[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ENGLARNIR hans Kalla drottna yfir bíólífinu vestra eftir að hafa staðið að sér harða samkeppni frá djöflum, sjóliðum og Marsförum - og það með glæsibrag.
ENGLARNIR hans Kalla drottna yfir bíólífinu vestra eftir að hafa staðið að sér harða samkeppni frá djöflum, sjóliðum og Marsförum - og það með glæsibrag. Þessi léttleikandi hasarmynd með tilheyrandi slagsmálum og sætum skutlum er ekki einungin sú mynd sem halaði mest inn í kassann síðustu bíóhelgi heldur fékk engin mynd eins mikla aðsókn miðað við fjölda sýningarsala - sem er mikið afrek með hliðsjón af því að um helgin voru frumsýndar þrjár stórmyndir. Nýjasta mynd Adams Sandlers Little Nicky náði ekki toppsætinu eins og spáð hafði verið. Þrátt fyrir það tók myndin alldrjúgt inn í kassann og fékk mjög fína aðsókn af gamanmynd að vera á þessum árstíma. Þeir sem séð hafa myndina tala um að þar sé Sandler aftur í sínu gamla kvikindislega grínformi - nokkuð sem harðir unnendur hans hafa saknað sárt í undanförnum myndum hans. Meðleikarar hans eru þau Patricia Arquette og Harvey Keitel sem leikur sjálfan Satan holdi klæddann. Heiðursmenn, Men of Honor, sem er vandað sjóliðadrama með þeim Robert De Niro og Cuba Gooding Jr. í aðalhlutverkum, náði svo þriðja sætinu en hin ofurstóra Rauða plánetan, Red Planet, með Val Kilmer marði fimmta sæti sem hljóta að teljast gríðarleg vonbrigði fyrir aðstandendur hennar því myndin var dýr og hefur verið lengi í smíðum. Næstu helgi verða jólin hringd inn í bíóhúsum vestra þegar fyrsta jólamynd ársins How the Grinch Stole Christmas með Jim Carrey verður frumsýnd og bíða menn álíka spenntir eftir því að sjá gengi hennar eins og börnin bíða eftir því að fá að opna hörðu pakkana.