Ragnheiður Gestsdóttir
Ragnheiður Gestsdóttir
eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Vaka-Helgafell, 2000. 112 bls.
ÞESSI bók er sú nýjasta sem hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin.

Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka veitti fyrst verðlaun fyrir frumsamið handrit árið 1986 og síðan hafa verið veitt árleg verðlaun fyrir handrit að barnabókum fyrir utan síðastliðið ár er ekkert handrit þótti verðlaunahæft.

Upphafsmaður að þessum verðlaunum var Ármann Kr. Einarsson sem um langt árabil gladdi íslensk börn með sögum sínum.

Efni þessarar sögu er einelti og hvernig lítil stúlka vinnur á því með hjálp vinkonu sinnar og fjölskyldu og kemur sterk og heil út úr sínum hrellingum. Við kynnumst Sóleyju í upphafi bókarinnar þar sem hún er á leið í skólann og kvíður því mikið að koma þangað. Hún veit að hennar bíður kvöl og pína því bekkjarsystkini hennar, einkum þó bekkjarsysturnar, kvelja hana, kalla hana ónefnum og gera eins lítið úr henni og hægt er. Hún er samt ekki neitt öðruvísi en önnur börn, hvorki á hörundslit né á annan hátt. Hún hefur bara orðið fyrir þessu óskiljanlega aðkasti sem gerir líf hennar nær óbærilegt. Sóley vill þó ekki segja frá þessu heima og skólinn er alveg lokaður fyrir vandamálinu. Einna helst er látið að því liggja að það sé henni að kenna því hún aðlagist ekki og eigi ekki vini.

Heimilisaðstæður hennar eru þannig að hún býr ein með fráskilinni móður sinni og hún vill ekki valda móður sinni áhyggjum með því að segja henni frá vandanum. Sóley glímir líka við sársauka sem er í því fólginn að sjá pabba með nýrri konu. Og þegar þessi nýja fjölskylda vill skapa henni heimili hjá sér, bregst hún við af mikilli snerpu því hún veit þrátt fyrir allt hvað hún vill. Smátt og smátt sjáum við hvernig Sóley þroskast með hjálp nýrrar vinkonu sinnar sem aðstoðar hana þegar mikið liggur við. Hún telur í hana kjark og þær styðja hvor aðra til að ná þeim markmiðum sem báðar þrá.

Persónusköpun þessarar sögu er mjög nærfærin og höfundur lýsir þessum tilfinningum ákaflega vel og ekki er reynt að draga neitt úr hversu ömurleg aðstaða þeirra barna er sem lenda í einelti. Við kynnumst foreldrum hennar líka og höfundur hefur lagt mikla alúð við að sýna hverja persónu eins og hún er. Ekki er dæmt eða tekin afstaða heldur er sagan öll sögð af næmni og skilningi á tilfinningum og aðstöðu barns sem er vel greint og hefur marga hæfileika en fær ekki að njóta sín vegna eineltis. En í bókarlok er bjart fram undan og Sóley er nær því að skilja sjálfa sig og bera höfuðið hátt.

Hún hefur verið bæld og hrædd, en hún hefur sínar skoðanir og veit hvað hún vill og þarf ekki mikið til að breytast úr ljóta andarunganum í svaninn fallega.

Sigrún Klara Hannesdóttir