Heimir Björgúlfsson einhvers staðar nálægt Washington.
Heimir Björgúlfsson einhvers staðar nálægt Washington.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STILLUPPSTEYPA er með duglegustu hljómsveitum hvað varðar upptökur og útgáfu og liðsmenn hennar slá ekki stöku við heldur. Heimir Björgúlfsson Stilluppsteypumaður sendir frá sér ördisk í vor og skömmu fyrir jól kom út annar diskur frá Heimi, Discreet Journey Digitalis, sem Mille Plateaux gefur út.

Á síðasta diski, The Opposite, vann Heimir úr hljóðum sem hann tók upp í íslenskri náttúru og sneri í stafrænt form. Að þessu sinnig eru hljóðin öll búin til stafrænt, en Heimir segist þó langt í frá leiður á íslenskri náttúru, hann hafi einfaldlega langað til að prófa eitthvað nýtt. "Oftast, hvort sem ég vinn einn eða með Stilluppsteypu, notast ég einfaldlega við hvaða hljóðuppruna sem er og hljóðunum er svo breytt í tölvuvinnslu. Að þessu sinni vildi ég skapa algerlega stafræna veröld fyrir diskinn, því hann er nokkurs konar ferðalag í gegnum heim sem ég hef skapað."

Heimir segist hafa unnið diskinn að mestu á frekar skömmum tíma, frá seinni hluta október 1999 til byrjunar janúar 2000. "Ég ákvað að vinna efnið hratt og ná þannig öðrum blæ en ef ég hefði sankað að mér yfir marga mánuði. Svo vildi ég líka hafa texta með verkinu og fannst þá áhugaverðara að láta einhvern annan skrifa texta fyrir mig. Ég bað því listamanninn Mike Tyler frá Kaliforníu, sem er búsettur í Amsterdam, um að skrifa textann fyrir mig og gaf honum algerlega frjálsar hendur hvað hann vildi skrifa. Textinn sem er á umslaginu er því það sem kom upp í huga honum þegar hann hlustaði á diskinn, en hann lauk við verkið í júlí."

Eins og getið er er Discreet Journey Digitalis önnur plata Heimis á tiltölulega skömmum tíma, en hann er með fleiri járn í eldinum því á næstunni kemur út smáskífa með tónlist eftir hann á vegum Staalplaat-útgáfunnar hollensku. Heimir segir að sá diskur sé í svokallaðri Material Series-útgáfuröð og beri titilinn Machine Natura (an Interpretation Inconsistent with the Actuality of a Situation. Einnig kemur út innan skamms vínylbreiðskífa á vegum EMI "þar sem önnur hliðin er aðeins lockgrooves (19 stk.). Sú plata ber titilinn Circulations, en svo á ég einhver verk á safnplötum."

Ekki má skilja þessa útgáfu Heimis sem svo að hann sé hættur að starfa með Stilluppsteypu, hann segir að um sé að ræða tónlist sem hann vinni einn og með öðru hugarfari en það sem Stilluppsteypa sé að fást við. "Þetta er persónulegra efni, mín eigin yfirlýsing ef svo mætti að orði komast. Það sem við gerum í Stilluppsteypu er meiri hrærigrautur af okkur þremur að skiptast á hugmyndum og breyta hver hjá öðrum."

Undanfarið hefur Heimir ekki bara unnið einn því hann hefur leikið á tónleikum með þremur öðrum listamönnum og tekið upp; Gert-Jan Prins frá Hollandi, Dan Armstrong frá Bandaríkjunum og Retro A.K.A. frá Ísrael. "Við spilum allir stutta sólóperformansa og svo allir fjórir saman í lokin með spunnið sett. Við erum að fara að spila meira á árinu og munum taka upp efni fyrir útgáfu. Svo hef ég unnið efni í meiri diskóátt með Svíanum Jonas Ohlsson sem kallar sig Nordic Wonder Boy. Við förum að vinna upptökur seinna á árinu í sérstöku stúdíói í Nijmegen."

Eins og margir muna hélt Stilluppsteypa tónleika hér á landi í haust, en sveitin hefur einmitt verið á faraldsfæti og lauk fyrir skemmstu tónleikaferð um Bandaríkin með TV Pow frá Chicago. Í þeirri ferð tók sveitin mikið af tónleikaspuna með TV Pow fyrir útgáfu hjá Erstwhile Records í Bandaríkjunum, en einnig er sveitin að hefja vinnu að DVD diskaútgáfu fyrir Staalplaat í Times Up hljóðverinu í Linz í Austurríki, en Heimir segir að þar gefist þeim félögum loks tækifæri á að vinna með surround-upptökur. "Svo erum við að vinna disk með Spánverjanum Francisco Lopez í rólegheitunum og líka farnir að spá í upptökur fyrir okkar næsta geisladisk sem verður gefinn út að öllum líkindum næsta haust og fylgt eftir með tónleikaferð um Evrópu. Svo eru nokkur fleiri lausleg plön um önnur verkefni á næstunni," segir Heimir að lokum.

Verslunin 12 tónar dreifir Discreet Journey Digitalis hér á landi.

eftir Árna Matthíasson