Hilmar J  Malmquist
Hilmar J Malmquist
Úrskurður umhverfisráðherra um námagröft í Mývatni er ómálefnalegur, segir Hilmar J. Malmquist, og byggist á afbökun málsatriða.

Örðug verður úrlausn hér illa stend að vígi. - Hálf-sannleikur oftast er óhrekjandi lygi.

MEÐFERÐ umhverfisráðherra á álitsgerðum sem hann óskaði eftir vegna stjórnsýslukæra á úrskurð skipulagsstjóra um kísilgúrnám í Mývatni er best lýst í kvæði eftir Klettafjallaskáldið Stephan G. Stephansson:

Örðug verður úrlausn hér

illa stend að vígi. -

Hálf-sannleikur oftast er

óhrekjandi lygi.

Í úrskurði skipulagsstjóra frá 7. júlí sl. kemur fram það mat hans að kísilgúrvinnsla í Syðriflóa hafi ekki skaðleg áhrif á lífríki Mývatns og því leggst hann ekki gegn námagreftri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Tíu stjórnsýslukærur bárust umhverfisráðherra vegna niðurstöðu skipulagsstjórans. Í kjölfarið óskaði umhverfisráðherra eftir umsögnum um kærurnar frá sérfræðingum í vistfræði á nokkrum rannsóknastofnunum. Stofnanir sem hafa vistfræði sem sérsvið og veittu sérfræðiálit um efni kæranna voru Náttúrufræðistofnun Íslands, Líffræðistofnun Háskólans, Veiðimálastofnun og Náttúruverndarráð. Meginniðurstaða allra þessara aðila var á sama veg. Í stjórnsýslukærunum væri "að finna veigamikil atriði studd gildum líffræðilegum rökum sem mæla sterklega á móti því að leyfa kísilgúrvinnslu í Syðriflóa Mývatns. Telja verður að þessi atriði nægi til að hnekkja úrskurði skipulagsstjóra" (Líffræðistofnun Háskólans), að "úrskurður skipulagsstjóra virðist byggður á veikum grunni og full ástæða til að endurskoða hann" (Veiðimálastofnun), að "Náttúrufræðistofnun Íslands [mælir] með því við umhverfisráðherra að felldur verði úr gildi úrskurður skipulagsstjóra" og "Náttúruverndarráð [tekur] undir fram komnar kærur þar sem lagt er til að úrskurður skipulagsstjóra frá 7. júlí sl. þar sem veitt er heimild til kísilgúrvinnslu úr Syðriflóa Mývatns verði felldur úr gildi."

Í úrskurði sínum minnist umhverfisráðherra ekki á þessar meginniðurstöður. Í staðinn rífur hann einstaka setningar úr ítarlegum greinargerðum úr samhengi og afbakar með því að búa til hálfsannleika sem gengur þvert á álit sérfræðinga hjá framangreindum stofnunum. Þannig kemst ráðherrann m.a. að þeirri niðurstöðu "að ekki hafi verið sýnt fram á að kísilgúrnám í Mývatni raski lífríki vatnsins" (bls. 48). Ekki síður er alvarleg afbökun ráðherrans á umsögn frá Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn en rannsóknastöðin er ráðherra til ráðgjafar um vernd og framkvæmdir við Mývatn. Í áliti frá Náttúrurannsóknastöðinni stendur: "Í úrskurðinum er ekki tekið tillit til ákvæða rammasamningsins um að nýting vatna eigi að vera skynsamleg og í honum er ekki tekið tillit til þeirrar áhættu sem tekin yrði með námagreftri í Syðriflóa vegna þess að röskun á lífríki Mývatns af hans völdum er líklegast óafturkræf."Ráðherra leggur út af þessari setningu og niðurstaðan verður: ,,Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að taka undir þá málsástæðu kærenda að röskun á lífríki Mývatns sé ekki sjálfbær, líklega óafturkræf og að ekki sé hægt að snúa við neikvæðu ferli sem leitt gæti af námavinnslunni" (bls. 56). Sem sagt, umhverfisráðherra telur að röskunin sé sjálfbær og afturkræf. Hér er algerlega ný hugmyndafræði á ferð sem þekkist hvorki í alþjóðasamþykktum né umhverfisfræði.

Ómálefnaleg meðferð umhverfisráðherra í þessu máli staðfestir enn einu sinni að alvarlegt sambandsleysi ríkir milli hans og fagaðila sem sýsla með náttúrufræði og umhverfismál í landinu. Hér verður að eiga sér stað breyting ella brennir umhverfisráðherra allar brýr að baki sér og náttúra landsins svíður fyrir. Í mikilvægum álitamálum er sú krafa sjálfsögð að umhverfisráðherra byggi niðurstöður sínar á áliti og ráðgjöf þeirra fagaðila sem hann leitar til, í stað þess að afbaka mál viðkomandi og hundsa.

Höfundur er doktor í vatnalíffræði og stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Íslands.