Vilhjálmur með nýveiddan sel
Vilhjálmur með nýveiddan sel
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ætlunin er að sýningin um Vilhjálm Stefánsson fari til Reykjavíkur, en síðan áleiðis til Evrópu og eftir það vestur um haf. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Dartmouthháskóla í Hanover, New Hampshire, Bandaríkjunum.

Víkkað hefur þú, Vilhjálmur, veröld manna, þú hefur hrímtröll hamið. Norður-norna næturgestur og vætta vetrarríkis. Í frændsemd við firnindi og fjarlægð ertu - ert mögur morgunlands og í ætt við yzta norðurs sex mánaða sólskin.

Ætlunin er að sýningin um Vilhjálm Stefánsson fari til Reykjavíkur, en síðan áleiðis til Evrópu og eftir það vestur um haf. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Dartmouthháskóla í Hanover, New Hampshire, Bandaríkjunum. Sýningin er jafnframt liður í samstarfsverkefnum Akureyrarbæjar og Reykjavíkur menningarborgar 2000. Sérstakur ráðgjafi við hönnun og uppsetningu er Þórunn S. Þorgrímsdóttir leikmyndahönnuður en frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hefur Jónas Gunnar Allansson borið hita og þunga af hugmyndavinnu og framkvæmd. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra mun opna sýninguna en einnig verður viðstödd ekkja Vilhjálms, Evelyn Stefansson-Nef. Sýningin verður opin á Akureyri til 17. desember.

He imur Vilhjálms

Sýningunni er ætlað að veita innsýn í heim Vilhjálms, manneskjuna, vísindamanninn og spámanninn, en hvetja um leið til umhugsunar um ástand og framtíð norðursvæða. Uppistaðan í myndefni sýningarinnar er fengin úr Bókasafni Vilhjálms Stefánssonar við Dartmouthháskóla og er þar meðal annars fjöldi mynda sem ekki hafa sést hér á landi. Á sýningunni eru m.a. myndir gerðar eftir handmáluðum glerskyggnum sem Vilhjálmur notaði við fyrirlestra. Fræðimenn hafa bent á hversu meðvitað hann nýtti sér myndefni úr ferðum sínum um norðurslóðir Kanada og Alaska í þeim tilgangi að skapa jákvæðari sýn á þessi svæði og það fólk sem þar bjó (Woodward 1998).

Á sýningunni gefur einnig að líta fjölda tilvitnana í dagbækur sem Vilhjálmur hélt á ferðum sínum í þau u.þ.b. tíu ár sem hann dvaldi við rannsóknir og landkönnun á norðursvæðum Ameríku. Dagbækurnar sýna okkur þankagang Vilhjálms við misauðveldar aðstæður, heimspekilegar vangaveltur hans um tilgang ferða sinna, samskipti hans við inúíta og aðra samferðamenn og ekki síst vandamál tengd vettvangsrannsókn mannfræðingsins. Sumt af því sem þar stendur er furðu nútímalegt og jafnvel póstmódernískt. Eftirfarandi er tilvitnun úr dagbók Vilhjálms frá 10. desember 1909:

"Oft hefur það hvarflað að mér þegar ég hef litið í ferðadagbækur mínar, að ég hafi fjölyrt á mannamótum um staðreyndir sem ekki hafi verið til staðar á sínum tíma þegar viðkomandi atburðir áttu að gerast, staðreyndir sem síðar tengdust þessum atburðum svo sterkum böndum að þær urðu með einhverjum undarlegum hætti ljóslifandi í hugskoti mínu, eins og þær væru veruleikanum samkvæmt. Stundum hafi þær jafnvel orðið veruleikanum yfirsterkari og þokað til hliðar raunverulegum atvikum. Þegar samtímalýsing dagbókanna er knöpp verða slík "ævintýri"

óhjákvæmilega jafn raunveruleg, bæði fyrir mér og þeim sem taka mig trúanlegan, og hefðu þau í raun og veru átt sér stað."

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hefur í samstarfi við Mannfræðistofnun Háskóla Íslands, með styrk frá Landafundanefnd, unnið að því að koma dagbókunum á stafrænt form og gera þær þannig aðgengilegar almenningi og fræðimönnum. Verkið hefur verið undir stjórn prófessors Gísla Pálssonar, forstöðumanns Mannfræðistofnunar HÍ, sem hefur haft með sér vaskt lið mannfræðistúdenta. Við þetta krefjandi starf hafa fengist þau Kristín Erla Harðardóttir, Baldur A. Sigurvinsson, Ásdís Jónsdóttir, Óðinn Gunnar Óðinsson og Jónas Gunnar Allansson.

