[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafrannsóknir - Töluvert er af síli hér við land, sandsíli, marsíli og trönusíli. Þessi síli eru ekki veidd þrátt fyrir verulega stofnstærð en þau eru mikilvægur hlekkur í vistkerfi hafsins. Valur Bogason, útibússtjóri Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum, skýrir hér frá rannsóknum á sílinu.

Hér við land finnast 3 tegundir af sandsílaætt, sandsíli, marsíli og trönusíli, og er marsíli meðal algengari fiska hér við land og mikilvægur hlekkur í vistkerfi hafsins umhverfis landið. Komið hefur í ljós að síli er mjög mikilvæg fæða margra nytjafiska, sjávarspendýra og sjófugla. Litlar rannsóknir hafa þó farið fram á því hér við land, helst er að nefna rannsóknir Hermanns Einarssonar og Eyjólfs Friðgeirssonar. Á árunum 1951 til 1955 greindi Hermann Einarsson sílisseiði til tegunda og skoðaði tímasetningu klaks og dreifingu seiða. Eyjólfur Friðgeirsson skoðaði magn og dreifingu sílislirfa árin 1976-1979. Einnig safnaði hann upplýsingum um líffræði sílistegunda á árunum 1978 til 1980 þegar fram fóru tilraunaveiðar á síli hér við land. Þrátt fyrir ofangreindar rannsóknir er þekking okkar á sílastofnum takmörkuð og því var sett af stað verkefni á Hafrannsóknastofnuninni til að afla nýrra gagna um síli.

Framkvæmd verkefnisins

Meginmarkmið þessa verkefnis eru tvíþætt. Annars vegar að auka þekkingu á líffræði sílistegunda hér við land og þá sérstaklega marsílis. Hins vegar að meta afrán annarra lífvera á síli á Íslandsmiðum með það fyrir augum að fá vísbendingu um stofnstærð og vægi sílis sem fæðu á íslensku hafsvæði. Til að meta afrán á síli eru notuð gögn sem safnað hefur verið á síðustu 10 árum. Til að afla gagna um líffræði sílis hefur verið farið í 8 leiðangra. Af þeim var fyrsti leiðangurinn viðamestur og var hann farinn 25.6.-1.7. 1998 á rannsóknarskipinu Dröfn. Svæðið frá Faxaflóa að Ingólfshöfða var kannað og fékkst síli á 16 stöðvum af 36 sem teknar voru (1. mynd). Sýnataka gekk að mestu eftir nema að ekki var hægt að fara að Eldey vegna veðurs, í staðinn voru skoðuð líkleg svæði við Reykjanesið. Síli fékkst á þremur svæðum, mest í Faxaflóa og við Ingólfshöfða, en minna út af Vík í Mýrdal.

Í framhaldi af þessum leiðangri var ákveðið að frekari gagnasöfnun færi fram á svæðinu sunnan Syðra Hrauns í Faxaflóa. Þangað voru farnir 7 leiðangrar, fimm á rannsóknarskipum og tveir á sanddæluskipinu Sóley. Í þessum 8 leiðöngrum hafa verið teknar 68 stöðvar, 60 með botntrolli, 1 með flottrolli og 7 með sanddælingu, og fékkst síli á 41 stöð. Sílisaflinn í öllum leiðöngrum, fyrir utan leiðangra á sanddæluskipinu var um 17 tonn og mestur aukaafli í togum þar sem síli fékkst var ýsa og lýsa eða samtals um 2 tonn af hvorri tegund. Afli annarra tegunda var mun minni. Aukaafli var mestur þegar lítið var um síli, hins vegar var aukaafli óverulegur þegar sílisaflinn var góður. Tvö tog skáru sig úr um afla, í Faxaflóa fengust tæp 5 tonn eftir 30 mínútna tog og um 4 tonn við Ingólfshöfða eftir 60 mín. tog. Notað var lítið rækjutroll með 10 mm klæðningu í poka. Í Norðursjó þar sem síli er veitt í stórum stíl eru notuð troll þar sem möskvinn í pokanum fer niður í 7 mm. Þar eru veidd 600 þúsund til 1 milljón tonn árlega af síli og er marsíli um 95% aflans.

