17. desember 2000 | Minningargreinar | 1941 orð | 1 mynd

UNA JÓHANNESDÓTTIR

Una Jóhannesdóttir fæddist á Hofsstöðum í Viðvíkursveit í Skagafirði 15. febrúar 1913. Hún lézt á hjartadeild Landspítala í Fossvogi 8. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jóhannes Björnsson, bóndi og hreppstjóri á Hofsstöðum og síðar verkstjóri í Reykjavík, f. 1887 á Hofsstöðum, d. 1967, og kona hans Kristrún Jósefsdóttir skólastjóra á Hólum í Hjaltadal, f. 1887, d. 1978. Systkini Unu eru: Björn, jarðvegsfræðingur, f. 1914, d. 1990; Margrét, f. 1916, gift Ólafi Bjarnasyni, prófessor, f. 1914; Hólmfríður, f. 1919, gift Gísla Ólafssyni, ritstjóra, f. 1912, d. 1995; Jón Jósef, íslenzkufræðingur, f. 1921, d. 1981; Sigurður, forstöðumaður, f. 1925, kvæntur Þórhöllu Gunnarsdóttur, f. 1923; Einar, yfirlæknir, f. 1927, d. 1996, kvæntur Marianne Carlsson, f. 1936.

Una giftist Birni Sigurðssyni, lækni frá Veðramóti í Skagafirði, síðar forstöðumanni Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði á Keldum, f. 3. marz 1913, d. 16. október 1959. Foreldrar Björns voru Sigurður Árni Björnsson, bóndi, hreppstjóri og oddviti á Veðramóti, síðar framfærslufulltrúi í Reykjavík, f. 1884, d. 1964, og kona hans Sigurbjörg Guðmundsdóttir frá Holti í Svínadal, f. 1884, d. 1973.

Una og Björn giftu sig 16. maí 1936. Börn þeirra eru: 1) Edda Sigrún, augnlæknir í Reykjavík, f. 1936, d. 1987. Maki: Leifur Björnsson, læknir og prófessor í Chicago, f. 1931, þau skildu. Þeirra börn eru: Árni, skurðlæknir í Keflavík, f. 1958, Björn, bifvélavirki í Reykjavík, f. 1960, og Helga, viðskiptafræðingur í Genf, f. 1962. 2) Sigurður, yfirlæknir í Reykjavík, f 1942. Maki: Guðný Kristjánsdóttir, meinatæknir, f 1945, þau skildu. Þeirra börn eru: Kristín, læknir í Reykjavík, f. 1966, Björn Pétur, læknir í Gautaborg, f. 1969, og Signý Sif, verkfræðinemi í Bologna, f. 1978. Sambýliskona Sigurðar er Rakel Valdimarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður, f. 1946. 3) Jóhannes, yfirlæknir og prófessor í Rochester, Minnesota, f. 1947. Maki: Margrét Ingvarsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur, f. 1946, þau skildu. Þeirra börn eru: Björn, hagfræðingur í New York, f. 1973, og Una Björg, háskólanemi í Reykjavík, f. 1977. Sambýliskona Jóhannesar er Helga Þórarinsdóttir, víóluleikari, f. 1955.

Una lauk námi frá Kvennaskólanum í Reykjavík og stundaði síðan nám við verzlunarskóla í Skotlandi. Eftir það vann hún við skrifstofustörf m.a. hjá lögreglustjóranum í Reykjavík unz hún giftist Birni Sigurðssyni. Þau bjuggu í Reykjavík til 1938, í Kaupmannahöfn frá 1938 til 1940, í Bandaríkjunum frá 1941 til 1943 og í Reykjavík þar til þau fluttust að Keldum árið 1947. Eftir fráfall Björns flutti Una frá Keldum og bjó sonum sínum heimili í Reykjavík þar sem hún hóf störf sem læknaritari og síðan fulltrúi á Landspítala.

Útför Unu fer fram frá Fossvogskirkju á morgun, mánudaginn 18. desember og, hefst athöfnin klukkan 13.30.

