Agatha Christie fær sér tesopa á þeim tíma sem hún dvaldi ásamt manni sínum við uppgröft og skriftir í Sýrlandi.
Agatha Christie fær sér tesopa á þeim tíma sem hún dvaldi ásamt manni sínum við uppgröft og skriftir í Sýrlandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
É g er ánægð, ég hef gert það sem mig langaði til að gera," skrifaði Agatha Christie árið 1965 í endurminningum sínum.

Ég er ánægð, ég hef gert það sem mig langaði til að gera," skrifaði Agatha Christie árið 1965 í endurminningum sínum. Hún var eins og flestum er kunnugt einhver vinsælasti og afkastamesti sakamálasagnahöfundur heims og því ekki að ófyrirsynju að hún var kölluð "Queen of Crime", drottning glæpasagnanna. En hvernig manneskja skyldi hún hafa verið, konan sem skrifaði um 80 sakamálasögur og leikrit, auk þess sem hún skrifaði ljóð og nokkrar rómantískar skáldsögur undir nafninu Mary Westmacott. Þá gaf hún út tvær bækur undir nafninu Agatha Christie Mallowan og er önnur þeirra, Come, Tell Me How You Live, byggð á ýmsum atburðum úr lífi hennar og síðari manns hennar, fornleifafræðingsins Max Mallowans er þau voru í Sýrlandi.

Þrátt fyrir þessi miklu afköst átti hún sér lengst af enga skrifstofu heldur skrifaði verk sín við eldhúsborðið, borðstofuborðið en við önnur traustbyggð borð sem gátu vel borið ritvélina hennar. "Ég var oft í vandræðum þegar kom til mín fólk og vildi sjá skrifstofuna mín," segir hún. Agatha lærði hraðritun og skrifaði oft uppköst að bókum þannig en síðari árin skrifaði hún sögur sínar beint á ritvélina. En hvaðan kom Agatha Christie og hvernig var hennar persónulega líf? Á hvað lagði hún áherslu og hver var uppspretta allra þessara bóka?

Átti hamingjusöm æskuár

"Eitt mesta lán manna er að eiga hamingjusama bernsku. Ég var hamingjusöm í minni æsku", segir Agatha í upphafsorðum endurminninga sinna, er hún fjallar um Ashfield, æskuheimili sitt, þar sem hún fæddist árið 1890. Hamingju æskuáranna þakkar hún ekki síst föður sínum. Af

því tilefni vitnar hún í orð David Copperfield, sögupersónu Charles Dickens, sem spyr hvort tiltekinn maður hafi verið "an agreeable man".

"Oh, what an agreeable man he is", svaraði Peggotty.

Faðir Agöthu, Fred Miller var að hennar sögn afar þægilegur maður. Hann þurfti ekki að vinna til að sjá fjölskyldu sinni farborða, faðir hans hafði verið ríkur Bandaríkjamaður og skildi eftir sig fjármuni sem héldu Millersfjölskyldunni uppi, svo og ekkju hans, sem var ömmusystir Agöthu og ól upp móður hennar.

Þekkti aðeins 4 verulega hamingjusöm hjónabönd

"Ég hef áhuga á sögu foreldra minna, ekki aðeins af því þeir voru foreldrar mínir, heldur af því að þau lifðu í hamingjusömu hjónabandi sem er að mínu viti afar sjaldgæft. Fram til dagsins í dag, (2. apríl 1950) hef ég aðeins vitað um fjögur verulega hamingjusöm hjónabönd. Í einu tilvikanna var maðurinn fimmtán árum eldri en eiginkonan - í öðru tilviki var maðurinn fimmtán árum yngri en eiginkonan. Hún neitaði hinum unga biðli árum saman en hann hafði sitt fram og þau lifðu í hamingjusömu hjónabandi í 35 ár, þar til dauðinn aðskildi þau", segir Agatha í endurminningum sínum.

Viktoríanskur rómans

Sjálf var hún tvígift og var seinna hjónaband hennar mjög hamingjuríkt.

