Grillveisla eftir erfiðan vinnudag.
Grillveisla eftir erfiðan vinnudag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
F YRIR nokkrum árum ákváðum við, Dögg og Hjördís, að þegar námi okkar beggja væri lokið myndum við leggjast í ferðalög saman, upplifa eitthvað nýtt og spennandi. Í september sl.

FYRIR nokkrum árum ákváðum við, Dögg og Hjördís, að þegar námi okkar beggja væri lokið myndum við leggjast í ferðalög saman, upplifa eitthvað nýtt og spennandi. Í september sl. fengum við þá hugdettu að auk þess að ferðast vildum við láta eitthvað gott af okkur leiða og fórum í framhaldi af því að hugsa um að fara í hjálparstarf.

Fyrir óþolinmóðar konur eins og okkur, sem vildu byrja strax, virtust ekki margir möguleikar standa til boða. Okkur tókst þó að hafa uppi á samtökum sem heita Humana People to People (HPP) sem höfðu þörf fyrir okkur strax í byrjun nóvember. Verkefnið sem þau buðu okkur er tvíþætt og stendur yfir í eitt ár. Fyrri hluti verkefnisins felst í því að taka þátt í uppbyggingu nýs skóla í Durban í Suður-Afríku sem ætlað er að þjálfa sjálfboðaliða í þróunarhjálp. Við gerum ráð fyrir að vera í skólanum í sex mánuði, búa til þjálfunaráætlun fyrir sjálfboðaliða jafnframt því að taka þátt í henni. Að því loknu munum við vinna við eitt af þróunarverkefnum samtakanna hér í Afríku, en þau eru 138 talsins víðsvegar um heim. Eins og er er ekki ljóst hvaða verkefni við komum til með að vinna við eða hvar, en við munum skrifa nánar um það seinna.

Hópurinn

Hópurinn sem við eigum eftir að búa og vinna með næstu sex mánuðina er nokkuð fjölbreyttur. Við erum fimm Evrópubúar, frá Íslandi, Noregi og Hollandi, og níu Afríkubúar, sem eru frá Suður-Afríku, Zimbabwe, Zambíu, Malaví og Namibíu og enn eiga einhverjir eftir að bætast í hópinn. Ásamt okkur mannfólkinu eru hér nokkrar apafjölskyldur, sem oft læðast inn í hús til að sníkja eða stela mat. Einn daginn er við sátum við skriftir birtist einn frakkur api í dyragættinni. Okkur var nú smávegis brugðið en í spenningnum yfir þessum framandi gesti þutum við inn í eldhús og náðum í ávexti til að gefa honum. Þegar við komum út voru um 10-15 apar fyrir utan. Fannst okkur þetta alveg magnað og eitthvað sem við höfum eingöngu upplifað í dýragarði en ekki svona rétt við útidyrnar. Okkur telst til að hér í nágrenninu búi a.m.k. 5 apafjölskyldur þar sem nokkrir apanna eru með litla unga á maganum. Aparnir eru nokkuð gæfir og borða beint úr hendi manns, en ekki er komist hjá því að verða smávegis smeykur þar sem þeir hafa langar og hvassar tennur. Karlapana er hægt að þekkja úr margra metra fjarlægð þar sem pungurinn á þeim er ansi fallegur að lit eða skærblár. Einnig eru hér margar tegundir fugla og ansi fjölskrúðug skordýraflóra. Stórir flugmaurar birtast oft á kvöldin en þeir hafa stóra vængi sem detta af þeim einn af öðrum og liggja hér eins og laufblöð úti um allt. Okkur finnst þessi dýr heldur ógeðfelld en skólafélagar okkar frá Zimbabwe og Zambíu borða þessar pöddur af bestu lyst, bara léttsteikja þær og salta.

Skólinn

Skólinn okkar sem ber nafnið KwaZulu-Natal Experimental College (KNEC) er í Pinetown, úthverfi Durban. Durban er í KwaZulu-Natal-héraðinu og er þriðja fjölmennasta borg Suður-Afríku með um 3,2 milljónir íbúa af ýmsum uppruna. Húsnæði skólans er gömul þjálfunarmiðstöð þar sem héraðsbúar gátu komið og lært ýmsar iðngreinar svo sem smíðar, pípulagnir og rafvirkjun. Samtökin sem við vinnum fyrir, HPP, hafa nýlega fest kaup á þessum húsum og unnið er við skipulagningu þeirra, hvað á að vera í hverju húsi og hvernig það á að vera. Mikill tími fer því í þrif og uppbyggingu og má segja að gúmmíhanskar og vinnuvettlingar séu orðnir hálfgerður einkennisbúningur hópsins.

Stefnt er að því að strax á næsta ári verði búið að gera upp allar byggingarnar og að starfsemi KNEC verði komin á fullan skrið. Ásamt því að starfrækja skóla fyrir sjálfboðaliða kemur skólinn til með að bjóða upp á ýmiskonar námskeið og félagsþjónustu við bæjarbúa.