Hún átti djúpar rætur í skagfirskri mold. Stofninn óx, varð beinn og sterkur enda næringin ærin þar sem voru traustir og samhentir foreldrar, fjölmennur frændgarður, ört vaxandi systkinahópur og íslenzk sveitamenning eins og bezt varð á kosið á fyrri helmingi tuttugustu aldar. Krónan breiddi úr sér, enda nægt rýmið, varð þétt og jöfn og vel til þess fallin, ásamt stofninum sterka, að standast hvern þann ágang og þunga, sem á kynni að falla. Jafnframt myndaðist þar gott skjól og vörn fyrir þá, sem þess kynnu að þarfnast, og átti eftir að gagnast mörgum.

Slík eik var móðir okkar, Una Jóhannesdóttir frá Hofsstöðum, frumburður foreldra sinna, fyrirmynd í stórum systkinahópi og áreiðanlega ímynd íslenzkrar æsku síns tíma. Hún varð lífsförunautur manns, sem batt bagga sína með nokkrum öðrum og nýstárlegri hætti en títt var um unga menn á umbrotatímum millistríðsáranna. Framlag hennar til vísindaafreka hans var verulegt

Hún stóð af sér slagveður jafnt sem blíðviðri, stofninn svignaði ekki né féllu laufin. Í upprifjun efri ára var henni mun tamara að minnast þess, sem vel hafði gengið, og var með nokkrum ólíkindum, hversu nákvæmar minningar hennar voru, hvort sem um var að ræða ljóðabálka numda í barnæsku eða atburðarás á langri ævi. Lestur sagnfræðirita var henni sérstakt ánægjuefni þar sem hún gat þá í huga og máli tekizt á við sagnaritara um túlkun atburða, sem hún hafði sjálf myndað sér skoðun á af eigin raun.

Okkur var hún bakhjarlinn, sem aldrei gaf sig, blíður en ákveðinn uppalandi, snjall kennari, réttlátur dómari og mild móðir.

Hennar verður saknað. Far þú í friði, móðir kær.

Sigurður Björnsson,

Jóhannes Björnsson.

Una Jóhannesdóttir, Imma, eins og hún var alltaf kölluð í fjölskyldunni og meðal vina og kunningja, þau Björn bróðir minn kynntust á unga aldri og felldu strax hugi saman. Hún hafði flutt til Reykjavíkur með hinum ágætu foreldrum sínum, Jóhannesi Björnssyni og Kristrúnu Jósefsdóttur, árið 1932 frá Hofsstöðum í Skagafirði. Hofsstaðarheimilið var viðurkennt sem sérstakt menningar- og framfaraheimili, enda hjónin bæði óvenjulega vel menntuð og þekkt af afskiptum sínum og forgöngu um ýmis velferðarmál í Skagafirði, þar á meðal ýmis menningarmál og skólamál.

Björn og Una giftu sig árið 1936. Þau höfðu snemma rætt mikið um þau grundvallarvísindi læknisfræðinnar, sem hann hafði sérstakan áhuga á og taldi sig færan um að takast á við, þannig að leiða mundi til nokkurra framfara, og hann hafði ákveðið að helga líf sitt. Hún fylltist áhuga á þessum málum, taldi augljóst að viðfangsefnin yrðu erfið og óljóst hvaða stefnu þau myndu taka. Hún ástundaði að afla sér þeirrar þekkingar, sem mögulegt var fyrir fólk utan vísindasamfélagsins og varð mikið ágengt.

Þegar Björn fór að vinna af fullum krafti við rannsóknir sínar fór eins og þau höfðu búist við og rætt um, að vinnutíminn varð að jafnaði mjög langur og erfiður. Stöðug einbeiting hugans að lausn flókinna viðfangsefna getur orðið þreytandi. Það kom því í hennar hlut að sjá um þarfir heimilisins og barnanna. Þetta varð að viðurkenndri og varanlegri verkaskiptingu þeirra á milli og féll báðum vel. Þau voru glaðvær og bjartsýn og þegar árangurinn fór að hafa veruleg áhrif úti í þjóðfélaginu, sem varð furðulega fljótt, var ennþá sjálfsagðara að gleðjast.