Agatha fæddist og ólst upp í enska smábænum Torquay, yngst þriggja barna Fred Millers og Clöru Coehmer Miller. Þau höfðu kynnst á heimili föður Freds og seinni konu hans, móðursystur Clöru. Faðir Clöru dó af slysförum þegar hún var barn og móðir hennar sendi hana systur sinni til uppeldis. Hin barnunga Clara varð ástfangin af syni uppeldisföður síns, sem hafði alist að mestu upp hjá afa sínum og ömmu á Nýja Englandi. Clara var falleg stúlka og hæglát en Fred var glaðsinna heimsmaður. "Þetta var dæmigerð viktorínsk rómantík", segir Agatha. Fred skrifaði Clöru frá New York, þar sem hann var að skemmta sér með ungu fólki og hún skrifaði honum aftur alvarleg bréf sem hann geymdi til æviloka í bróderuðu veski sem hin unga Clara saumaði handa honum meðan þau voru í tilhugalífinu.

Elsta barn Millershjónanna var Monty sem fæddist í Ameríku. Millershjónin voru hins vegar nýlega flutt til Torquay þegar dóttir þeirra Madge fæddist. Hún og Agatha urðu mjög samrýndar er þær voru báðar orðnar fullorðnar. Systkini Agöthu voru það eldri en hún að þau voru farin til náms þegar hún fór að láta að sér kveða á heimilinu.

Átti notalegan föður og móður með mikið innsæi

Föður sínum lýsir Agatha sem afar þægilegum manni, sem eyddi tíma sínum ýmist í klúbbnum sínum eða á heimilinu, sáttur við sjálfan sig og umhverfi sitt. Hann virðist hafa verið jarðbundinn maður, notalegur en ekki duglegur. "Núna þætti hann vafalaust ekki hafa marga kosti þar sem hann var ekki laginn við að koma sér áfram eða vinna fyrir peningum. Hann átti hins vegar kærleiksríkt hjarta og margir söknuðu hans þegar hann lést", segir Agatha.

Móður sinni lýsir Agatha svo að hún hafi séð heiminn í bjartari litum en raun bar vitni og hafi það verið andsvar hennar við heldur dauflegri æsku, Clara var hlédræg kona sem hafði mikið innsæi. "Allt sem ég vil að mamma viti ekki um þori ég ekki einu sinni að hugsa um í návist hennar," sagði systir Agöthu einu sinni.

Lifði í sínum hugarheimi

Agatha hafði frá unga aldri mikið ímyndunarafl og lék sér gjarna við börn sem enginn sá nema hún og bjó sér þannig til sinn eigin heim að nokkru leyti. Þar til Agatha var ellefu ára gekk allt allvel, en þá dó faðir hennar. Hann hafði þá þjáðst af hugsýki um tíma vegna þess að fjárfestingar sem gerðar höfðu verið til að tryggja honum lífsviðurværi dugðu ekki lengur til þess. Hann átti m.a. leiguhúsnæði í New York. Eftir dauða heimilisföðurins lögðust af vikuleg samkvæmi húsmóðurinnar og draga varð verulega saman í öllu heimilishaldi. Ekkjunni var ráðlagt að selja hús sitt Ashfield en m.a. vegna andstöðu Agöthu dóttur sinnar seldi Clara ekki húsið heldur áttu þær mæðgur þar heimili sitt, og þar dóu báðar ömmur Agötu og móðir hennar eftir langt og farsælt líf.

Eftir dauða manns síns fór Clara að ferðast um með yngstu dóttur sína. Eldri dótturinn Madge var þá gift Jimmy Watts, vel ættuðum og efnuðum manni og sonurinn Monty var í Afríku, hann var ævintýramaður sem alla tíð gerði sér óraunhæfa mynd af heiminum og neitaði þverlega að taka nokkra ábyrgð, móður sinni og systrum til mikillar armæðu, en þær urðu að sjá fyrir honum eftir að hann kom sjúkur heim frá ævintýralífi sínu.

