ÍSLANDSSÍMI hefur fengið góð viðbrögð við því að bjóða heimilum upp á síma- og netþjónustu, að sögn Péturs Péturssonar, upplýsingafulltrúa Íslandssíma, en þessi nýja þjónusta fyrirtækisins var kynnt á föstudaginn var og auglýst um helgina.
ÍSLANDSSÍMI hefur fengið góð viðbrögð við því að bjóða heimilum upp á síma- og netþjónustu, að sögn Péturs Péturssonar, upplýsingafulltrúa Íslandssíma, en þessi nýja þjónusta fyrirtækisins var kynnt á föstudaginn var og auglýst um helgina.

Um þúsund manns hafa skráð sig og sagði Pétur að þeir væru mjög ánægðir með viðbrögð almennings.

Við skráningu hjá Íslandssíma þarf að gefa upp greiðslukortanúmer til þess að verða tekinn í viðskipti. Aðspurður um ástæður þessa sagði Pétur að með þessu móti sparaði fyrirtækið sér að reka innheimtudeild fyrst um sinn en það, ásamt góðum tækjabúnaði og lítilli yfirbyggingu, gerði fyrirtækinu kleift að bjóða hagstæðara verð en aðrir á þessum markaði.

Pétur sagði að þetta væri hagkvæmasti mátinn á innheimtu símgjalda, bæði fyrir viðskiptavininn og fyrirtækið.

Hann sagði að eftir sem áður fengi fólk senda reikninga heim. Fólk fengi einnig uppgefið leyniorð og gæti því fylgst jafnt og þétt með símanotkun sinni á vef Íslandssíma. Jafnframt gætu þeir sem vildu og óskuðu eftir fengið senda heim sundurliðaða símareikninga.