Flestum fulltrúum á þingi ASÍ gekk vel að kjósa með nýja rafræna kosningakerfinu.
Flestum fulltrúum á þingi ASÍ gekk vel að kjósa með nýja rafræna kosningakerfinu.
JENS Fylkisson, sérfræðingur hjá Einar J. Skúlasyni hf., segir að kosningakerfið Kjarval, sem notað er á þingi ASÍ, geti nýst til kosninga á hluthafafundum fyrirtækja og á félagsfundum og sé einfalt og hentugt í notkun.
JENS Fylkisson, sérfræðingur hjá Einar J. Skúlasyni hf., segir að kosningakerfið Kjarval, sem notað er á þingi ASÍ, geti nýst til kosninga á hluthafafundum fyrirtækja og á félagsfundum og sé einfalt og hentugt í notkun.

Rafræna kosningakerfið byggist á því að fulltrúar á ASÍ-þinginu nota strikamerki, sem þeir fá í upphafi þings, til að kjósa með því að renna strikamerkinu í gegnum lesara sem les atkvæði þess sem kýs og kjósandinn smellir síðan á þann eða þá sem hann ætlar að kjósa. Kostir kerfisins eru m.a. þeir að útilokað er að viðkomandi geti gert ógilt vegna mistaka. Fulltrúar á ASÍ-þinginu fara með atkvæði félagsmanna sinna sem hlutfall af stærð félaganna og er því mismunandi vægi á bak við hvert atkvæði. Jens sagði að einn af kostum kerfisins væri að það tæki tillit til þessa mismunandi atkvæðavægis. Meginkostur þess væri þó sá að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar fengist nánast um leið og atkvæðagreiðslu væri lokið, en ástæðan fyrir því að ASÍ óskaði eftir að ESJ léti hanna rafrænt atkvæðagreiðslukerfi var einmitt sú að mikill tími hefur farið í atkvæðagreiðslur á þingum þess.

Flestir kusu flatböku með ananas, lauk og sveppum

Reyna mun á kerfið í dag og á morgun þegar kosningar fara fram á ASÍ-þinginu, en í gær æfðu þingfulltrúar sig á kerfinu og sagði Jens að það hefði gengið vel. Fólk sem væri kunnugt tölvum hefði haft á orði að kerfið væri mjög einfalt. Þeir sem ekki höfðu unnið með tölvur hefðu ekki heldur átt í stórvandræðum með að kjósa, en sumir þyrftu að yfirvinna óttann við tölvurnar.

Fyrsta æfing á kerfinu fór hins vegar fram fyrir þingið, en smiðir sem sáu um uppsetningu kjörklefanna tóku þátt í henni. Kosið var milli ellefu mismunandi tegunda af flatbökum. Þess má geta að flestir völdu flatböku með ananas, lauk og sveppum og aðeins einn vildi fá flatböku með blóðmör.

Jens og samstarfsmenn hans hjá EJS hafa kannað ýmsar leiðir við rafrænar kosningar. Þeir fengu fyrr á þessu ári fyrstu verðlaun í samkeppni dómsmálaráðuneytisins um rafrænt kosningakerfi.