Menntun og skólaganga

Clara sá um að Agatha lærði frönsku, bæði af barnfóstru sem hún fékk til að sinna henni um tíma og eins fór hún með hana til Frakklands þar sem þær bjuggu á gistiheimili og Agatha sótti skóla. Hún skipti oft um skóla og fékk ekki markvissa menntun, nema þá í tónlist, en hún varð allgóður píanóleikari. Hún ætlaði um tíma að leggja fyrir sig píanóleik og spurði kennarann sinn hvaða möguleika hún ætti í þeim efnum. Hann ráðlagði henni að taka sér eitthvað annað fyrir hendur. sem hún gerði með heimsfrægum árangri.

Hlakkaði til að fá myndarlegan bakhluta

Agatha náði í skottið á þeirri kynslóð enskra kvenna sem gekk um með rasspúða og var komið formlega á framfæri í samkvæmislífinu. En vegna fráfalls föðursins gat móðir hennar ekki haldið fyrir hana dýra dansleiki heldur brá á það ráð að fara með hana til Egyptalands þar sem hún dansaði kvöldin löng við alls kyns unga menn, einkum yfirmenn úr hernum, á hótelum einn vetur. Hún átti þá tvo kvöldkjóla en hvorugur þeirra var svartur, eins og hugur hennar stóð þó helst til.

"Ég hlakkaði mjög til þess að fá myndarlegan bakhluta sem fyllti vel út í kjólinn, en þegar ég loks varð þannig í laginu var komið í tísku að vera mjaðma- brjósta- og rasslaus, mér til mikilla vonbrigða", segir Agatha.

Þetta kom þó ekki í veg fyrir að hún ætti sér alls kyns aðdáendur, hún hafnaði a.m.k. tveimur bónorðum en trúlofaðist svo ungum manni, Reggie Lucy, úr vinahópi fjölskyldunnar, hann var í leyfi frá herþjónustu í Hongkong og bauðst til að kenna Agöthu golf með þessum afleiðingum. Meðan á þeirri trúlofun stóð kynntist hún hins vegar í samkvæmi ungum og áköfum manni, Arcibald Christie. Unnusti hennar Reggie hafði neitað að ganga strax í hjónaband eins og Agatha vildi vegna þess að hann taldi sig ekki geta séð sómasamlega fyrir konu enn sem komið var. Hann fór aftur til herþjónustustarfa með þeim riddaralegu ummælum að ef Agatha kynntist manni sem væri efnaðri en hann skyldi hann ekki standa í vegi fyrir þeim ráðahag.

Sleit trúlofun og giftist Archie Christie

Archie Christie var enn fátækari Reggie, en hann var afburða góður dansari, hár maður og ljós yfirlitum með liðað hár og "fremur athyglisvert nef", að sögn Agöthu. Þau urðu mjög ástfangin hvort af öðru og Archie vildi giftast Agöthu strax. Hann var hermaður og var að fara í þjálfun sem flugmaður. Móður Agötu leist ekki á að dóttir hennar giftist á þessum forsendum, enda var Agatha þá ekki enn búin að slíta trúlofun sinni við fyrri unnustann. Það gerði hún þó von bráðar. Fyrri heimstyrjöldin hófst og Agatha hóf störf við hjúkrun særðra hermanna. Archie fékk leyfi og þau Agatha fóru til hinnar írsku móður hans og stjúpföður til að halda jól í Clifton. Þar ákvað Archie að tími væri til kominn að þau Agatha gengju í hjónaband daginn eftir. Allt var sett af stað og í dragt með vínrauðan hatt og óþvegnar hendur og andlit vegna fljótagangsins játaðist Agatha Miller Archie Christie og til varð Agatha Christie. Eftir giftinguna fór hvort til sinna starfa.

Sex mánuðir liðu þar til hjónin hittust á ný. Eiginmaðurinn flaug í herleiðangra en Agatha lærði að blanda lyf - það var þekking sem síðar kom henni að góðum notum, eins og lesendur bóka hennar vita lét hún ótalin fjórnarlömb sín deyja af völdum eiturbyrlanna. Ekki aðeins lærði Agatha sitt hvað um lyfjafræði, hún fékk einnig tíma til þess að fara að setja saman sína fyrstu sakamálasögu. Hún hafði þegar birt nokkrar smásögur og ort kvæði en fyrir hvatningu systur sinnar Madge hóf hún nú að rita sögu um mann með svart skegg sem sat við hlið konu sem talaði látlaust. Æ fleiri persónur urðu til í í huga Agöthu þar sem hún sat í rólegheitum í apótekinu og loks festi hún á pappír lýsingu á belgískum spæjara sem hún gaf nafnið Hercule Poirot. Hún vildi að hann fengi ekki síðra nafn en hinn frægi Sherlock Holmes, sem hún hafði auðvitað lesið mikið um.

