Jakob F. Ásgeirsson
Jakob F. Ásgeirsson
HJÁ Nýja bókafélaginu er komin út bók, sem ber heitið 20. öldin - Brot úr sögu þjóðar, í ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar.
HJÁ Nýja bókafélaginu er komin út bók, sem ber heitið 20. öldin - Brot úr sögu þjóðar, í ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Hér er á ferðinni alþýðlegt sagnfræðirit upp á 300 síður, þar sem sjónum er beint jafnt að lífi almennings á þessari öld sem merkum atburðum og stjórnmálaviðburðum. Bókin er byggð á sjónvarpsþáttum Jóns Ársæls Þórðarsonar, sem sýndir hafa verið á Stöð 2 að undanförnu og endurspeglar efnisval þáttanna, en er að öðru leyti sjálfstætt verk, að sögn Jakobs F. Ásgeirssonar.

"Þetta er fyrst og fremst myndabók, þar sem leitast er við að segja sögu þjóðlífs á Íslandi á 20. öld," segir Jakob. "Myndirnar í bókinni eru frá stærstu atburðum aldarinnar en einnig er lögð áhersla á að lýsa tíðaranda, svo sem bæjarlífi og tísku, og helstu tímamótum í atvinnusögunni. Höfuðáherslan er þó á mannlífið, þ.e. líf venjulegs fólks. Myndirnar eru hafðar mjög stórar og má segja að þær varpi að vissu leyti nýju ljósi á sögu aldarinnar. Texti bókarinnar er hugsaður sem viðbót við myndirnar fremur en sem skýring á þeim - og þar með er fólk hvatt til að "lesa" myndirnar. Stuttir inngangskaflar lýsa einkennum hvers áratugar, en að auki fylgir annáll um helstu viðburði hvers árs aldarinnar, þannig að bókin gefur glögga mynd af öldinni í heild og ætti að geta nýst jafnt ungum sem öldnum sem uppflettirit."

Hver opna í bókinni skapar eina heild, sem gefur möguleika á að drepa niður í henni án þess að hana þurfi að lesa spjaldanna á milli. Jakob segir mikið lagt í hönnun og útlit bókarinnar og bætir við að mjög óvanalegt sé í sögubókum að ljósmyndum sé gert jafnhátt undir höfði og í þessari bók.

- Úr því að bókin er byggð á þáttum Jóns Ársæls, fór þá ekki fram sjálfstæð efnisöflun við gerð hennar?

"Jú, ég tók texta þáttanna og vann hann upp á nýtt, bætti mörgu við og aflaði mér efnis eftir bestu fáanlegu heimildum. Bók og sjónvarp eru gerólíkir miðlar og því ekki nema eðlilegt að áherslur séu víða aðrar í bókinni en í hinum ágætu þáttum Jóns Ársæls. Bókin og þættirnir vinna hins vegar mjög vel saman - og er vonandi að framhald verði á samstarfi Nýja bókafélagsins og Stöðvar 2. Þetta mun vera í fyrsta sinn á Íslandi sem sjónvarpsstöð og bókaforlag taka höndum saman með þessum hætti og láta vinna tvö sjálfstæð verk um sama efni, annað til sýningar í sjónvarpi en hitt til útgáfu á prenti."

- En hvað segir ritstjórinn um öldina sem er að líða?

"Þegar maður skoðar sögu aldarinnar í heild sést berlega að þetta er mesta framfaraskeið Íslandssögunnar og alþýða manna fær í fyrsta sinn tækifæri til að njóta sín," segir Jakob. "Öldin sýnir einnig að þótt Íslendingar séu öðrum þræði mjög nýjungagjarnir eru þeir líka tortryggnir á breytingar. Má að sumu leyti segja að saga Íslendinga á 20. öld hafi einkennst af hverju varnarviðbragðinu af öðru til að bægja nútímanum frá. En síðustu árin hafa varnirnar brostið og mannlíf á Íslandi er nú að mestu orðið áþekkt því sem þekkist í öðrum vestrænum ríkjum."

Seint um kvöld 13. september 1950 fórst Geysir, önnur Skymaster-flugvél Loftleiða, á Bárðarbungu á Vatnajökli. Vélin hafði villst af leið. Hún var að koma úr leiguflugi frá Lúxemborg og var sex manna áhöfn um borð. Ekkert var vitað um afdrif Geysis þrátt fyrir umfangsmikla leit næstu daga og var talið víst að áhöfnin hefði farist með vélinni. En nær fimm sólarhringum eftir að vélin hvarf nam loftskeytamaðurinn á varðskipinu Ægi veikt neyðarkall frá Geysi: Staðarákvörðun ókunn - allir á lífi. Gleðifregnin barst á svipstundu um allt land. Flögg voru víða dregin að húni og í Kaffistofunni í Austurstræti var svohljóðandi skeyti sett út í gluggann: Geysir fundinn - ókeypis kaffi! Blöðin voru sammála um að sjaldan hefði fregn vakið eins mikinn fögnuð með þjóðinni. Nær þremur dögum seinna var áhöfnin á Geysi komin til Reykjavíkur. Tveir í áhöfninni slösuðust illa.

Jökulsævintýrið

Við björgun áhafnarinnar á Geysi varð bandarísk DC-3 flugvél innlyksa á Vatnajökli og reyndist ekki unnt að bjarga henni þrátt fyrir
ítrekaðar tilraunir bandarískra sérfræðinga. Stofnendum Loftleiða, flugstjórunum Alfreð Elíassyni og Kristni Olsen, fannst trúlegt að flugtak hefði mistekist í þunna loftinu uppi á Bárðarbungu og datt í hug að freista þess að draga vélina niður af jöklinum. Þeir keyptu vélina af Bandaríkjaher sem brotajárn næsta vetur og héldu í tólf manna leiðangur upp á Vatnajökul í apríl 1951. Leiðangurinn stóð í mánuð og var hin mesta þrekraun. Loftleiðamenn höfðu staðsett vélina nákvæmlega áður en hana fennti í kaf, en þurftu nú að grafa sjö metra eftir Jökli, en svo kölluðu þeir vélina. Þeim til furðu var flugvélin að mestu óskemmd og eftir að hafa dregið hana niður af jöklinum með tveimur jarðýtum, hófu þeir hana til lofts og flugu til Reykjavíkur. Loftleiðamenn högnuðust mjög á þessu ævintýri, því í leiðinni notuðu þeir tækifærið og björguðu miklu af farmi Geysis. Jökli breyttu þeir í farþegaflugvél og seldu síðan á góðu verði til Spánar þar sem Jökull flaug á vegum IBERIA í rúm tuttugu ár....