Reynir Sigurðsson víbrafón, Þórir Baldursson píanó, Birgir Bragason bassa og Birgir Baldursson trommur. Múlinn í Betri stofu Kaffi Reykjavíkur sunnudagskvöldið 12.11. 2000.
ÞEGAR píanistinn John Lewis hljóðritaði með kvartetti Milt Jacksons 1951 leið ekki ár uns þeir gengu í eina sæng í The Modern Jazz Quartet: Módern djasskvartettinum. Þar var komin fram á djasssviðið stórkostlegasta kammersveit djassins síðan Benny Goodman stofnaði tríó sitt 1935. Ég var á tólfta ári þegar ég heyrði þá fyrst. Gunnar Reynir Sveinsson spilaði fyrir mig 45 snúninga plötu þar sem mátti heyra All the Things You Are, La Ronde, Vendome og Rose of the Rio Grande. Þetta var fyrsta plata MJQ og maður var bergnuminn. Ég fékk svo í fermingargjöf 12 tomma breiðskífu með þeim þar sem ég heyrði Bag's Groove fyrst. Þvílík snilli. Meira að segja æðri unnendur tónlistar kinkuðu kolli í viðurkenningarskyni, enda tokkötur og fúgur stundum á boðstólum hjá John Lewis. En það var nú kannski ekki það besta sem kvartettinn bauð upp á, heldur heitir blúsar og tilfinningaþrungnar ballöður í túlkun eins mesta einleikara djasssögunnar, víbrafónleikarans Milt Jacksons. Hann er nú látinn og kvartettinn fyrir bí, en til Íslands komu þeir á listahátíð 1984 og fóru létt með að leika kammermúsík í Laugardalshöll, sem er þó flestum ofraun.

Reynir Sigurðsson víbrafónleikari hefur löngum fyllt aðdáendaflokk MJQ og sl. sunnudagskvöld bauð hann upp á tónlist af efnisskrá kvartettsins á Múlatónleikum í Betri stofu Kaffi Reykjavíkur. Þetta er í annað sinni, sem ég hef heyrt íslenska djasssveit leika verk af efnisskrá heimsþekktrar djasshljómsveitar, þar sem hljóðfæraskipan hefur verið sú sama; hið fyrra skipti var er Pétur Grétarsson og félagar fluttu verk af efnisskrá Dave Brubecks-kvartettsins.

Verkin er kvartett Reynis flutti voru fjórtán og öll eftir John Lewis utan tveir blúsar Milt Jacksons: Bluesology og Bag's Groove. Öll voru þau samin á mektarárum kvartettsins frá 1952-59 utan eitt og flest voru þau flutt í anda MJQ. Þó voru skemmtilegar undantekningar á því eins og George Shearing útgáfa á Milano eftir Lewis. Verk John Lewis hafa ekki verið mikið leikin af íslenskum djassleikurum. Þó voru tveir ópusar hans oft á efnisskrá Guðmundar heitins Ingólfssonar: Skating in Central Park og The Golden Striker er Lewis samdi fyrir kvikmynd Rogers Vadims: Sólarlaust í Feneyjum. Bæði þessi verk fluttu þeir félagar með miklum ágætum. Stíll Þóris Baldurssonar liggur fjarri píanóstíl Johns Lewis, sem Guðmundur Ingólfsson varð fyrir áhrifum af, og því var skemmtilegt var að heyra Þóri skreyta sóló sinn garnerisma í Skating eins og Guðmundur gerði gjarnan.

Vendome með fúgublæ var ekki nógu nákvæmlega leikin af kvartettinum til að njóta sín, en annað var upp á teningnum í The Queen's Fancy, sem Lewis byggði á stefi er samið var fyrir Elísabetu fyrstu Englandsdrottningu. Það var firnavel flutt og sama má segja um lagið sem allir biðu eftir með öndina i hálsinum: Snilldarballöðu Johns Lewis í minningu gítarmeistara djassins: Django. Eftir að hafa heyrt verkið sagði félagi minn er sat hjá mér og drakk tónlist MJQ í sig fyrir nærri hálfri öld: ,,Mikið er notalegt að verða stundum ungur aftur."

Ungur samdi John lewis Two Bass Hite fyrir stórsveit Dizzy Gillespie, sem titlaður var meðhöfundur, en 1952 endurskrifaði hann það fyrir MJQ með trommarann Kenny Clarke í aðalhlutverki. Clarke lék það af fítonskrafti með kjuðum - seinna flutti Connie Kay það með kvartettinum á all annan hátt með burstum. Birgir Baldursson valdi leið Kenny Clarke í flutningi sínum á La Ronde og gerði það með miklum bravúr, ekki síður en Birgir Bragason bassaleikari, sem var í aðalhlutverki í Blues in a Minor, þar sem norrænn andi svífur yfir vötnunum. Það ríkir oft fágætur þokki í sólóum Birgis Bragasonar og svo var þetta kvöld. Sama má segja um sóló Reynis Sigurðssonar, en bestu sóló kvöldsins átti Þórir Baldursson þegar hann lét sjóða á keipum og í Bag's Groove lá við að hann vitnaði í flest stílbrigði píanódjassins í leik sínum.

Þetta var einstaklega ánægjulegt kvöld á Múlanum og þegar jafn vandvirkur og smekkvís tónlistarmaður og Reynir Sigurðsson fer með stjórn þarf engan að undara að árangurinn verði góður. Þarna fór saman virðing fyrir verkum Johns Lewis og skapandi spilagleði þótt sveiflan hefði mátt vera meira leikandi á stundum.

Vernharður Linnet