Ég er að skrifa sakamálasögu

Agatha fór að verða mjög fjarhuga heima hjá sér svo móður hennar fannst nóg um og spurði hverju sætti.

"Ég er að skrifa sakamálasögu," svaraði Agatha.

"Það verður skemmtilegt fyrir þig, þú ættir að byrja sem fyrst," sagði móðir hennar, sem alltaf trúði því að dóttir hennar gæti allt sem henni dytti í hug. Og vissulega kom í ljós að Agatha Crhistie gat skrifað. Ekki hlaut þó handrit hennar náð fyrir augum útgefenda. Hún sendi handritið frá einum útgefenda til annars og fékk alls staðar neitun og munu þeir ágætu menn trúlega hafa nagað sig í handarbökin yfir synjun handritsins síðar meir. En hver gat vitað að þarna stigi sín fyrstu spor höfundur sem ætti eftir að leggja heiminn að fótum sér og allir þekkja deili á löngu eftir að þessir ágætu verslunarmenn eru gleymdir.

Viðburðaríkur tími í ævi Agöthu Christie

Agatha átti eftir að skapa persónur og bækur sem enn í dag eru á metsölulistum og hafa verið kvikmyndaðar margoft. Handritið að fyrstu bókinni kallaði hún "The Mysterious Affair at Styles". Hún sendi það loks til The Bodley Head, John Lane - og gleymdi svo öllu saman.

Við tók líka viðburðaríkur tími í ævi hennar. Hún og maður hennar settu saman heimili í London þar sem hann var farinn að vinna í flugmálaráðuneytinu. Þau leigðu íbúð að Northwick Terrace 5, hjá Mrs. Woods og Agatha fór að læra hraðritun. Stríðið tók dag einn enda og sú sjaldséða sjón blasti við að enskar konur dönsuðu á strætum Lundúnaborgar, viti sínu fjær af gleði.

Archie ákvað að reyna fyrir sér í viðskiptalífinu og Agatha komst að raun um að hún var orðin ófrísk. Eftir rólegan meðgöngutíma fæddist Christiehjónunum dóttirin Rosalind. "Hún var verulega fallegt barn með mikið og dökkt hár," segir Agatha um dóttur sína. Agatha réð sér barnfóstru og þau fluttu öll í stærri íbúð.

"Ég var gift manninum sem ég elskaði, við áttum barn og höfðum lífsviðurværi. Ég gat ekki séð neina ástæðu til að við lifðum ekki hamingjusamlega æviloka," sagði Agatha.

Agatha samdi af sér í upphafi

Þá var það dag einn að bréf barst frá John Lane, hann vildi gefa út sakamálasögu Agöthu Christie. Í ákafa sínum og löngun til að koma sögunni á prent uggði Agatha ekki að sér og samdi sér verulega í óhag. Hún skrifaði undir samning um að bókaforlagið gæfi út fimm bækur eftir hana en hún átti ekki að fá neina þóknun fyrr en seld væru 2000 eintök, eftir það kæmi smávægileg þóknun. Agatha var himinlifandi og um kvöldið fóru þau Archie á Palais de Danse at Hammersmith til að fagna tíðindunum.

"Þetta var þriggja manna samkvæmi þótt ég vissi það ekki, með okkur var Hercule Poirot, hann hékk þarna um hálsinn á mér," segir hún.

