Hólmfríður við slaghörpuna í Salnum.
Hólmfríður við slaghörpuna í Salnum.
"ÞAÐ er langt síðan ég hélt síðast einleikstónleika - lengra en mig langar að muna," segir Hólmfríður Sigurðardóttir píanóleikari hlæjandi en hún kemur fram á píanótónleikum í Salnum í kvöld kl. 20.
"ÞAÐ er langt síðan ég hélt síðast einleikstónleika - lengra en mig langar að muna," segir Hólmfríður Sigurðardóttir píanóleikari hlæjandi en hún kemur fram á píanótónleikum í Salnum í kvöld kl. 20.

"Ég hélt raunar tónleika með sömu efnisskrá á Ísafirði fyrr á þessu ári en annars hef ég um langt árabil einbeitt mér að því að leika með söngvurum. Það er allt annar handleggur."

Hólmfríður hefur eigi að síður haldið sig við efnið, æft eins og tími og orka hafa leyft. "Veturinn l996-97 sótti ég tíma í München hjá píanóleikaranum Ludwig Hoffmann og á liðnu sumri fór ég á námskeið í tengslum við alþjóðlega tónlistarhátíð í Portúgal hjá rússneska píanóleikaranum Vladimir Viardo, prófessor við Tónlistarháskólann í Moskvu. Það er eigi að síður töluvert mál að brjóta ísinn en ég fann að það var nú eða aldrei."

Á efnisskrá kvöldsins eru verk eftir J.S. Bach, W.A. Mozart, Franz Liszt, Edvard Grieg, Sergeij Rakhmanínoff og Dmitrij Kabalevskíj.

"Þetta spannar allt frá barokki fram á miðja tuttugustu öld. Mér þykir þægilegast að spila tónlist frá síðrómantík að nútímatónlist - hún stendur hjarta mínu næst. Ég spila alla jafna ekki mikinn Bach en held þó upp á útsetningar Busonis frá 19. öld - þær freista mín.

Mozart er í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur alltaf verið. Það leikur ljómi um nafn hans, líf og list. Hann er líka erfiðastur af öllum tónskáldum - hinn tónlistarlegi grunnur fyrir mig.

Ég hef gert töluvert af því að spila sönglög Griegs, þannig hefur hans yndislega tónlist náð til mín. Lögin sem ég leik eftir hann byggja á tónlistararfi sem stendur okkur Íslendingum nærri.

Franz Liszt er manna frægastur í píanóbókmenntunum. Það skrifar heldur enginn betur fyrir hljóðfærið. Það er virkilega gaman að spila hans verk.

Rakhmanínoff er líka þekktur fyrir sína píanótónlist. Ég er mjög hrifin af rússneskri tónlist. Í henni býr mikill kraftur, miklar tilfinningar.

Kabalevskíj skrifar líka vel fyrir píanóið. Hann hóf sinn tónsmíðaferil með því að skrifa kennsluefni og þróaði stílinn svo áfram."

En hvað með framhaldið? Er von á fleiri tónleikum fyrst Hólmfríður er komin í einleikshaminn?

"Það vona ég svo sannarlega. Mig langar að gera meira af þessu. Hef aldrei verið fyllilega sátt við að láta svona langan tíma líða milli tónleika. Vonandi hef ég orku til að halda þessu áfram."