Jafnvel fjármál heimilisins urðu hennar verkefni. Hún tók við laununum og ráðstafaði þeim til þarfa fjölskyldunnar af hæfilegri sparsemi og varkárni. Öll þessi umsýsla fór henni með afbrigðum vel úr hendi og hún naut þess að gera sér ljóst, hvílík hjálparhella hún var manni sínum með hin erfiðu en mjög árangursríku störf hans. Hjónabandið var að öllu leyti hamingjusamt og ástúðlegt.

Þegar Björn fór fyrst utan til framhaldsnáms og rannsókna fóru þau til Kaupmannahafnar og þá með fyrsta barn sitt, Eddu, á öðru ári og tókst þrátt fyrir seinna stríðið, að komast heim árið 1940 - hún með barnið nokkru fyrr, en hann með hinni frægu Petsamo-ferð og kom heim með Esju haustið 1940. Í Kaupmannahöfn starfaði Björn við Carlsberg-stofnunina, en til þess fékk hann styrk hennar.

Þau dvöldu í Reykjavík tæpt ár, en fóru á miðju ári 1941 til Rockefeller-stofnunarinnar í Princeton, New Jersey. Þar voru þau þar til sumarið 1943 er Björn fór aftur að vinna við rannsóknir með Níels Dungal og að skipuleggja stofnun Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum. Á Keldum bjuggu þau þar til Björn féll frá, mjög fyrir aldur fram, 46 ára að aldri.

Þau Björn og Una voru hér um bil alveg jafngömul. Börnin urðu þrjú og urðu öll læknar. Edda varð augnlæknir, Sigurður sérfræðingur í lyflækningum og krabbameinslækningum og Jóhannes sérfræðingur í meinafræði. Það var mikið starf og ábyrgðarfullt að vaka yfir velferð þeirra og menntun. Allt gekk þetta mjög giftusamlega, enda þau öll fluggáfuð og settu markið hátt.

Nokkru eftir lát Björns fór Una að starfa hjá Landspítalanum við frágang ýmissa mála, en gerðist læknaritari og fljótlega fulltrúi og gegndi ýmsum störfum þar til hún hætti, sjötíu ára að aldri.

Una Jóhannesdóttir var glæsileg kona. Framkoma hennar var fáguð og kurteisleg, hver sem í hlut átti. Hún var elst systkina sinna og þannig í ýmsu fyrirmynd hinna yngri og eftirlæti forelda sinna. Hún var í meðallagi há og bar sig vel. Hárið brúnleitt og alltaf vel til haft, augun blá og oftast létt yfir svip hennar.

Það var oft gestkvæmt á Keldum, þegar æskilegt var talið að taka sér hvíld eitt kvöld eftir erfiði vikunnar og beina huganum inn á önnur svið. Þangað komu þá gjarnan ýmsir nánir vinir til að ræða vandamál líðandi stundar, fjalla um listir og menningu ýmiss konar eða lesa kafla og ræða þá úr ýmsum bókum, íslenskum eða erlendum, sem athygli höfðu vakið. Una var þá alltaf hinn skemmtilegasti gestgjafi og tók að jafnaði mikinn þátt í umræðunum. Ég varð oft undrandi yfir því, hvað hún komst yfir að lesa margar bækur, en því hélt hún áfram allt fram á síðustu ár meðan heilsan leyfði. Jafnvel þá var næmi hennar og minni svipað og áður og skýrleiki hugans slíkur að til var tekið.

Allra síðustu árin var hún oft illa haldin og taldi að best væri fyrir sig að fara að losna við erfiðleika sjúkdóms og ellihrumleika. Hún varð því fegin lausninni, enda orðin 87 ára gömul.

Við fjölskylda manns hennar minnumst hennar með söknuði og þakklæti fyrir langa og skemmtilega samfylgd.