Amma Agötu dó um þetta leyti og móðir hennar var illa stödd fjárhagslega. Til þess að bjarga Ashfield ákvað Agatha að reyna að skrifa smásögur fyrir The Weekly Times. Bókin hennar hafði selst í rösklega 2000 eintökum og hún hafði þénað 25 pund. Nú tók hún til við að skrifa aðra skáldsögu sem hún nefndi "The Secret Adversary". John Lane var fyrst í vafa um hvort hann ætti að gefa hana út en sló svo til. Þriðja bókin leit dagsins ljós: "Murder on the Links". Í þeirri bók velti Agatha fyrir sér að láta Hastings, vin Poirot, giftast, hún var orðin svolítið leið á honum og svo þurfti ástarsamband í bókina, Hastings slapp þó betur en á horfðist.

Skilnaður

Nú dró hins vegar verulega til tíðinda í lífi þeirra Agöthu og Archie. Þau kynntust manni að nafni Belcher, sem var maður mikilla sjónhverfinga að sögn Agöthu. Hann vildi fá Archie með sér í heimsferð til að kynna breskar vörur. Þau Christiehjón höfðu aðeins farið í styttri ferðir en nú bauðst heimsferð, því auðvitað vildi Archie ekki fara án Agöthu, en hún var efins um hvort hún færi vegna barnsins. Eftir miklar vangaveltur sagði Archie upp vinnu sinni, þau komu Rosalind litlu fyrir hjá Madge móðursystur hennar og fóru í heimsferðina. Móðir Agöthu hvatti hana til að fara, sagði að Archie væri þannig maður að hún yrði að vera með honum, annars myndi hún missa hann.

Þetta voru spámannleg orð. Fljótlega eftir hið mikla heimsferðalag settust Christiehjónin að í húsi sem þau nefndu Styles. Archie fór aftur að sinna viðskiptum og varð smám saman ástríðufullur golfspilari en Agatha hélt áfram að skrifa. Þau tóku að efnast og allt gekk vel þar til móðir Agöthu dó. Móðurmissirinn varð henni mikið áfall, hún fór til Ashfield til að hreinsa þar til og var ekki vanþörf á, allt dót móður hennar, ömmu og ömmusystur var þarna í skápum, skúffum og kössum. Agatha fór til að hreinsa út úr æskuheimili sínu og fylltist þunglyndi við það starf, Archie var um kyrrt í London og þau leigðu húsið sitt þetta sumar. Það fór ekki betur en svo að Archie fór að vera með ritara fyrrnefnds Belchers og yfirgaf Agöthu í framhaldi af því. Hún féll alveg saman og líklega var það þá sem hún missti minnið og hvarf um tíma. Hún segir ekki frá þessu fræga hvarfi heldur orðar það svo: "eftir veikindi kom sorg, örvænting og niðurbrot." Þannig endaði fyrra hjónaband Agöthu Christie.

Með Austurlandahraðlestinni áleiðis í nýtt hjónaband

Á þessum erfiðu tímamótum í lífi sínu hætti hún að vera það sem kallaði tómstundarithöfundir og varð atvinnurithöfundur. Hún var peningalítil eftir skilnaðinn og skrifaði þá bókina "The Mystery of the Blue Train". "Þá komst ég yfir þann hjalla að skrifa þótt mig langaði ekki til þess og líkaði ekki einu sinni það sem ég var að skrifa." Þessi bók seldist eins vel og aðrar bækur Agöthu þótt henni fyndist aldrei mikið til um hana.

