Valgeir Skagfjörð
Valgeir Skagfjörð
eftir Valgeir Skagfjörð. Kápa og teikningar: Guðjón Ketilsson. Mál og menning, 2000. 138 bls.
SAGAN er sögð af eldri manni sem rifjar upp æsku sína og það umhverfi sem hann ólst upp við. Í þetta umhverfi setur hann söguna, sem eftir myndskreytingu að dæma gæti verið Akranes. Lúkas er aðalsöguhetjan.

Hann er kynblendingur og dökkur yfirlitum en þó eins íslenskur og sá sem fæddur er og uppalinn á landinu. Lúkas er heilsteyptur og góður drengur, trúaður og heiðarlegur. Aðrar sögupersónur eru Jói sem verður vinur Lúkasar en bregst honum þegar honum er hótað ofbeldi, og svo hálfsystkini hans, Dísa og Lilli, sem eiga sömu móður og Lúkas. Auk þess eru í sögunni hrekkjalómarnir Kiddi kálhaus, Stebbi strý og Villi villingur. Þeir eru dregnir ósköp einlitum dráttum, skítugir og heimskir, raggeitur og aumingjar, nema þegar þeir eru saman í hóp og geta spanað hvern annan upp í að gera öðrum illt. Höfundur fær þeim fáar málsbætur og við kynnumst þeim sáralítið á annan hátt en þegar þeir eru að framkvæma sín ofbeldisverk, einkum á Lúkasi. Fullorðið fólk leikur minni hlutverk.

Mamma Lúkasar er í bakgrunni og virðist lítil tengsl hafa við drenginn. Guttormur stjúpi hans hefur það hlutverk að refsa stráknum fyrir að óhreinka fötin sín. Aðeins Jórunn, útgerðarkona sem rær á sinni eigin trillu, er persóna sem skilur eftir sig spor í sögunni. Eiríkur fyllibytta gleður Lúkas eitt sinn þegar hann segist hafa þekkt pabba hans og telur hann hafa verið mikinn listamann. Lúkas saknar þess alltaf að eiga ekki pabba eins og hin börnin.

Hann veit lítið um hann og hann er greinilega ekki umræðuefni á heimilinu.

Lúkas verður fyrir miklu aðkasti af hrekkjalómunum sem hafa ákaflega gaman af að misþyrma þeim sem eru minnimáttar og sumt af því sem Lúkas upplifir er hreint ofbeldi. Hann er píndur og kvalinn og við liggur að hann bíði alvarlegan skaða af. Söguþráður er lítið annað en barátta drengsins við ofureflið og að því er virðist er þetta vonlaust stríð. En svo hugkvæmist drengnum að færa stríðið inn á nýjar brautir með því að efna til íþróttakeppni og þá fer að birta til.

Lesandi fær mikla samúð með Lúkasi og baráttu hans en lesandinn getur líka undrast að svo ungur drengur skuli hafa trúarstyrk og kjark til að bjóða ofureflinu byrginn á þann hátt sem hann gerir.

Einelti er mikið vandamál og kannski eru þessar sterku og nákvæmu lýsingar á ofbeldinu til þess fallnar að sannfæra okkur um að þetta sé alvarlegt fyrirbrigði þótt það sé ekki nýtilkomið. Þó er lausnin heldur einföld í þessari sögu því Lúkas virðist algerlega einn í þessari baráttu og ef hann væri ekki svona sérstaklega vel gerður má búast við að þessar pyntingar héldu áfram. Enginn virðist skilja hvað gengur á og fullorðna fólkið gerir ekkert til að skakka þennan ójafna leik. Myndirnar af söguhetjunum gera þær allar heldur tröllslegar og ferlegar - söguhetjuna ekki síður en villingana.

Sigrún Klara Hannesdóttir