Lifnaðarhættir

Sandsíli finnst aðeins á grunnu vatni við fjörur sunnan- og suðvestanlands. Hámarkslengd þess er um 20 cm og er það mjög líkt marsíli að ytra útliti og þarf að telja hryggjarliði til að greina tegundirnar í sundur. Marsíli er langalgengasta sílistegundin hér við land og lifir það á 10 til 150 metra dýpi og finnst allt í kringum landið, þó það sé algengast sunnan- og suðvestanlands. Hámarkslengd þess er um 25 cm. Trönusíli finnst eins og sandsílið aðeins sunnan- og suðvestanlands. Hámarkslengd þess er talsvert meiri en hinna tegundanna eða um 38 cm. Eins og nafnið á ættinni segir til um lifa síli á sandbotni og eru fullorðin síli fremur staðbundin. Á vor- og sumarmánuðum sýna marsíli greinilegar dægursveiflur í hegðun. Þau virðast vera í æti og laus frá botni yfir daginn, en grafa sig niður í sandinn yfir nóttina. Marsíli nota sjón við fæðunám og helsta fæða þeirra í Norðursjó er krabbadýralirfur, smákrabbadýr, fiskaegg og burstaormar. Fæða sílis hér við land virðist svipuð, en úrvinnslu á gögnum um fæðu sílis er þó ekki að fullu lokið. Yfir veturinn virðist sílið dvelja lengst af grafið í sandinn nema meðan hrygning fer fram. Hrygning hjá marsíli er í vetrarbyrjun frá miðjum október allt fram að áramótum, eggin eru botnlæg og klekjast í mars/apríl. Lirfurnar eru sviflægar í tvo til fjóra mánuði og myndbreyting verður við 35-55 mm lengd. Flest marsílii verða kynþroska eins árs. Marsíli eru frjósöm og framleiða hrygnur um 800 egg á hvert gramm fiskþyngdar eða milli 9 og 20 þúsund egg á hrygnu. Sandsíli og trönusíli hrygna líklega seinna, þ.e. frá áramótum til marsloka. Seiðin finnast víða við landið og verða þau botnlæg þegar líða fer á sumarið.

Aldurs- og lengdar- dreifing marsílis

Aldursdreifing marsílis í aflanum sýna að mest er af 1 til 3 ára marsíli (2. mynd) og seiði fara ekki að sjást fyrr en í júlí. Í Norðursjó þar sem stundaðar eru umtalsverðar veiðar á síli er aldursdreifing í aflanum þannig að mest fæst af 0 til 2 ára síli en hlutfall eldra sílis er mun minna í veiðinni þar en í þeim rannsóknartogum sem tekin voru hér við land. Elstu sílin sem fengust hér við land voru átta ára. Á myndum 3 má sjá meðallengd og meðalþyngd eftir aldri. Meðalþyngdin er breytileg eftir árstíma og svæðum, t.d. er greinilegt að vaxtarhraði er meiri við Ingólfshöfða en í Faxaflóa. Þyngdaraukning einstaklinga er mest á vorin og strax í ágúst fara kynþroska síli að horast aftur vegna þess að orkan fer í að þroska kynkirtla. Í Norðursjó er meðalþyngd eftir aldri svipuð og hér, en hún er þó talsvert breytileg á milli ára og gera má ráð fyrir að svo sé einnig hér við land.

Niðurlag

Auk þeirra atriða sem eru nefnd hér að ofan um aldurssamsetningu, vöxt, hrygningu og frjósemi, þá er úrvinnslu ekki lokið á gögnum um klak, tímasetningu og lengd þess en ætlunin er að tímasetja klakið með lestri á dægurhringjum í kvörnum seiða. Einnig er eftir að skoða betur fæðu, útbreiðslu og meta afrán á síli. Ljóst er að afrán á marsíli er talið í hundruðum þúsunda tonna hér við land þannig að marsílastofninn hlýtur að vera talsvert stór. Hins vegar hafa veiðar ekki verið stundaðar hér við land þar sem aukaafli er það mikill í veiðinni að ekki hefur verið talið ráðlegt að hefja veiðar úr stofninum.