Eftir endanlegan skilnað Christie hjónanna fór Rosalind í heimavistarskóla en móðir hennar tók austurlandahraðlestina áleiðis að næsta ævintýri. Sú ferð leiddi til þess að lokum að Agatha kynntist ungum fornleifafræðingi, Max Mallowan. Hann fór með hana í jeppaferðalag út á eyðimörkina. Þau komu þar að vin og Agatha vildi synda. Hann lét það eftir henni en meðan þau svömluðu um þá sökk jeppinn í sandinn og festist. Agatha ákvað að leggja sig þegar hún heyrði tíðindin. Þjónn Mallowans fór eftir hjálp og Max fór að reyna að losa bílinn. Það gekk ekki. Meðan Max beið eftir aðstoð horfði hann á sofandi konuna og ákvað með sjálfum sér að hún væri ákjósanleg eiginkona fyrir hann. "Þú óskapaðist ekkert, kenndir mér ekki um eða sagðir að við hefðum ekkert átt að stoppa þarna. Mér fannst þú dásamleg," sagði hann síðar við Agöthu. Hún var hins vegar ekki áfjáð í að giftast ellefu árum yngri manni, var einfaldlega hrædd við að giftast aftur eftir hina sársaukafullu fyrri reynslu sína á því sviði. Max fullvissaði hana um að hann hefði alltaf viljað giftast sér eldri konu. Agatha fussaði og kom með ýmsar aðrar ástæður fyrir því að hafna honum - en sagði þó aldrei að sig langaði ekki til þess að giftast honum. Það var nóg til að biðillinn gafst ekki upp og hann hafði erindi sem erfiði. Agatha Christie varð Agatha Christie Mallowan árið 1930. Hún hafði þá þegar skrifað hina frægu sögu "The Murder of Roger Ackroyd" og ýmsar fleiri sögur, hún hafði einnig skipt um útgefanda, sá fyrri hafði ekki rænu á að gera við hana hagstæðari samninga. Og nú fór hún að hagnast verulega á skrifum sínum.

Ferðast mikið með manni sínum, Max Mallowan

Með manni sínum fór Agatha Christie í mörg ferðalög og dvaldi með honum langdvölum við fornleifauppgröft í Egyptalandi og Sýrlandi.

Þau höfðu ekki verið aðskilin í tíu ár þegar Max Mallowan var sendur til Afríku eftir að seinni heimstyrjöldin skall á. Þá var Rosalind gift Hubert Prichard major og hafði eignast drenginn Matthew.

Agatha var ein í íbúð í London í þrjú ár meðan síðari heimstyrjöldin geisaði. Hún sinnti sjúkum og gaf lyf eins og í fyrra stríðinu - og skrifaði í öllum sínum tómstundum. "Það var ekkert annað hægt að gera". sagði hún. Þetta voru dapurleg ár og einmanaleg, Agatha óttaðist að hún og maður hennar myndu fjarlægjast en sá ótti var ástæðulaus. Max Mallowan kom frá Afríku með allt sitt hafurtask á baki og herðum klifrandi upp brunastiga kvöld eitt þegar Agatha var að koma úr heimsókn frá dóttur sinn og var að steikja sér síld. "Það var eins og hann hefði farið í gær" - svo nálæg voru þau. Hins vegar hafði Max fitnað af bjórdrykkju í fjarverunni og ekki hafði Agatha grennst á kartöflu- og brauðáti stríðsáranna. Þetta kvöld sultu þau heldur ekki, þau átu viðbrennda steikta síld og "voru hamingjusöm".

Eftir að síðari heimstyrjöldinni lauk tók við mikið hamingjutímabil í lífi Agöthu Christie. Hún fór með manni sínum margoft til austurlanda þar sem hann vann m.a. við uppgröft borgarinnar Nimrud. Um þetta mikla verk skrifaði hann bókina "Nimrud and its Remains". Með Agöthu voru í ferð allar hennar frægu persónur, einkum þó Poirot og Jane Marple sem fæddist árið 1930 - alltof gömul rétt eins og Poirot. "Það voru mikil mistök að hafa þau svona gömul í upphafi, ég hefði þurft að hafa þau ung og láta þau eldast með mér", segir Agatha.

Ég get skrifað

Hún skrifaði bók eftir bók og einnig leikrit meðfram því að hjálpa manni sínum eftir megni við störf hans.

Hún hafði keypt gamalt hús Greenway, skammt frá Ashfield og þar bjuggu þau hjón um sig. Auk þess áttu þau fleiri íbúðir og hús, m.a. í Bagdad.

Agatha Christie náði langt í sínu starfi og það var ekki tilviljun. Hún gerði sér snemma ljóst hvað hún gæti og hvað ekki. "Ég get skrifað," sagði hún. Agatha var alla tíð feimin og kærði sig lítt um sviðsljósið. Hún eyddi öllum sínum frítíma með fjölskyldu og nánum vinum. Hún barst aldrei á og ágóðanum af ýmsum bókum sínum ánafnaði hún fjölskyldu, vinum eða góðgerðarmálefnum. Þannig skrifaði hún t.d. tvær bækur meðan hún bjó í London ein í stríðinu. Hún setti þær báðar í bankahólf og ánafnaði þær manni sínum og dóttur. Rosalind missti mann sinn í stríðinu. Hún ól upp son sinn og giftist síðar aftur afar vel menntuðum manni Antony Hicks, sem Agatha móðir hennar hafði gaman af að ræða við um allt nema vín: "I don´t like the stuff," segir Agatha.