Skrift Vilhjálms er á köflum harla torlæs og reyndar kemur fram að hann átti sjálfur í örðugleikum með að lesa sumt af því sem hann skrifaði.

Hver var Vilhjálmur Stefánsson?

Um daginn spurði ég níu ára dóttur mína hvað hún vissi um Vilhjálm Stefánsson. Hún hugsaði sig um og svarað því svo til að hann hefði verið voðalega frægur, og að hann hafði verið frekar gamall þegar hann gifti sig. Hvort tveggja er rétt. En hversu mikið vita Íslendingar um Vilhjálm eða er hann kannski flestum gleymdur? Undanfarin ár hefur áhugi fólks aukist mjög á Vilhjálmi, æfi hans og verkum. Sett hefur verið á fót Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, með aðsetur á Akureyri, og er það íslensk norðurslóðastofnun sem hefur innlent og alþjóðlegt hlutverk í tengslum við rannsóknir, upplýsingamiðlun, ráðgjöf og samvinnu sem lýtur að sjálfbærri þróun og umhverfismálum á norðurhjara. Heimasíða stofnunarinnar, sem tilheyrir umhverfisráðuneytinu, er www.svs.is. Þar verður einnig innan skamms að finna sérstakan vef um Vilhjálm sem byggir að miklu leyti á dagbókum hans. Fyrir nokkrum árum gaf Hans Kristján Árnason út íslenska þýðingu á ævisögu Vilhjálms og gerði einnig um hann sjónvarpsmynd. Nokkrar myndir í viðbót um Vilhjálm, eða sem tengjast honum, munu vera í deiglunni.

Talsvert hefur verið fjallað um ínúítafjölskyldu Vilhjálms í Kanada og hefur það mál vakið nokkra athygli. Vilhjálmur hefur verið sakaður um að hafa yfirgefið og afneitað konu og barni þegar hann sneri úr ferðum sínum. Athyglisverð er þó niðurstaða Gísla Pálssonar prófessors sem biður menn að fara varlega með siðferðisdóma yfir Vilhjálmi í þessum efnum og bendir á að afneitun Vilhjálms hafi í raun verið að sumu leyti óhjákvæmileg. Vilhjálmur hafi aldrei ætlað sér að gerast veiðimaður og inúíti, sem hefði þýtt að hann hafði mátt rjúfa tengsl við heim hvítra manna og gefa upp á bátinn frama sem rithöfundur og vísindamaður (sjá grein í Morgunblaðinu, B 8-12).

Boðskapur Vilhjálms

Þegar upp er staðið er það hinsvegar boðskapur og lífssýn Vilhjálms Stefánssonar sem á enn erindi við okkur í samtímanum. Nafn Vilhjálms er nátengt norðurslóðum, rannsókn þeirra og könnun. Það er einnig tengt fordómalausri heildarsýn og þverfaglegri umfjöllun um þessi svæði. Í ritum Vilhjálms og rannsóknararfleifð er að finna hugmyndasjóð sem byggir á einstakri reynsluþekkingu Vilhjálms sjálfs á málefnum norðurslóða. Þaðan er ljós og sterk tenging við þá brýnu umræðu sem á sér stað um þessar mundir um vanda og möguleika samfélaga manna á norðurslóðum til sjálfbærrar þróunar. Í reynd snerist boðskapur mannfræðingsins Vilhjálms Stefánssonar að verulegu leyti um sjálfbæra þróun og samskipti manns og náttúru í viðleitni samfélaga til að lifa af á norðurslóðum. Hann kenndi Vesturlandabúum að þeir yrðu að virða náttúruna, en ekki síst að virða þá þekkingu sem heimamenn hafa aflað sér um hana í gegnum árþúsundir. Þessi boðskapur og lífsviðhorf gerði hann einstakan meðal heimskautakönnuða sem ekki höfðu allir sama skilning á mikilvægi þessa.

Vilhjálmur benti einnig á að það fólk sem hann dvaldist svo lengi meðal og lærði að virða og skilja, væri hamingjusamt þrátt fyrir takmörkuð veraldleg gæði. Lykillinn að þessu væri nægjusemi og takmarkaðar þarfir. Þessi skilaboð eiga ekki síst við í samtíma vestrænna neysluþjóðfélaga þar sem bæði óhamingja og umhverfisógn stafa að verulegu leyti af ofneyslu vegna ótakmarkaðra þarfa sem seint verða uppfylltar. Í fyrirlestrum sínum notaði Vilhjálmur samfélag og lífsviðhorf inúíta sem spegil fyrir bandaríska áheyrendur að sjá eigið samfélag í og þannig kom hann einatt á framfæri skarpri þjóðfélagsádeilu, en efldi einnig skilning fólks á eigin samfélagi. Það er sannarlega verðugt verkefni að taka upp þennan þráð og hvetja þannig almenning til íhugunar um líf sitt og samband neysluhátta, ofnýtingar náttúruauðlinda, umhverfiseyðingar og forgangsröðun þarfa.

