ráðamenn gera sér vel grein fyrir þeim vanda sem rússneski minnihlutinn, meira en þriðjungur íbúanna, gæti valdið en segðu að það væri nokkuð sem tvö sjálfstæð ríki gætu samið um sín í milli og gætt þannig hagsmuna fólksins.

Ruutel forseti var mjög áhugasamur um nánari samskipti við Íslendinga og mögulegan stuðning þeirra. Hann ræddi einnig óskir Eistlendinga um að fá einhverskonar áheyrnaraðild að Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSE), einnig að Norðurlandaráði. "Ég tók mjög jákvætt íað þetta yrði skoðað af okkar hálfu," sagði Þorsteinn.

Hann sagði að skortur væri mikill á ýmsum nauðsynjum þótt Eistlendingar segðu að ástandið hjá þeim væri mun betra en víða annars staðar í Sovétríkjunum. Bensín skammturinn væri tuttugu lítrar á mánuði á bíl og undarlegt hefði verið að koma inn í verslun þar sem sjá mátti þrjú Lux-sápustykki, sem stillt var upp í glerskáp, eins og hverju öðru fágæti.

Með Þorsteini í förinni er Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Halda þeir til Litháens í dag, þriðjudag, og síðan heim á leið á morgun. Ferðin var farin í boði stjórna ríkjanna tveggja.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.