Ragnar Aðalsteinsson
Ragnar Aðalsteinsson
Viðtekin gildi nútímans eru að engu höfð, segir Ragnar Aðalsteinsson. Önnur og óútskýrð viðhorf ráða ferðinni.
DÓMSVALDIÐ hefur á síðari tímum hér sem annars staðar kvatt sér hljóðs á vettvangi samfélagsins til jafns við löggjafarvald og framkvæmdavald. Meðferð dómsvaldsins felst ekki lengur í því einu að segja upp lögin, að segja hver séu lög í landinu, heldur að túlka þau jafnframt í samræmi við þau gildi sem við erum sammála um.

Dómsvaldið hefur í breyttum heimi tekist á hendur hlutverk sem skapar mönnum í samfélagi örlög. Dómar skipta ekki lengur sköpum fyrir aðilana eina, heldur ná áhrif dóma til samfélagsins alls.

Dómarar eru gæslumenn stjórnskipunarinnar og gæta þess að farið sé að grundvallarreglum stjórnskipunarinnar. Þeir eru og gæslumenn mannréttinda og þeim er ætlað að tryggja framgang mannréttinda og það á jafnt við um borgaraleg, stjórnmálaleg, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg mannréttindi.

Lýðræðisleg skipan samfélagsins þýðir m.a. að veita ber ekki einungis meirihlutanum réttindi heldur og hvers konar minnihlutahópum. Það er hlutverk dómstóla að sjá til þess að minnihlutahópar njóti þeirra réttinda sem þeim eru áskilin. Dómstólunum ber að sjá til þess að meirihlutinn víki ekki réttindum minnihlutans til hliðar.

Ég leyfi mér að halda því fram að þessi skipan sé lýðræðisleg enda þótt dómarar séu ekki valdir í lýðræðislegum kosningum. Hún er lýðræðisleg vegna þess að henni er ætlað að tryggja það lýðræði sem felst í því að meirihlutinn misnoti ekki vald sitt þannig að grunnréttindi minnihlutans víki.

Af þessum forsendum leiðir að dómarastéttin verður að endurspegla það samfélag sem hún starfar í. Með því á ég við að dómarastéttin eigi að vera eins konar spegill þeirra sem í landinu búa. Við búum í samleitu samfélagi að mörgu leyti, þótt einnig það sé breytingum háð. Í landinu búa karlar og konur á misjöfnum aldri og með mismunandi búsetu. Jafnframt leika mismunandi hugmyndafræðilegir straumar um samfélagið og skipta íbúunum í hópa, ef til vill ekki mjög skýra, en nógu skýra til að auðvelt er að gera sér grein fyrir fjölbreytilegum hugmyndum um lausnir samfélagsmála og mismunandi gildismati.

Dómarastéttin verður að endurspegla það samfélag sem við búum í. Ástæða þess er sú að óhjákvæmilegt er að dómstólar búi við traust almennings og láti ekki undan ytri þrýstingi, hvorki löggjafarvalds eða framkvæmdavalds né heldur einkavalds. Landslýður verður að treysta réttsýni dómara og þáttur í því að tryggja það traust er að dómarar endurspegli samfélagið. Í dómarastétt eiga því að vera jafnmargar konur og karlar. Einnig eiga allir helstu hugmyndafræðilegir straumar að endurspeglast í dómarastéttinni. Dómarar eiga ekki að vera fulltrúar hópa eða hugmyndafræðilegra strauma, heldur endurspegla þá. Dómarar eiga að vera sjálfstæðir og óháðir.

Okkur hefur fram til þessa ekki tekist að skipa dómarastéttina með þessum hætti, m.a. vegna þess að valdið til að ákveða skipan dómara í Hæstarétt hefur verið í höndum ráðherra einna. Þessu þarf að breyta með ákvæði í stjórnarskrá og almennum lögum og fela öðrum en ríkisstjórninni ákvörðun um val dómara í Hæstarétt svo sem tíðkast í öðrum ríkjum. Takist okkur að fara eftir þessum sjónarmiðum um sjálfstætt og faglegt val á dómurum og um að dómstólar endurspegli samfélagið eykst traust á dómstólum og líkur á ytri þrýstingi minnka.

Hæstarétt hafa að undanförnu skipað níu dómarar, átta karlar og ein kona. Um laust embætti sóttu fjórir lögfræðingar; þrír reyndir dómarar og einn ráðuneytismaður án nokkurrar reynslu af dómsmálum. Svo vill til að dómararnir þrír eru konur en ráðuneytismaðurinn er karl. Ríkisstjórnin tók karlinn fram yfir konurnar og hann hefur verið skipaður níundi dómarinn og áttundi karlinn. Konurnar eru reyndir dómarar og eina þeirra valdi Hæstiréttur ekki alls fyrir löngu til að skipa dóminn sem varadómari um eins árs skeið. Hæfni þeirra er ekki dregin í efa. Ráðstöfun þessi er til þess fallin til að draga úr nauðsynlegu trausti almennings á Hæstarétti. Hæstiréttur verður ekki eins fær um að gegna hlutverki sínu og henni ella hefði orðið. Nútímaleg lýðræðisviðhorf hafa enn ekki náð fótfestu. Jöfnum stjórnarskrárbundnum rétti kvenna og karla er hafnað. Viðtekin gildi nútímans eru að engu höfð. Önnur og óútskýrð viðhorf ráða ferðinni.

Á unglingsárum mínum sögðu strákar í Vesturbænum og höfðu eftir amerískri kvikmynd: Never wait for a bus or a lady; there comes another. Ef til vill hefur ríkisstjórnin komið því til leiðar, að Hæstiréttur missti af síðasta strætisvagninum.

Höfundur er starfandi lögmaður í Reykjavík.