Gunnar Dal
Gunnar Dal
sagðar af Gunnari Dal. 271 bls. Nýja bókafélagið ehf. Prentun: Steinholt ehf. Reykjavík, 2000.
HVER SÁ, sem ferðast um Grikkland og skoðar fornminjar þar í landi, má sannfærast um að í verklegri tækni voru Grikkir komnir lengra fyrir þrjú þúsund árum en Íslendingar um síðustu aldamót. Rómverjar þágu menning sína frá Grikkjum. Þaðan barst svo bókmenningin til annarra landa Evrópu. Goðsögur þær, sem Gunnar Dal endursegir í bók þessari, veita okkur ekki aðeins hugmynd um trú fornþjóðarinnar. Þær sýna einnig fram á hvernig lífspeki Grikkja var í upphafi bundin trúnni. Grískir spekingar horfðu hátt, veltu fyrir sér lögmálum náttúrunnar og alheimsins og spáðu í tilvist mannsins á jörðinni. Frumspekin spratt af trúnni, goðsögunni. Þar að auki segja goðsögurnar okkur ótalmargt um daglegt líf í Grikklandi hinu forna. Vitsmunir og tilfinningar þjóðarinnar birtast þar í afstæðri mynd. Og enn lifir goðsagan með vestrænum þjóðum í fjölda hugtaka sem frá henni eru sprottin. Nærtækast er að minna á skáldfákinn, Pegasus. Í árdaga steig hann upp af öldum hafsins. Höfundur lýsir honum svo: »Pegasus er göfugastur og fegurstur allra hesta. Hann hefur fjóra fætur og tvo vængi. Þegar hann varð til þá hristi hann vatnið af vængjum og faxi og hneggjaði hátt og flaug beint upp á Ólympos og varð einn hinna ódauðlegu.« Akkillesarhæll er í orðabókum útlagt veikur blettur. Orðið er tekið beint upp úr goðsögunni. Akkilles féll fyrir ör. »Hún hæfði hann í hælinn,« segir sagan. Sakir velgengni sinnar og sigra yfir öðrum þjóðum urðu Grikkir með tímanum sjálfglaðir og sjálfhverfir. Stein einn í Delfí kölluðu þeir nafla heimsins. Síðan er sú líking tíðum höfð um borgir eða staði sem telja sig öðrum fremri, og þá í háði að sjálfsögðu. Ekkó merkir bergmál í vestrænum tungumálum. Upprunans er að leita í sögunni um vatnadísina Ekkó og Narkissos, sveininn sem hún unni. Hera »lagði það á Ekkó að hún missti röddina að öðru leyti en því að hún gæti endurtekið það sem sagt var við hana.« Að lokum var ekkert eftir af henni nema röddin. Þaðan er bergmálið. Örlög Narkissosar hafa ekki síður orðið skáldum hugstæð vegna þeirra sígildu lífsanninda sem sagan býr yfir. En kjarni dæmisögunnar er þessi: »Eitt sinn þegar Narkissos beygði sig yfir lind til að fá sér að drekka sá hann mynd sína speglast í sléttu vatninu. Á sömu stundu varð hann yfir sig ástfanginn af sjálfum sér.« Grikkir vissu að taumlaus sjálfselska hefur dauðann í för með sér. Sagan af Narkissosi skyldi minna á það. Ödipusduld - eða Ödípusarkomplex ef menn vilja heldur styðjast við erlend mál - merkir kynferðisleg þrá sonar til móður. Ödipus var borinn út en bjargað af fjárhirðum og ættleiddur. Hann komst að raun um að uppruni sinn væri á huldu og leitaði til Véfréttarinnar. Hún spáði honum »að hann mundi drepa föður sinn og kvænast móður sinni.« Freud og Jung og lærisveinar þeirra gerðu mikið úr sögu þessari og því gekk hún í endurnýjun lífdaganna á öldinni sem er að líða. Díónísos hét vínguðinn með Grikkjum. Rómverjar kölluðu hann Bakkus. Díónísos »gerði örlagaríka uppgötvun þegar hann fann vínberin. Af leiði vinar hans óx jurt með lauf sem minnti á hrokkið hár og hún bar vínberjaklasa. Díónísos greip einn vínberjaklasann og kreisti hann í höndum sér. Safinn draup niður í drykkjarhorn sem hann hafði meðferðis. Hann bragðaði á þessum drykk og þegar hann hafði drukkið hann hurfu allar áhyggjur hans.« Díónísos gaf heiminum vínið en varaði jafnframt við ofdrykkju. »Hann kenndi mönnum að blanda vínið vatni svo þeir misstu síður stjórn á sér.« Hvort sem nú Suðurlandabúar geyma í minni sögu þessa eður ei er svo mikið víst að enn í dag blanda þeir borðvín sitt með vatni. Mikil saga er sögð af Mínosi konungi og nautinu Mínótár. Gunnar Dal minnir á að það merki naut Mínosar. Tár eða táros, en taurus á latínu og toro á spænsku, er að sjálfsögðu sama og íslenska orðið þjór, samanber Þjórsá. Germanir voru næstu nágrannar Grikkja og tungumálin skyld.

