Ólöf de Bont, eigandi Fjölprents ehf., er nýkomin heim úr velheppnuðu fríi til Kanaríeyja þar sem hún dvaldist í góðu yfirlæti með sambýlismanni sínum enda segir hún þetta skemmtilegasta frí sitt til þessa.
Hvaðan ertu að koma?

Frá Kanarí.

Með hverjum fórstu?

Fór með nýja kærastanum mínum, Forna.

Var einhver sérstök ástæða fyrir því að þið völduð Kanaríeyjar?

Ég fór þangað í fyrra en var af ýmsum ástæðum ekki ánægð með þá ferð. Ég er hins vegar þannig gerð að ég gefst aldrei upp og vildi því reyna Kanaríeyjar í annað sinn áður en ég afskrifaði þær. Þessi ferð var hins vegar mun betri þannig að niðurstaðan er sú að það er miklu betra að ferðast þegar maður er ástfanginn.

Á hvaða hóteli varstu?

Las Arenas sem er mjög gott hótel á ensku ströndinni, Playa des Ingles.

Mælirðu með einhverjum sérstökum veitingastöðum á staðnum?

Uppáhaldsveitingastaðurinn okkar á Kanarí heitir Qajdete Caverna Restaurant við þorpið Aquine á Kanarí. Hann var inni í helli uppi í fjöllunum þar sem borinn var á borð ekta kanaríeyskur matur. Það var mjög gaman að upplifa ekta kanaríeyska stemmningu og góð tilbreyting frá matreiðslunni á ferðamannastöðunum, sem var þó oft ágæt.

Hvað fannst þér áhugaverðast?

Mér er sérstaklega eftirminnilegt þegar við tókum leigubíl þar sem innfæddur bílstjóri sat undir stýri og létum hann keyra okkur upp í fjöllin og sýna okkur lifnaðarhætti Kanaríeyjabúa. Hann fór með okkur burt frá ferðamannastöðunum og upp í fjöll eyjarinnar þar sem við fengum að kynnast hefðbundnu lífi innfæddra. Reyndar fannst mér sólbaðsaðstaðan á þaki hótelsins einna áhugaverðasti staður eyjarinnar. Þar var nefnilega nektarhorn!

Geturðu nefnt einhverja staði sem vert er að heimsækja?

Mörgum sem koma til Kanarí finnst gaman að heimsækja vinsæla ferðamannastaði á borð við krókódílasvæðið og kúrekagarðinn. Ég fór hins vegar ekki á neinn þessara staða því ég vildi frekar fara á heimaslóðir innfæddra með einhverjum sem þekkir staðhætti. Hellarnir uppi í fjöllunum heilluðu mig alveg sérstaklega en eyjan býr yfir allt öðrum krafti og aðdráttarafli þegar komið er út fyrir ferðamannastaðina þótt strandlífið sé ágætt með til hvíldar.

Kom þér eitthvað á óvart í ferðinni?

Vingjarnleiki innfæddra þegar maður kynntist þeim og hvað viðmótið var allt annað þegar komið var út fyrir hina hefðbundnu ferðamannastaði. Það kom mér líka á óvart hve góð þjónustan var yfirhöfuð og hve veðrið var æðislegt.

Fegurð eyjarinnar og hversu hrá hún er kom mér einnig á óvart þegar ég kom inn í landið. Málið er nefnilega það að jafnvel þótt maður fari á vinsæla ferðamannastaði á borð við Kanaríeyjar má alltaf finna fáfarnari svæði til að mynda fyrir göngugarpa og fólk sem hefur áhuga á að skoða náttúru og plöntulíf. Það kemur mér á óvart að ekki skuli verð lögð meiri áhersla á þá hlið eyjanna í stað strandlífsins eingöngu.

Hvað er skemmtilegasta frí sem þú hefur farið í?

Þetta.