ÁKVÖRÐUN hefur verið tekin um að skipta út forstjóra Chrysler-hluta DaimlerChrysler-fyrirtækisins í Bandaríkjunum.
ÁKVÖRÐUN hefur verið tekin um að skipta út forstjóra Chrysler-hluta DaimlerChrysler-fyrirtækisins í Bandaríkjunum. James Holden, sem verið hefur forstjóri, mun að sögn Wall Street Journal láta af störfum á föstudag og við tekur Þjóðverjinn Dieter Zetsche, sem setið hefur í stjórn hjá DaimlerChrysler.

Þrátt fyrir ágæta sölu bifreiða í Bandaríkjunum hefur Chrysler gengið illa og það hefur haft slæm áhrif á afkomu DaimlerChrysler-samstæðunnar. Wall Street Journal segir þessa afkomu hafa valdið því að spurningar hafi vaknað um réttmæti samruna Daimler og Chrysler. Tilgangur samrunans átti meðal annars að vera að auka vöxt, en fjárhagsvandi fyrirtækisins hefur hins vegar orðið til þess að fráfarandi forstjóri Chrysler hefur ekki viljað útiloka uppsagnir starfsmanna í því skyni að lækka útgjöld á þessu ári um 2 milljarða Bandaríkjadala.