G. Jakob Sigurðsson.

Frú Una Jóhannesdóttir andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 8. desember sl. Banamein hennar var lungnabólga.

Una sagði mér fyrir nokkrum vikum, að tími hennar væri kominn, og hún tók því með þessari skýlausu skynsemi sem einkenndi hana alla tíð.

Svo sannarlega mun ég sakna hennar, en vinninginn hefur minningin um 62 ára vináttu okkar, sem hófst í Kaupmannahöfn 1938. Það var ekki lítill fengur í að fá þau hjónin dr. Björn Sigurðsson lækni og konu hans Unu í fámennan hóp Íslendinganna. Björn hafði lokið læknisnámi heima á Íslandi og lagði nú á leið vísindanna með styrk frá Carlsbergssjóði Danmerkur. Una var útskrifuð úr Kvennaskólanum í Reykjavík og starfaði sem ritari hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík, Hermanni Jónassyni er síðar varð forsætisráðherra, en hann var frændi Unu. Björn og Una gengu í hjónaband 1936. Una fylgdi manni sínum eins og þá var venja, en hún hvarf ekki í skugga hans. Þau voru eins og tvö sterk tré er sólin náði að baða í geislum sínum.

Dvölin í Danmörku var ógleymanleg, en 1942 var Kaupmannahöfn orðin þátíð og Evrópa vígvöllur ungu kynslóðarinnar. Leiðir landans lágu nú í vestur, til Ameríku eins og fyrir mörgum öldum. Björn var nú á vegum Rockefeller Foundation í Princeton, New Jersey og starfaði í rannsóknarstofu Rockefeller Institute of Medical Research í Princeton. Á þessum árum bjuggum við hjónin í New York. Það var því aðeins vík milli vina og var okkur Sveini boðið að dvelja hjá Unu og Birni yfir jólahátíðina á þeirra yndislega heimili við skógarjaðarinn þar sem þau bjuggu með tveim börnum sínum, Eddu Sigrúnu sex ára og Sigurði á fyrsta ári.

Við áttum yndisleg jól saman og ég minnist þess enn hve þetta kvöld var ánægjulegt. Jóladaginn vorum við boðin með Unu og Birni til bandarískra vina þeirra, en Ameríkanar halda jól aðeins einn dag, hinn 25. desember. Þau áttu greinilega marga kunningja í Princeton sem skemmtilegt var að kynnast. Tíminn leið og lífið var unaðslegt.

Um síðir bar okkur báruskelin svarta öll heim að ströndum Íslands.

Una og Björn settust að á Keldum í nýbyggðu húsi langt frá Reykjavík. Vegurinn þangað var varla fær bílum, óupplýstur og holóttur. Móttökurnar á Keldum hlýjar eins og í Princeton. Þar áttum við margar eftirminnilegar stundir. Björn og Una voru frábærir gestgjafar og við glöddumst með þeim þegar þriðja barnið þeirra, Jóhannes, kom í heiminn. Lífið var unaðslegt.

Raunin var mikil þegar Björn lést 46 ára. Una vinkona var orðin ekkja. Hún stóð sem klettur úr hafinu sem öldurnar brotnuðu á. Hún tók upp fallega heimilið þeirra, flutti til Reykjavíkur og gerðist læknaritari við Landspítalann.

Börn Björns og Unu urðu öll læknar. Edda Sigrún augnlæknir en hún lést 51 árs 1986. Sigurður yfirlæknir krabbameinsdeildar við Landspítalann í Fossvogi. Jóhannes meinafræðingur, prófessor við Mayo Clinic í Minnesota í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Bróðir Unu, dr. Björn Jóhannesson verkfræðingur, lést 12. desember 1990 og var jarðsettur 18. desember, sama mánaðardag og Una verður jarðsett.

Una var merk kona, hún stóð ekki ein því hún var ætíð umvafin kærleika barna sinna og barnabarna. Við vinir hennar kveðjum hana með þakklæti.

Blessuð sé minning hennar.

Aðalheiður Guðmundsdóttir.

Sigurður Björnsson, Jóhannes Björnsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.