Fyrstu kynni af Afríku

Þegar við loksins komumst á áfangastað eftir langt ferðalag brá okkur nokkuð að sjá hversu stór og vestræn Durban virtist vera. Fátt virtist benda til þess að við værum í Afríku. Við okkur blöstu háhýsi, hraðbrautir, fínir bílar og allt það sem tilheyrir vestrænum stórborgum. Það eina sem gaf okkur smávísbendingu um að við værum staddar í Afríku, var húðlitur fólksins.

Það tók okkur nokkra daga að uppgötva að við erum í raun í Afríku. Í upphafi leit þetta satt best að segja ekki sérlega vel út og olli okkur þónokkrum vonbrigðum. Suður-Afríka virtist ekki þetta framandi land sem við höfðum búist við. En eftir því sem á líður, við búnar að skoða meira og kynnast fólki sjáum við hversu framandi allt í raun er, hversu ólíkir siðir og venjur eru því sem við eigum að venjast úr vestrænu samfélagi.

Eitt af fyrstu verkefnum okkar hér í skólanum var að fara í miðbæ Pinetown og ræða við fólk á förnum vegi um ýmis málefni svo sem apartheid (aðskilnaðarstefnuna), lífshætti í Suður-Afríku og fleira. Við vorum nánast eina hvíta fólkið í bænum, fyrir utan nokkrar hræður sem sátu á McDonalds og gæddu sér á vestrænum skyndibita. Hópurinn fór allur saman niður í bæ og vakti það mikla athygli bæjarbúa að sjá svona blandaðan hóp, en mjög óalgengt er að sjá svarta og hvíta saman. En það verður að segjast eins og er að okkur finnst við vera mun öruggari í hópi svartra en ef við erum einungis "hvítingjar" á göngu.

Það er að okkar mati augljóst að enn er langt í land að jafnræði komist á milli svartra og hvítra hér í landi. Við spurðum fólk út í þetta málefni og fengum ótrúlega mismunandi svör eftir litarhætti. Flest hvítt fólk taldi apartheid heyra sögunni til og að allir væru nú með jafna möguleika. En þó átti þetta fólk enga svarta vini og samskipti þeirra á milli voru í lágmarki.

Þegar við töluðum við svart fólk eða þeldökkt var allt annað upp á teningnum, þeir sögðu allir að enn væri mikil mismunun og sumir töldu að ekkert hefði breyst síðan apartheid var endanlega afnumin 1994. Flestir svartra töldu þó margt hafa breyst til batnaðar, en að enn væri langt í land svo að allir hefðu jafna möguleika.

Einn af viðmælendum okkar, svartur maður um þrítugt, hafði ekki fagra sögu að segja af samskiptum sínum við hvíta. Hann hafði til að mynda verði barinn til óbóta af hvítum lögreglumönnum í Pretoria og átti fótum sínum fjör að launa í það skiptið. Eins og margir aðrir var hann hálfsmeykur við okkur og sagðist almennt vera hræddur við hvíta. Fannst sem hvítt fólk reyndi að heilaþvo svarta þannig þeir yrðu eins og þeir hvítu, gleymdu rótum sínum sem og menningu. Í fyrstu fannst okkur þetta heldur ógnvekjandi og svolítið skrítið að hann gæti trúaðþessu. Eftir að vera búnar að ræða við marga af íbúum Pinetown höfum við fengið aðeins betri mynd af lífsháttum og viðhorfum fólks hér í bæ. Varðandi mismunun milli svartra og hvítra, þá eru ekki nema 6 ár síðan apartheid var afnumin og flestir voru sammála um að það tekur tíma fyrir alla að aðlagast stórfelldum breytingum sem þessum. Hvað okkur varðar þá finnst okkur svolítið skrítið að tilheyra allt í einu svona miklum minnihlutahópi, en með því að ræða við innfædda höfum við komist að því að flestallir vilja eignast hvíta vini og eru mjög vingjarnlegir við okkur. Það virðist mjög óvanalegt að hvítt fólk sýni þeim áhuga og er hlegið innilega að okkur þegar við reynum að apa eftir þeim á zulu, tungumáli þeirra sem er mjög sérkennilegt með endalausum klikkum í framburði eins og sífellt sé slett í góm.

Eins og áður sagði búum við með fólki frá ýmsum löndum Afríku og við komumst betur að því með degi hverjum hversu ólíkan bakgrunn við höfum og hversu ólíkar lífsvenjur okkar eru. Fyrir okkur er það mjög óvenjulegt og erfitt að venjast því að búa svona náið með fjölda fólks. Við borðum, sofum og vinnum saman alla daga vikunnar og hér er nánast ekkert einkalíf, sem getur stundum tekið á taugarnar. Í þeirra augum er þetta mjög eðlilegt heimilislíf og jafnvel lúxus þar sem flest þeirra koma frá heimilum þar sem búa allt að 15 manns saman í tveimur til þremur herbergjum. Matarvenjur eru einnig allt aðrar en við þekkjum. Á meðan við fussum og sveium yfir að fá sama matinn þrisvar til fjórum sinnum í viku þykir þeim eðlilegt að borða baunir og sadza sem er maísmjöl og vatn blandað saman þannig að úr verður bragðlaus hvít klessa, í allar máltíðir. Finnst þeim því þessi fábreytti matseðill okkar veislumatur.