Vilhjálmur Stefánsson var boðberi þess að norðurslóðir þyrftu ekki að vera lítt búsældarlegt jaðarsvæði ef fólk sem þangað kæmi kynnti sér mannvistfræði frumbyggja og tileinkaði sér fordómalaust þá miklu reynslu sem aðlögun samfélaga að hörðu umhverfi í árþúsundir leiðir af sér. Sjálfbær þróun snýst einmitt um að læra af reynslunni og horfa síðan til framtíðar, um mótun haldbærrar stefnu sem færir okkur ábyrg gildi og hegðun í veganesti fyrir núlifandi og komandi kynslóðir.

Norðurslóðir á mannöld

Við getum nýtt hugtakið mannöld (á ensku anthropocene) til að lýsa þeim miklu breytingum í umhverfi og veðrakerfum sem við erum vitni að. Það er svo komið að við mennirnir erum orðnir örlagavaldar fyrir vistkerfi og loftslag á jörðu. Þetta er alveg ný staða í sögu mannkyns. Á norðlægum slóðum eru þessar breytingar enn meiri og koma fyrr fram en víðast hver annars staðar í heiminum. Þessar hröðu breytingar munu gera enn meiri kröfu til aðlögunarhæfni samfélaga í norðurvegi, en jafnframt að alþjóðleg samvinna aukist þannig að norðurslóðabúar öðlist, með tilstilli samtaka, stofnana og samninga, styrkari rödd gagnvart umheiminum þannig að eftir verði tekið. Þarna er hlutverk ríkisstjórna mikið, ekki síst þeirra sem eiga aðild að Norðurskautsráðinu, en það eru Norðurlöndin, Kanada, Bandaríkin og Rússland. Eftir lok kalda stríðsins hefur þáttur alþjóðlegra samtaka af ýmsu tagi einnig aukist, enda svigrúm til þess þegar hinar hörðu leikreglur hernaðarvaldsins voru settar til hliðar og færi gafst að hafa áhrif með umræðum og lýðræðislegum samskiptum. Slík samskipti verði sífellt mikilvægari. Eitt dæmið um þessa þróun er hið nýja Rannsóknarþing norðursins (Northern Research Forum), sem mun leiða saman fólk frá öllu norðurskautssvæðinu til skrafs og ráðagerða varðandi sameiginleg hagsmunamál og viðfangsefni á norðurslóðum nútímans. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, átti hugmyndina að stofnun þessara alþjóðlegu samtaka en fyrsta ráðstefna þeirra stendur einmitt nú dagana 4.-6. nóvember á Akureyri og er sýningin um Heimsskautslöndin unaðslegu hluti af dagskrá ráðstefnunnar. Það á vel við að tengja sýninguna þinginu því Vilhjálmur var oft kallaður Mr Arctic, eða Herra Norðurslóð, meðal annars vegna þess hve mikil og góð samskipti hann átti við vísindamenn og aðra um gjörvallt norðurskautssvæðið, jafnvel á tímum kalda stríðsins þegar erfitt var um vik.

Margt hefur verið skrifað um Vilhjálm Stefánsson en það er viðeigandi að ljúka þessu spjalli með því að vitna í kvæði Stephans G. Stephanssonar sem hann orti um Vilhjálm og birtist í ljóðasafninu Andvökur:

Til Vilhjálms

Stefánssonar

Víkkað hefur þú, Vilhjálmur,

veröld manna,

þú hefur hrímtröll hamið.

Norður-norna

næturgestur

og vætta vetrarríkis.

Í frændsemd við firnindi

og fjarlægð ertu -

ert mögur morgunlands

og í ætt

við yzta norðurs

sex mánaða sólskin.

Heimildir:

Woodward, Kesler E. 1998. Persuasive images: photographs of Vilhjalmur Stefansson in the Stefansson Collection on polar exploration at Dartmouth College. Í Imaging the Arctic, ritstjórar J.C.H. King og H. Lidchi. Seattle: University of Washington Press.

Í frændsemd við firnindi

Höfundur er mannfræðingur og forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar