Iðunn Antonsdóttir rekur kaffihúsið Iðunn og eplin í stofunni heima hjá sér á Kópaskeri. Auk þess stýrir hún Fræðslumiðstöð Þingeyinga, sem annast fullorðinsfræðslu.
Iðunn Antonsdóttir rekur kaffihúsið Iðunn og eplin í stofunni heima hjá sér á Kópaskeri. Auk þess stýrir hún Fræðslumiðstöð Þingeyinga, sem annast fullorðinsfræðslu.
Kópasker státar af einu sérstæðasta kaffihúsi landsins og heitir það Iðunn og epli n. Kaffihúsið er rekið í stofunni á heimili hjónanna Iðunnar Antonsdóttur og Garðars Eggertssonar í Duggugerði 7 og mun vera eina kaffihúsið í Þingeyjarsýslum.

Kópasker státar af einu sérstæðasta kaffihúsi landsins og heitir það Iðunn og eplin. Kaffihúsið er rekið í stofunni á heimili hjónanna Iðunnar Antonsdóttur og Garðars Eggertssonar í Duggugerði 7 og mun vera eina kaffihúsið í Þingeyjarsýslum. Iðunn og Garðar búa í einlyftu einbýlishúsi og látlaust skilti með nafni starfseminnar greinir húsið frá öðrum í götunni.

Nafnið Iðunn og eplin vísar jafnt til Iðunnar húsfreyju og gamallar sögu úr Gylfaginningu. "Iðunn var ein af ásynjum, gift Braga," segir Iðunn Antonsdóttir. "Hún átti töfraepli og þegar æsir gerðust gamlir og gráir komu þeir til Iðunnar og fengu epli. Við að borða eplin yngdust þeir upp og urðu hressir á ný."

Dæmigerð stofa

Kaffihúsið var opnað formlega hinn 15. júní í sumar sem leið. Ekki gafst tóm til að auglýsa opnunina sérstaklega en gestirnir létu ekki á sér standa. Fólki er boðið inn á heimilið og í stofunni hefur verið komið fyrir nokkrum litlum kaffiborðum og stólum. Annar húsbúnaður er dæmigerður fyrir íslensk heimili. Sófasett, skápar, hljómflutningstæki, sjónvarp, pottablóm og myndir á veggjum. Þar má meðala annars sjá listaverk eftir Þingeyinga á borð við Stórval og Freyju.

Iðunn segir að fólk hafi orð á því hve þægilegt það sé að koma inn í svo heimilislegt umhverfi. Garðar tekur undir og segir að gestir hafi oft haft orð á því að erfitt væri að finna afslappað umhverfi og rólegt á ferðum um landið. Ingunn segir að margir hafi lýst reynslu sinni svo að ferðamönnum byðist að velja á milli þess að fara í sjoppur eða hálftóma og allt of stóra matsali.

"Útlendingum þykir sérstaklega áhugavert að sjá íslenskt heimili og að fá að koma í heimsókn," segir Iðunn. Á veröndinni framan við húsið eru borð og stólar. Í sumar var veðurblíðan slík að veröndin var oft þéttsetin gestum.

Langt að komnir gestir

"Við fengum rétt um 600 gesti á sex vikum í sumar. Ætlunin var að hafa opið fjóra tíma á dag, en það tókst ekki alltaf að loka í tíma." Gestirnir komu víða að. "Hingað kom til dæmis vegalaus indverskur borgarstjóri sem hafði verið að spila golf á Akureyri, en villtist af leið," segir Iðunn. Hún segir að Íslendingarnir hafi aðallega rekið inn nefið vegna þess að þeir hafi orðið svo hissa að frétta af þessari starfsemi.

Eitthvað fyrir alla

Veitingarnar eru ekki af verri endanum. "Ég hef lagt áherslu á að vera með eitthvað sem hentar öllum," segir Iðunn. "Þeir sem hafa of hátt kólesteról eða eru með sykursýki eiga að geta fengið eitthvað við sitt hæfi hér, ekki síður en aðrir. Svo er ég alltaf með eitthvað úr eplum," segir Iðunn. Hún segir gestum að eplin sín fari ekki að virka fyrr en komið er 30 km frá Kópaskeri og úr því nenni enginn að snúa við til að kvarta ef fjörið lætur á sér standa.

Í boði er kaffi, te og meðlæti en einnig er hægt að panta mat. Allt brauð og kökur er heimabakað. Ostakaka hússins ku vera rómuð fyrir gæði. Iðunn segist helst bjóða upp á mat sem er upprunninn í héraðinu. Mjólkurvörur, lax, silung, rækju og kjöt. Hún nefnir fiskisúpu og ýmsa fiskrétti sem byggðir eru á hollustu og gæðum góðs hráefnis.

Iðunn leggur áherslu á að nota fallega muni. "Allir dúkar eru handunnir og útsaumaðir. Bollastellið er einnig handunnið í Gallerí ASH við Varmahlíð í Skagafirði."

Hluti af heimilinu

En hvernig er það að opna heimili sitt fyrir gestum og gangandi?

"Það er gott, því þetta gekk svo vel," segir Iðunn. "Kaffihúsið er orðið hluti af heimilinu. Við kynntumst svo mörgu góðu og þakklátu fólki. Það var reynt að loka kaffihúsinu klukkan sex á daginn og eftir það ríkti hér hefðbundinn heimilisfriður. Ef fólk kom utan venjulegs opnunartíma þá var auðvitað reynt að liðsinna því."

Heimilið er reyklaust og kaffihúsið er ekki með vínveitingaleyfi. Þau Iðunn og Garðar eiga áfengi til eigin nota og gerðu ekkert til að fela veigurnar. Þrátt fyrir það segja þau að aldrei hafi verið beðið um áfengar veitingar.

Rekstur kaffihússins var annað tveggja starfa Iðunnar í sumar. Hún fékk aðstoð frá fjölskyldunni við rekstur kaffihússins. Auk þess að bjóða gestum og gangandi upp á veitingar er Iðunn framkvæmdastjóri Fræðslusmiðstöðvar Þingeyinga. Hún er kennaramenntuð og hefur starfað sem kennari og skólastjóri.

Fullorðinsfræðsla og símenntun

Hvað er Fræðslumiðstöð Þingeyinga?

"Þetta er ein átta slíkra fræðslumiðstöðva og símenntunarstöðva hér á landi. Einu sinni voru hér farskólar, sem lagðir voru niður, og endur- og símenntunarstöðvar komu í þeirra stað." Fræðslumiðstöðin stendur meðal annars fyrir viku símenntunar, fullorðinsfræðslu og námskeiðahaldi í sýslunni.

"Við höfum verið að koma upp fjarfundabúnaði í Þingeyjarsýslu, til þess að auðvelda fólki nám í heimabyggð, meðal annars háskólanám," segir Iðunn. "Nú erum við að kynna nám fyrir leikskólakennara, sem hefst næsta haust ef næg þátttaka fæst. Það verður haldið í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Auk þess erum við í samvinnu við marga aðra um styttri og lengri námskeið. Nú er haldið námskeið sem kallast Hagnýtt skrifstofunám og skiptist á fjórar annir. Fyrirmyndin er frá Menntaskólanum í Kópavogi og námskeiðið er haldið á Húsavík. Þátttakendur er átján talsins og koma víða að. Úr Kelduhverfi, Mývatnssveit, Húsavík og sveitunum þar í kring."

Á öllum skólastigum

Iðunn segir að Fræðslumiðstöðin hafi margt á prjónunum. Til dæmis styttri og lengri námskeið á sviði ferðaþjónustu og rekstrar, meðal annars í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Iðunn er að undirbúa námskeið fyrir skólaliða og stuðningsfulltrúa í grunnskólum Þingeyjarsýslna.

"Endur- og símenntunarmiðstöðvarnar hafa náið samstarf sín á milli og miðla upplýsingum um áhugverð námskeið," segir Iðunn. "Hlutverk okkar er að vinna að eflingu hvers konar fullorðinsfræðslu á öllum skólastigum."