Flugeldasýning á menningarnótt í Reykjavík í fyrra. Verkefnið menningarborg Evrópu var eitt þeirra sem fengu styrk úr áætlunum á vegum ESB.
Flugeldasýning á menningarnótt í Reykjavík í fyrra. Verkefnið menningarborg Evrópu var eitt þeirra sem fengu styrk úr áætlunum á vegum ESB.
Þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gekk í gildi, segir Þorsteinn Brynjar Björnsson, öðluðust Íslendingar þátttökurétt í fjölda samstarfsáætlana og verkefna sem rekin eru á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í ýmsum málaflokkum.

Óhætt er að segja að þátttakan í samstarfsáætlunum og verkefnum á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafi reynst Íslendingum afar happadrjúg og hefur mikill fjöldi fyrirtækja, stofnana og einstaklinga hlotið margháttaðan stuðning frá framkvæmdastjórninni á liðnum árum. Hér verður fjallað um þann árangur sem náðst hefur og þau miklu sóknarfæri sem í boði eru.

Eitt af meginmarkmiðum Evrópusamstarfsins hefur ávallt verið að auka samstarf milli ríkja á sem breiðustum grundvelli enda getur stjórnmálalegur samruni ekki staðist til lengdar án víðtækra samskipta borgaranna. Með það að leiðarljósi hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sett fram fjölda áætlana sem ætlað er að hvetja til aukinnar samvinnu ýmissa þjóðfélagshópa og leiða í senn til gagnlegrar nýsköpunar á ýmsum sviðum mannlífsins. Þótt við Íslendingar höfum ekki aðild að Evrópusambandinu höfum við þátttökurétt í mörgum þessara áætlana í gegnum EES-samstarfið. Gróflega má skipta þeim í níu málefnasvið:

Lítil og meðalstór fyrirtæki

Upplýsingasamfélagið

Rannsóknir og þróun

Menntamál og starfsþjálfun

Æskulýðsmál

Orkumálefni

Menning og listir

Heilbrigðismál og öryggi á vinnustöðum

Félags og atvinnumál.

Þegar sótt er um styrki og annan stuðning frá Evrópusambandinu skipta góðar hugmyndir, fagmennska og traustvekjandi umsóknir höfuðumáli. Jafnan er þess krafist að umsækjendur sýni fram á að verkefni þeirra feli í sér svokallaða evrópska vídd, þ.e. gagnist borgurum álfunnar eða styrki evrópska samvinnu. Óhætt er að segja að íslenskir umsækjendur hafi uppfyllt þessi skilyrði prýðilega og fjöldi þeirra hlotið styrki.

Af málefnasviðunum níu verður hið þriðja, rannsóknir og þróun, að teljast langmikilvægast. Rannsóknar- og þróunarstarfið hefur allt frá 1984 verið rekið með svokölluðum rammaáætlunum og nær hver þeirra yfir ákveðið tímabil. Markmiðið er að samræma rannsóknarstefnu og rannsóknarstarf innan Evrópusambandsins og segja má að rammaáætlanirnar tengi saman vísinda-, tækni- og kynningarstarfsemi Evrópusambandsins. Nú þegar hafa fimm rammaáætlanir litið dagsins ljós og hófst núgildandi áætlun, sú fimmta í röðinni, árið 1998 og gildir til ársins 2002.

Árið 1998 lét menntamálaráðuneytið vinna skýrslu um þátttöku Íslands í fjórðu rammaáætluninni sem í gildi var frá 1994-1998. Kom þar fram að íslenskir aðilar sendu inn 343 umsóknir og þar af voru 144 samþykktar, eða 42%. Hlýtur það að teljast mjög góður árangur. Heildarfjárframlög Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna til núgildandi áætlunar nema alls 13,7 milljörðum evra og því ljóst að um er að ræða mikil tækifæri fyrir fjölda aðila.

Íslendingar hafa einnig tekið mikinn þátt í fjórða málefnasviðinu, menntamálum og starfsþjálfun. Helstu þættirnir eru tveir, Leonardo da Vinci- og Sókrates-áætlanirnar. Leonardo-áætluninni er ætlað að efla starfsmenntun í Evrópu, jafnt á framhaldsskóla-, háskóla- og endurmenntastigum. Hvatt er til nýjunga í starfsmenntun, jafnt fyrir skólakerfið sem og atvinnulífið og sérstök áhersla er lögð á eflingu símenntunar í atvinnulífinu. Heildarfjárveiting til Leonardó á tímabilinu 2000-2006 er rúmur milljarður evra. Á árabilinu 1995-1999 tóku 412 Íslendingar þátt í Leonardó á vegum fyrirtækja, menntastofnana og annarra lögaðila.

Sókrates-áætlunin, sem einnig er í gildi á árabilinu 2000-2006, miðar að auknu samstarfi milli háskóla og annarra menntastofnana, eflingu fjarnáms, tungumálakennslu og kennaraskipta. Mikilvægasti hluti Sókrates-áætlunarinnar felst í nemendaskiptum á háskólastiginu, svokallaðri Erasmus-áætlun, og hefur fjöldi þeirra námsmanna, sem hljóta styrki til náms í öðrum Evrópulöndum, þrefaldast á síðastliðnum fimm árum. Á skólaárinu 1998-1999 hlaut t.a.m. 151 íslenskur námsmaður styrki til náms erlendis og hér á landi stunduðu 128 erlendir námsmenn háskólanám á Erasmus-styrkjum. Þátttaka í öðrum þáttum Sókrates-áætlunarinnar hefur einnig aukist mikið á undanförnum árum og má þar nefna Lingua- og Comenius-undiráætlanirnar.

