[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ þekkja allir sannir ferðamenn þá duldu hvöt að þurfa ætíð að kaupa sér þjóðlegt póstkort með myndum sem á einn eða annan hátt þykja einkennandi fyrir land það og þjóð sem sótt er heim.
ÞAÐ þekkja allir sannir ferðamenn þá duldu hvöt að þurfa ætíð að kaupa sér þjóðlegt póstkort með myndum sem á einn eða annan hátt þykja einkennandi fyrir land það og þjóð sem sótt er heim. Erlendir ferðamenn sem heimsótt hafa Skerið hafa hingað til átt kost á að taka heim með sér póstkort með myndum af náttúruperlunum okkar, Gullfossi, Geysi, Perlunni, lundanum, sauðkindinni og ekki má gleyma þarfasta þjóninum. En er ekkert fleira sem við erum stolt af og teljum að minni túristana á dvöl sína hér? Egill Egilsson, ljósmyndari og blaðamaður, hefur lengi verið þeirrar skoðunar og um alllangt skeið hefur blundað í honum löngum til að auðga flóru íslenskra ferðamannapóstkorta: "Ferðamannamarkaðurinn er eiginlega orðinn mettaður af hinum dæmigerðu náttúruperlupóstkortum og ég tel mig fullvissan um að rými sé fyrir öðruvísi póstkort, tími til kominn að fá tilbreytingu í þeim efnum." Það sem Egill setur á oddinn í nýju póstkortaröðinni sinni sem nú er farin að fást í helstu ferðamannaverslunum landsins er annars konar íslensk fegurð en nátturuperlanna, nefnilega fegurð íslensku þjóðarinnar: "Ég legg áherslu í þessum póstkortum á fegurð íslenskra kvenna en velgengni þeirra í alþjóðlegum fegurðarsamkeppnum í gegnum árin hefur sýnt að útlendingum þykja íslenskar konur gullfallegar og heillandi. Eftir að hafa sótt okkur heim og orðið vitni að þessari miklu fegurð vilja ferðamennirnir vitanlega taka minningarnar með sér heim í formi póstkorta, ekki síður en minningar um aðrar náttúruperlur." Á hinum nýju póstkortum má sjá ljósmyndir af fyrirsætunni Ásdísi Gunnarsdóttur í fjölbreytilegu umhverfi: úti á túni, í faðmlögum við íslenska hestinn og fyrir framan styttuna af Leifi Eiríkssyni heppna. "Undir eru síðan létt skilaboð til ferðamannanna eins og: "Svo þú heldur að við séum eskimóar? Hugsaðu þig um tvisvar." Þar er t.d. verið að leiðrétta algengan misskilning útlendinga um íslensku þjóðina." Egill segir nýju póstkortaröðina einungis vera upphafið. Fleiri muni fylgja í kjölfarið: "Ég ætla náttúrlega ekki að einblína á fegurð íslensku konunnar, karlmaðurinn fær líka að njóta sín í framtíðinni og svo maturinn, lambið og fiskurinn. Síðan verð ég tilbúinn með nýstárleg jólapóstkort fyrir næstu jól."