Hitapoki, te og skriftir

Henni líkaði hins vegar afar vel að koma sér fyrir með hitapoka , drekka te og skrifa þar sem hún var komin, eða þá lesa.

Þegar "Músagildran" hafði gengið í tíu ár samfleytt í leikhúsi í London var haldið mikið samkvæmi fyrir höfundinn Agöthu Christie. Útgefandinn hafði beðið hana að koma nokkru fyrir samkvæmið. Hún gerði það. Hún bankaði uppá en dyravörðurinn sagði henni hranalega að samkvæmið væri ekki byrjað. Í stað þess að segja til sín fór hún vandræðaleg á brott og ráfaði um ganga þar til ritari útgefandans rakst á hana og kom henni inn. Svona hlédræg og feimin var Agatha Christie og laus við að hreykja sér. "Ég á erfitt með að halda ræður og geri það þess vegna helst ekki en tókst þó að segja nokkur orð í þessu samkvæmi," sagði hún. "Aðeins einu sinni naut ég þess að vera á frumsýningu. Það var þegar "Witness of the Prosecution" var frumsýnt. Ég var ánægð með það leikrit, sýninguna sjálfa og viðtökurnar. Eftir sýninguna kom fólk til mín og hrósaði mér og ég gaf hjartans glöð eiginhandaráritanir, aldrei þessu vant laus við alla feimni og óöryggi sem svo oft var mér til trafala á mannamótum", segir hún.

Árin upp úr fimmtugu voru mikið blómaskeið á ferli Agötu. "Þá opnaðist mér nýtt líf, fullt af hlutum til að skoða, lesa um og skrifa um. Og þótt að ég hafi á síðustu árum oft haft gigtarverki og verið stirð til gangs þá hef ég eigi að síður skemmt mér mæta vel". Hún lýkur að segja frá sjálfri sér 75 ára gömul. Eftir það var hún öðluð og bækur hennar seldust í æ stærri upplögum í æ fleiri löndum og á þeirri þróun hefur ekkert lát verið síðan.

Trygg og notaleg kona

Agatha Christie dó 1976 en minning hennar sem rithöfundar lifir þótt sjálf ætti hún ætíð bágt með að líta sjálfa sig þeim augum. Við lestur endurminninga hennar verður manni ljóst að hún var ekki aðeins einstakur rithöfundur heldur líka einstök manneskja, trygg og notaleg kona sem lifði sínar mestu gleðistundir í þröngum hópi fjölskyldu og vina.

Þær bækur eftir Agöthu Christie sem hún nefnir sem sínar uppáhaldsbækur eru "Crooked House" og "Ordeal by innocence", sem og fannst henni gaman að "Moving Finger". Sú bók sem henni líkað verst var "The Mystery of the Blue Train". Dóttursonur Agötu, Matthew, fékk að gjöf öll réttindi hvað varðaði Músagildruna, það leikrit gengur enn í London. "Hann var líka alltaf sá heppnasti í fjölskyldunni", segir Agatha í lok endurminninga sinna. Hún endar bókina á heimsókn á þær slóðir sem æskuheimili hennar, Ashfield, stóð. Það hafði þá verið rifið og blokkir reistar í staðinn. "En eigi að síður lifði Ashfield innra með mér", segir hún. Á sama hátt lifir með okkur sá hugmyndaheimur Agöthu Christie sem hún birtir í bókum sínum. Þar er að finna í einu eða öðru formi fjölmargt það sem hún sá og mótaðist af. Um það vitna endurminningar hennar. Við lestur þeirra koma upp í hugann alls konar kunnuglegar lýsingar og samræður sem er að finna í bókum hennar. Það er jú þannig sem það er - ekkert verður til úr engu.