Þátttaka í menningaráætlunum Evrópusambandsins hefur einnig verið talsverð og fjöldi íslenskra verkefna hlotið styrki úr þeim. Nýrri áætlun, Menning 2000 (Culture 2000), var nýlega hleypt af stokkunum og sameinar hún þrjár eldri áætlanir, Kaleidoscope, Ariane og Raphaël. Á síðasta ári fengu íslensk samstarfsverkefni úthlutað um 60 milljónum króna úr þessum áætlunum og samtals um 100 milljónum á þriggja ára tímabili. Einnig fékk Reykjavíkurborg sérstaka styrki tengda verkefninu menningarborg Evrópu árið 2000.

Nýja menningaráætlunin nær yfir tæplega fimm ára tímabil og rennur sitt skeið á enda í árslok 2004. Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins mun veita 167 milljónum evra í styrki á þessu tímabili og gera má ráð fyrir að Íslendingar muni áfram leggja fram tillögur sem hún telur vert að styðja.

Sérstök áætlun, Media II, er rekin í tengslum við kvikmyndagerð og er henni ætlað að styðja við evrópska kvikmyndaiðnaðinn á ýmsan hátt. Í flestum tilfellum er þessi stuðningur í formi vaxtalausra og skilyrtra lána en í sumum tilfellum er einnig um styrki að ræða. Þrjátíu íslensk fyrirtæki hafa t.a.m. hlotið styrki eða lán til undirbúnings á þrjátíu og sjö kvikmyndum og heimildarmyndum og átta íslensk fyrirtæki til dreifingar á evrópskum kvikmyndum og myndböndum á Íslandi. Media II-áætluninni lýkur nú um áramótin og ný áætlun tekur við á hennar grunni, Media-Plus. Áætlað framlag framkvæmdastjórnarinnar til hinnar nýju áætlunar verður um 400 milljónir evra til ársloka 2005.

Þótt hér hafi verið fjölyrt um þær fjárhæðir sem Íslendingar hljóta úr samstarfsáætlunum Evrópusambandsins segir það einungis hálfa söguna. Í flestum tilfellum er þessum styrkjum einungis ætlað að greiða hluta kostnaðar og því þarf fjármagn að koma úr fleiri áttum. Með þátttöku sinni hefur fjöldi fólks öðlast ómælda reynslu og aflað sér sérþekkingar sem ekki verður metin til fjár. Einnig hafa mikilvæg tengsl skapast, jafnt viðskiptaleg sem persónuleg, og fólki gefinn kostur á að auka víðsýni sína og reynslu. Ekki má heldur gleyma því að margir þátttakendur glíma við viðfangsefni sem aukið geta lífsgæði okkar allra, leita t.a.m. lækninga við sjúkdómum, leiðum að bættri umgengni við náttúruna og bættum aðstæðum á vinnustöðum.

Til að Íslendingar geti tekið öflugan þátt í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins þurfa tilvonandi þátttakendur að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um tilteknar áætlanir. Með það í huga eru reknar nokkrar upplýsingaskrifstofur hér á landi sem m.a. aðstoða umsækjendur við upplýsingaöflun, umsóknargerð, samskipti við stofnanir Evrópusambandsins o.fl. Sem dæmi um slíkar upplýsingaþjónustur eru Landsskrifstofa Leonardó, Upplýsingaþjónusta menningaráætlunar Evrópusambandsins og Landsskrifstofa æskulýðsáætlunar Evrópusambandsins. Þeir sem hyggja á þátttöku í rammaáætluninni um rannsóknir og þróun skulu setja sig í samband við Rannsóknarráð Íslands, RANNÍS, og þeir sem vilja taka þátt í samstarfsáætlunum í menntamálum, á öðrum sviðum en starfsþjálfun, skal bent á Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins.

Útflutningsráð Íslands rekur sérstaka upplýsingaskrifstofu, Euro Info, fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki til að auðvelda þeim upplýsingaöflun um málefni er snerta innri markað Evrópusambandsins. Á öllu evrópska efnahagssvæðinu eru reknar um 300 slíkar skrifstofur og er þeim m.a. ætlað að vera fyrsti leitarstaður lítilla og meðalstórra fyrirtækja vegna fyrirspurna um tolla, tollkvóta og skatta á Evrópska efnahagssvæðinu. Á skrifstofunni má einnig fá upplýsingar um margar þeirra samstarfsáætlana sem Íslendingar hafa aðild að vegna EES-samstarfsins.

Á undanförnum árum hafa Euro Info skrifstofan á Íslandi og Samtök atvinnulífsins (SA) haft samvinnu um að halda úti upplýsingavef um sóknarfæri EES-samningsins á vef Samtaka atvinnulífsins, http://www.sa.is. Hafa Davíð Stefánsson, stjórnsýslufræðingur hjá SA, og Þorsteinn Brynjar Björnsson, stjórnmálafræðingur, annast þá vinnu. Á vefnum er að finna gott yfirlit yfir allar þær áætlanir sem Íslendingar hafa aðild að í gegnum EES-samninginn, hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda, hvar áhugasamir geta aflað sér frekari upplýsinga o.s.frv. Er öllum þeim sem áhuga hafa á þátttöku bent á þann vef sem byrjunarreit áður en lengra er haldið.