Jóhann Hjálmarsson
Jóhann Hjálmarsson
eftir Jóhann Hjálmarsson, Hörpuútgáfan, 2000 - 59 bls.

Særinn fer með honum. Sædrifinn kemur hann inn, sest við eldana. Saltið storknar á hörundi hans og hann snýr aftur til hafsins þar sem hann á heima, þangað sem hann kom frá og birtist á stofugólfi, þögull, einmana, ekki nema hálfur dauður. Þeir sem leita í hús eru horfnir okkur eru horfnir sjálfum sér. Hljóðleikar sækja að Nótt er myrk við Nes.

HVERFUM við hægt í skuggann með minnkandi birtu ævinnar þegar fram líða stundir? Hvert er innihald þess stutta skeiðs sem okkur er ætlað hér á jörð? Eða er tilvist okkar tilviljun og það eina sem heldur í okkur lífinu vonin um eilítið ljós í tilverunni. Slíkar tilvistarspurningar hafa sótt vægðarlaust að ljóðheimi Jóhanns Hjálmarssonar hin seinni ár og gefa honum nokkuð rökkvaðan blæ og tregablandinn. Sömuleiðis hefur borið á endursýn. Skáldið snýr heim á bernskuslóðir á Snæfellsnesi og leitar fanga í þeirri gullkistu sem fornritin eru, ekki síst í Eyrbyggju, Eiríks sögu rauða og Sturlungu. Fyrir bragðið gætu ljóðin virst hafa nokkuð rómantískan blæ við fyrstu skoðun þótt Jóhann víki raunar ekki langt af leið módernismans. Miklu nær væri að segja að fornritin væru Jóhanni sem hvert annað tilvísunar- og myndefni. Þótt hann sæki efni til þeirra eru kvæði hans fyrst og fremst huglæg, heimspekileg og raunar ákaflega þroskaður skáldskapur, þjóðlegur og alþjóðlegur í senn. Ljóðabókin Hljóðleikar ber þessi sömu merki. Titilljóðið sækir mynd sína í Eyrbyggju af manni sem kemur inn í hús með hljóðleikum - er kyrr og þögull. Það er óljóst hvort hann er lifandi eða dauður, kominn af hafi:

Særinn fer með honum.

Sædrifinn kemur hann inn,

sest við eldana.

Saltið storknar á hörundi hans

og hann snýr aftur til hafsins

þar sem hann á heima,

þangað sem hann kom frá

og birtist á stofugólfi,

þögull, einmana,

ekki nema hálfur dauður.

Þeir sem leita í hús

eru horfnir okkur

eru horfnir sjálfum sér.

Hljóðleikar sækja að

Nótt er myrk við Nes.

Raunar er kveðskapur Jóhanns leit að lausn á hinum lifandi dauða sem túlkaður er á svo áhrifamikinn hátt í þessu kvæði. Hvað eftir annað leitar hann að lausn, útgönguleið. Leitin hefur raunar verið eins konar leiðarstef í skáldskap Jóhanns frá upphafi. Á súrrealískasta tímabili sínu í bókinni Malbikuð hjörtu spurði hann í anda Rimbauds: ,,Hver getur unað lengur en dag / í hverjum afkima - nýjar leiðir blossa" og hann ræðir um að rofnir séu ,,seigdrepandi himnar bernskunnar". Þetta leitarstef birtist okkur svo aftur í Marlíðendum, síðustu ljóðabók Jóhanns, og nú í Hljóðleikum í kvæðinu Frá Boston:

Ég leitaði lengst niðri í djúpunum

að hinu einfalda og hinu djúpa

að því sem er sagt auðvelt

að því sem er sagt torfengið

að því sem minningin skrifar að því sem hugurinn neitar að skrifa

að því sem gæfi mér von

að komast upp héðan

frá svarthvítri mynd

til litríkara útsýnis.

Í Hljóðleikum vakir forgengileikinn yfir öllu, fjallað er um dauðleika holdsins en jafnframt er vafi um þéttleika tilverunnar: Kannski er lífið sjálfsblekking, kannski er það þessi ,,langi svefn / sem við vöknuðum úr" og ort er um í einu kvæðinu eða ,,skynvilla" sem vikið er að í öðru kvæði: "Við hugsuðum um hve líf okkar / liði skjótt, hvernig skuggar daganna lengdust / uns þeir rynnu saman við myrkrið, / yrðu sjálft myrkrið".

Það sem gerir skáldskap Jóhanns í þessari bók áhrifamikinn er hversu óhrætt skáldið teflir fram andstæðum lífs og dauða í eigin tilveru, hvernig andstæður eins og sorg og gleði og birta og myrkur eru fléttaðar saman í fáguðu myndspili. Ég nefni sem dæmi kvæðið Þegar sorginni linnir sem er einhvers konar lífsuppgjör um gleðina og sorgina í lífinu sem ,,haldast varnarlausar í hendur". Það kvæði er raunar öðrum þræðinum ljúfsárt ástarljóð en fá skáld yrkja fegurri slík ljóð en Jóhann. Kvæðin tileinkuð Ragnheiði, konu hans, eru ófá og eitt þeirra í þessari bók, stutt og tært, finnst mér með því besta sem ég hef séð í þeim dúr. Vald skáldsins á myndefninu er algjört og kvæðið fyrir bragðið einlægt og sterkt. Það nefnist Þú ert tunglið:

Ég vakna hjá þér og finn

bragð af tungli,

bragð af geislum.

Ég faðma þig,

fullan mána yfir Soho.

Hljóðleikar eru enn ein staðfesting þess með hvílíkum styrk Jóhann Hjálmarsson yrkir um þessar mundir. Í henni tekst skáldið á við tilvistarspurningar, teflir fram andstæðum lífs og dauða og leitar lausna. Spurningar eru settar vægðarlaust fram og svara leitað. Þetta er jafnframt hlýr og húmanískur skáldskapur þar sem ekkert er ódýrt.

Skafti Þ. Halldórsson