Goðsögurnar grísku draga slóða aftan úr myrkri forsögunnar. Skáld og fræðimenn urðu að lokum til að skrásetja þær. Og þannig munu þær varðveitast um aldur og ævi. Gunnar Dal varpar í formála fram þeirri spurningu hvort sagnaritararnir hafi sjálfir trúað því sem þeir skráðu. Og svarið er í raun ótvírætt. »Flestar sögur í goðafræði Grikkja og Rómverja,« segir hann, »hafa borist til okkar í útgáfu skáldsins Óvíðs, sem var uppi á dögum Ágústusar keisara. Hann endursagði þessar sögur með svipuðu hugarfari og Snorri Sturluson norræna goðafræði. Óvíð kallaði þessar goðsögur ,,hrikalega lygi hinna fornu skálda". Hann endursagði þær mönnum til skemmtunar.«

Óþarft er að geta þess að það var gríska herveldið sem ruddi menningu fornþjóðarinnar braut hringinn um Miðjarðarhaf. Minna má á, þótt það komi ekki þessum fræðum við, að grískur sæfari, Pyþeas frá Massilíu - það er Marseille - mun fyrstur manna hafa komið til Íslands. Hann nefndi landið Thule. Ótrúlegt þótti Grikkjum það sem Pyþeas sagði af landi þessu að sól skini þar um nætur. Það mun hafa verið um 330 fyrir Krists burð sem hann sigldi út hingað.

Bók þessi er ekki hið fyrsta sem Gunnar Dal skrifar um gríska fornmenning. Fyrir margt löngu sendi hann frá sér bækur um gríska heimspekinga. Nefna má Sókrates, Öld Sókratesar og Aristoteles, auk þess sem hann hefur gert efninu skil í fleiri ritum. Vel má líta á þessa endursögn goðsagnanna sem framhald þess. Hann minnir á að höfundar þeir, sem fyrstir skráðu sögurnar, hafi verið í senn skáld og fræðimenn. Það liggur raunar í hlutarins eðli því hvort tveggja útheimtist að jöfnu til að fást við þessi fræði. Goðsagnaheimur Grikkja var víðfeðmur og margslunginn. Persónur og atburðir eru þar fleiri en tölu verði á komið ef allt er tínt til, goð, mennskar verur og dýr. Sögurnar bera líka vitni um skáldlegt hugarflug til jafns við hagnýt lífsannindi. Gunnar Dal tekur fram að sögunum beri ekki alltaf saman. Skiljanlegt er það ef haft er í huga að grísk menning teygði arma sína víða og varð síður en svo einsleit þegar stundir liðu. Goðsögurnar voru því víða skráðar og á mismunandi tímum. Formála sínum lýkur Gunnar Dal með þessum orðum: »Ég vona að þessar sögur reynist enn hollur skemmtilestur fyrir börn og unglinga og andleg auðlegð fyrir þá sem eldri eru.« Undir þá ósk er auðvelt að taka.

Erlendur Jónsson