Thorvaldsenskonur afhenda gjöf til barnadeildar Landspítala í Fossvogi.
Thorvaldsenskonur afhenda gjöf til barnadeildar Landspítala í Fossvogi.
ÁRNI V. Þórsson, yfirlæknir barnadeildar Landspítala í Fossvogi, og Auður Ragnarsdóttir, deildarstjóri barnadeildarinnar, hafa sent frá sér eftirfarandi bréf í þakkarskyni í tilefni af 125 ára afmæli Thorvaldsensfélagsins: "Sunnudagurinn 19.

ÁRNI V. Þórsson, yfirlæknir barnadeildar Landspítala í Fossvogi, og Auður Ragnarsdóttir, deildarstjóri barnadeildarinnar, hafa sent frá sér eftirfarandi bréf í þakkarskyni í tilefni af 125 ára afmæli Thorvaldsensfélagsins:

"Sunnudagurinn 19. nóvember 2000 markar 125 ára afmæli Thorvaldsensfélagsins. Ekki þarf að kynna Thorvaldsensfélagið fyrir landsmönnum, en okkur langar fyrir hönd starfsfólks barnadeildar Landspítalans í Fossvogi að minnast í fáum orðum þess stuðnings sem deildin hefur hlotið frá Thorvaldsensfélaginu um langt árabil.

Árið 1961 eða fyrir rúmlega 39 árum var stofnuð barnadeild við Landakotsspítala og var sú deild starfrækt þar í 34 ár en var flutt 19. júlí 1995 í B-álmu Borgarspítalans. Frá fyrstu tíð hefur barnadeildin átt marga velunnara og velgjörðarmenn, en af öllum styrktaraðilum deildarinnar ber þó Thorvaldsensfélagið hæst. Árið 1972 gáfu Thorvaldsenskonur barnadeildinni 35 fullbúin sjúkrarúm og má segja, að þar með hefjist óslitin röð stórgjafa frá þeim.

Síðar gáfu þær deildinni gjörgæsluútbúnað, innbú í foreldraherbergi, myndskreytingar auk fjölda annarra gjafa, m.a. peningagjöf sem var stofnframlag til styrktarsjóðs barnadeildarinnar. Við flutning deildarinnar í Fossvog sýndu Thorvaldsenskonur enn hug sinn í verki og gáfu nær alla innanstokksmuni á barnadeildina, sjúkrarúm og borð, hægindastóla fyrir foreldra í hvert herbergi, fullkomið gjörgæslukerfi, tækjabúnað til svefnrannsókna og lungnaspeglunartæki. Í tilefni afmælisins nú hafa Thorvaldsens-konur tilkynnt veglega peningagjöf til deildarinnar. Gjöfinni verður varið til uppbyggingar endurhæfingaraðstöðu fyrir slösuð og fötluð börn og til styrktarsjóðs sykursjúkra barna og unglinga.

Hér hefur verið stiklað á stóru, en af því sem upp er talið má sjá að framlag Thorvaldsensfélagsins til barnadeildarinnar nemur tugmilljónum króna. Fyrir þennan ómetanlega stuðning viljum við færa okkar innilegustu þakkir.

Til styrktar velgerðarmálum hafa Thorvaldsenskonur ár hvert gefið út og selt jólamerki og jólakort og viljum við hvetja alla velunnara félagsins og deildarinnar til að minnast þess nú fyrir jólin.

Við sendum Thorvaldsensfélaginu hamingjuóskir með afmælið og óskum þeim velfarnaðar og blessunar í fórnfúsu starfi í framtíðinni."