Viðhorf þeirra og skoðanir á flestum þáttum mannlífsins eru nokkuð aðrar en við eigum að venjast og oft hafa spunnist upp forvitnilegar samræður okkar á milli. Eitt kvöldið ræddum við til að mynda um ástina og hjónabandið. Þegar Afríkubúarnir fara að tjá sig um þessi málefni er ekki sjaldan sem að hakan á okkur Evrópubúunum fellur alveg niður á maga. Þau hrista einnig ansi oft höfuðið þegar við segjum þeim frá því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hjá okkur. Fyrir nokkrum dögum kom upp skondið atvik sem lýsir vel hversu ólík viðhorf okkar eru. Ishe frá Zimbawe kallaði Linn frá Noregi á fund til sín sem hún hélt að sjálfsögðu að fjallaði um skólann. En annað kom á daginn, hann sagðist elska hana og bað hana að giftast sér, en gaf henni einn dag til að hugsa málið. Hún kom alveg af fjöllum og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þar sem ekkert hafði farið þeirra á milli sem benti til að rómantík væri í loftinu. Síðan hefur þetta mikið verið rætt og það að segja: "Ég elska þig," er bara fyrsta skrefið í að hefja samband og síðan geta hlutirnir farið að þróast.

Til hjónabands er einnig stofnað með allt öðru sniði en við eigum að venjast. Á mörgum stöðum í suðurhluta Afríku, Malavíu, Zambíu og Zimbabwe er enn venja að greitt sé fyrir konur með kúm, eða andvirði þeirra í peningum. Meðalverð fyrir eina konu kostar manninn 11 kýr eða um 20.000 rand (ca. 200.000 isk). Verðið getur síðan hækkað og lækkað eftir stétt og stöðu konunnar. Ef maður finnur konu sem hann vill giftast, ef ekki er þegar búið að ákveða það fyrirfram hverri hann giftist, hefst ansi flókið ferli. Eftir kúnstarinnar reglum þarf hann að kynnast öllum frænkum og frændum konunnar og þeir/þær ákveða hvort hann sé góður kostur eður ei. Foreldrar konunnar hafa oftast ekkert með málið að gera, heldur eru það frænkurnar og frændurnir. Ef tilvonandi eiginmaður er samþykktur af öllum þessum frændum og frænkum getur næsta skref hafist. Samningaviðræður fara í gang, móður/föðurbróður brúðarinnar og verðandi eiginmaður og frændi hans semja um verð. Ef allt þetta gengur upp og allir aðilar fara sáttir frá samningaborði á brúðkaup sér stað.

Kýrnar skipta þá um heimili og sums staðar er það venjan að fjölskylda brúðarinnar og fjölskylda brúðgumans komi með eina aukakú hvor í brúðkaupið sem eru skornar í tvennt á staðnum og skipt á milli fjölskyldna.

Eftir að hjónabandið hefur verið innsiglað og brúðkaupsnóttin er yfirstaðin er hefð fyrir því á mörgum stöðum að frænkur brúðarinnar fá það hlutverk að kanna hvort stúlkan hafi verið hrein mey. Ef svo reynist ekki lækkar verðið um eina kú.

Ansi flókið og ólíkt því sem við eigum að venjast og síðan finnst þeim fáránlegt hvernig tilhugalífið og hjónabandið gengur fyrir sig hjá okkur.

Gönguferð um Dragensberg

Við endum þennan pistil með því að segja ykkur í örfáum orðum frá ferð okkar til Dragensberg á dögunum. Dragensberg þýðir fjöll drekanna en zulumenn kalla hann Quathlamba sem stendur fyrir bardagi spjótanna. Dragensberg er fallegur fjallgarður sem myndar landamærin á milli KwaZulu-Natal og Lesotho og er hæsti tindurinn, Thabana-Ntlenyana 3.482 m. Við fórum þó ekki svo hátt en gengum fallega stíga sem liggja upp og niður grónar hlíðar í steikjandi hita og sól. Það var því vel þegið þegar við komum að Nandi-fossinum eftir rúmlega fimm tíma göngu og gátum bleytt aðeins í okkur. Dragensberg býður upp á marga spennandi möguleika til útivistar, allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar nokkurra daga fjallgöngur. Skemmtileg upplifun og falleg náttúra allt um kring.

Á næstunni komið þið til með að geta lesið meira frá ferðum okkar í Afríku þar sem við munum senda reglulega pistla héðan meðan á dvöl okkar stendur.

Kveðja frá Afríku,

Dögg og Hjördís.