SJÁVARÚTVEGSRÁÐHERRA verður falið að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að gera úttekt á gildi fiskmarkaða fyrir íslenskan sjávarútveg og atvinnuþróun verði samþykkt á Alþingi tillaga til þingsályktunar sem sex þingmenn Samfylkingar hafa lagt fram.
SJÁVARÚTVEGSRÁÐHERRA verður falið að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að gera úttekt á gildi fiskmarkaða fyrir íslenskan sjávarútveg og atvinnuþróun verði samþykkt á Alþingi tillaga til þingsályktunar sem sex þingmenn Samfylkingar hafa lagt fram. Myndi nefndinni vera gert að afla gagna, bera saman aðstæður og leggja þannig mat á áhrif fiskmarkaða með tilliti til þátta eins og brottkasts, verðmyndunar sjávarafla, tekna útgerðar og fleira.

"Á fiskmörkuðum eru nú árlega seld um 100 þúsund tonn af bolfiski fyrir um 10 milljarða kr.," segir í greinargerð tillögunnar. "Flutningsmenn þessarar tillögu eru sannfærðir um mikilvægi fiskmarkaða fyrir þróun sjávarútvegs á Íslandi og telja því mikilvægt að gerð sé vönduð úttekt á helstu álitamálum sem fram hafa komið í umfjöllun um fiskmarkaði og mikilvægi þeirra."