MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi athugasemd frá fjármálaráðherra: "Vegna ýmissa fullyrðinga sem fram koma á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins um fjármál ríkisins er nauðsynlegt að koma eftirfarandi atriðum á framfæri: Almennt um ríkisfjármálin...

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi athugasemd frá fjármálaráðherra: "Vegna ýmissa fullyrðinga sem fram koma á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins um fjármál ríkisins er nauðsynlegt að koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

Almennt um ríkisfjármálin

1. Gagnstætt því sem haldið er fram af hálfu SA hefur aðhald í ríkisfjármálum stóraukist frá árinu 1998. Aukið aðhald í ríkisfjármálum hefur ótvírætt stuðlað að minnkandi eftirspurn í efnahagslífinu að undanförnu. Þetta sést best á því að lánsfjárafgangur á ríkissjóði er talinn nær tvöfaldast á árunum 1998-2001, úr 2,9% af landsframleiðslu 1998 í 5,3%. Þessi stærð er besti mælikvarðinn á áhrif ríkisfjármála á heildareftirspurn til skamms tíma.

2. Þá er því einnig haldið fram að ríkisútgjöld hafi hækkað um 10% á ári frá fjárlögum 1998 til fjárlaga 2001. Vegna breytinga sem urðu á árinu 1998 á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga ríkisins er eðlilegra að bera saman breytingu útgjalda frá ríkisreikningi 1998. Sé það gert kemur í ljós að útgjaldavöxtur hefur verið um 5% á ári. Til samanburðar má nefna að almenn þjóðarútgjöld eru talin aukast á þessu sama tímabili um tæplega 9% á ári, eða nær helmingi meira.

3. Umsvif ríkisins hafa því minnkað á undanförnum árum eins og einnig sést af því að hlutfall ríkisútgjalda af landsframleiðslu hefur farið lækkandi og stefnir í tæplega 30% af landsframleiðslu árið 2000, tæplega 3% lægra en árið 1998.

4. Því er haldið fram að skattarnir hafi hækkað um 27½% á árunum 1998-2000. Þetta er alrangt. Skatthlutföll hafa þvert á móti verið lækkuð. Hins vegar hafa skatttekjur ríkissjóðs hækkað um þetta hlutfall. Á þessu er grundvallarmunur. Hækkun skatttekna má rekja til þess að mikil uppsveifla var í efnahagslífinu á þessum árum sem aftur skilar sér í auknum skatttekjum, vegna meiri tekna einstaklinga, aukinnar neyslu, fjárfestinga o.fl. Þessi þróun snýst við þegar illa árar.

5. Rekstrarafgangur á ríkissjóði hér á landi er með því mesta sem gerist meðal okkar helstu viðskiptaríkja. Af 29 aðildarríkjum OECD eru aðeins þrjú ríki með meiri afgang en við, þar á meðal olíuríkið Noregur. Sömu sögu er að segja af skuldastöðu ríkisins. Þar er Ísland í hópi þeirra ríkja sem bera hvað lægstar skuldir.

6. Þá er mikilvægt að hafa í huga að batnandi afkoma ríkissjóðs á undanförnum árum stafar ekki eingöngu af uppsveiflunni í efnahagslífinu heldur má rekja að minnsta kosti helming rekstrarafgangsins til kerfislægra breytinga sem eru óháðar áhrifum hagsveiflunnar. Um þetta eru allir helstu aðilar sem fjalla um efnahagsmál sammála, svo sem OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun.

Útgjöld 2001

7. Með samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga var ákveðið að auka framlög úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og jafnframt lækka tekjuskattshlutfall ríkisins á móti hækkun útsvars sveitarfélaga. Þetta samkomulag veikir stöðu ríkissjóðs um rúma þrjá milljarða króna árið 2001 en styrkir stöðu sveitarfélaga sem því nemur.

8. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hækka barnabætur var meðal annars tekin til þess að greiða fyrir því að samningar á almenna vinnumarkaðnum tækjust sl. vetur. Ella hefðu fyrirtækin væntanlega þurft að fallast á meiri launahækkanir - og þar með lakari afkomu.

9. Vaxtagjöld ríkissjóðs aukast um 3,2 milljarða króna. Um tvo milljarða má rekja til breytinga á lánsfjármögnun og lánastýringu ríkissjóðs, en á móti þeim koma jafnmiklar tekjur af innstæðum. Um milljarður er vegna breytinga á gengi og vaxtastigi.

10. Ennfremur má nefna að útgjöld ríkissjóðs aukast um 820 milljónir króna sem er greiðsla ríkissjóðs á fjármagnstekjuskatti, en auknar tekjur af sölu eigna þýða að ríkið greiðir skatta sem nema 10% af söluhagnaði og hækka tekjur ríkissjóðs og gjöld um sömu fjárhæð. Breytingin hefur því engin efnisleg áhrif.

11. Útgjaldahorfur fyrir árið 2001 hafa ekki raskast frá afgreiðslu fjárlaga, en ófyrirséð atvik geta nú sem endranær breytt forsendum fjárlaga."