Úthlutað úr Söngvarasjóði óperudeildar FÍL Söngvarasjóður óperudeildar Félags íslenskra leikara styrkir efnilega söngnema til náms og starfandi söngvara til frekari menntunar í list sinni. Sjóðurinn úthlutar nú í þriðja sinn samkvæmt nýjum reglum.

Úthlutað úr Söngvarasjóði óperudeildar FÍL Söngvarasjóður óperudeildar Félags íslenskra leikara styrkir efnilega söngnema til náms og starfandi söngvara til frekari menntunar í list sinni. Sjóðurinn úthlutar nú í þriðja sinn samkvæmt nýjum reglum. Þetta er því í þriðja sinn sem sjóðurinn auglýsir styrkveitingu opinberlega og óskar eftir umsóknum. Styrkveiting er háð því skilyrði að umsækjandi hafi lagt stund á söngnám um nokkurra ára skeið og ætli í enn frekara nám erlendis.

Alls sóttu 19 manns um styrk að þessu sinni. Voru umsækjendur allir í hópi okkar efnilegustu söngnema og einn söngvari. Til styrkveitingar í ár komu kr. 400.000 og ákvað sjóðstjórn að skipta þeirri upphæð í fimm hluta.

Styrk að upphæð krónur eitthundrað þúsund hlutu að þessu sinni þrír söngnemar, þær:

Hulda Guðrún Geirsdóttir sópran, sem stundar nú nám í M¨unchen í Þýskalandi annað árið í röð. Hulda Guðrún nam söng við Tónlistarskólann í Reykjavík. Kennari hennar var Elísabet Erlingsdóttir.

Guðrún Jónsdóttir sópran, sem stundar söngnám í Codigoro á Ítalíu. Hún lauk söngkennaraprófi frá Söngkennaraskólanum í Reykjavík vorið 1989. Guðrún hefur einnig verið við söngnám í Englandi.

Elsa Waage alt, sem stundar einkanám í New York í Bandaríkjunum. Hún lauk BA-námi frá Catholic University í Washington DC.

Styrk upphæð krónur fimmtíuþúsund hlutu tveir söngnemar. Þau eru:

Steinar Magnússon tenór, sem stundar nám í Bloomington í Bandaríkjunum við Indiana University School of Music. Hann hefur einnig verið við nám á Ítalíu.

Hlíf Káradóttir sópran, sem verið hefur við nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan einsöngvaraprófi sl. vor. Kennari hennar var Ruth L. Magnússon.

Fjórir af fimm styrkþegum eru þegar farnir utan til náms.

Í stjórn Söngvarasjóðs óperudeildar FÍL eru þau Elísabet Erlingsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Kristinn Hallsson.

Morgunblaðið/Sverrir

Styrkþegar, fulltrúar þeirra og stjórn óperudeildar.