Jónas Ingimundarson píanóleikari með hinum ungu söngvurum í Salnum.
Jónas Ingimundarson píanóleikari með hinum ungu söngvurum í Salnum.
Á fyrstu Tíbrártónleikum ársins í Salnum í Kópavogi verða fjórir söngvarar af yngstu kynslóðinni kynntir. Jónas Ingimundarson sagði Súsönnu Svavarsdóttur að hann hefði valið söngvarana saman vegna þess að þau væru öll jafnfalleg og syngju öll yndislega.

FYRSTU Tíbrártónleikar ársins, undir heitinu Við slaghörpuna, verða haldnir í Salnum í Kópavogi í kvöld, sunnudagskvöld, klukkan 20. Við slaghörpuna er Jónas Ingimundarson en með honum í för að þessu sinni eru fjórir söngvarar af yngstu kynslóðinni. Söngkonurnar eru tvær, Hulda Björk Garðarsdóttir sópran og Sesselja Kristjánsdóttir mezzósópran, en auk þeirra hefja upp raust þeir Garðar Thor Cortes tenór og Ágúst Ólafsson barítón. Öll hafa þau dvalið í borgum Evrópu við söng á undanförnum árum, í Berlín, London og Helsinki.

Nóg að gera heima og erlendis

Hulda Björk Garðarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 1996. Kennarar hennar þar voru Þuríður Pálsdóttir og Dóra Reyndal.

Eftir það hélt hún til Berlínar þar sem hún stundaði nám við Listaháskólann í eitt ár og hélt síðan til London þar sem hún hlaut styrk frá Associated Board til að stunda nám við Royal Academy of Music og lauk því árið 1998.

Hulda Björk hefur haft nóg að gera síðan hún útskrifaðist. Hún söng í Kantötu nr. 3 eftir J.S. Bach í Hallgrímskirkju í janúar í fyrra ásamt Schola Cantorum. Síðastliðið vor söng hún hlutverk Fiordiligi í Cosi fan Tutte eftir Mozart á Amersham-tónlistarhátíðinni í London. Þá söng hún hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós hjá Garsington Opera í Oxfordskíri undir stjórn Stephens Barlows. Hulda Björk er nýkomin úr norrænni tónleikaferð um Ísland, Svíþjóð og Noreg. Hún söng hlutverk Evridice í tónleikauppfærslu Kammerkórs Kópavogs í nóvember, einnig sópran í Elijah eftir Mendelssohn í Langholtskirkju með Óperukórnum í desember og tók þátt í jólatónleikum Karlakórs Reykjavíkur í Hallgrímskirkju í sama mánuði.

Hulda Björk er búsett á Íslandi og þegar hún er spurð hvort það takmarki ekki möguleika hennar á hlutverkum erlendis, úti í hinum stóra óperuheimi, segir hún svo ekki vera enn sem komið er. "Ég hef alveg yfrið nóg að gera," segir hún. "Það er mjög gott að geta búið hér heima með fjölskylduna og farið síðan út til að syngja þau hlutverk sem mér bjóðast."

Hvað er næst á döfinni hjá þér?

"Ég er á leiðinni til Malaga á Spáni þar sem ég syng hlutverk Seviliu í La Clemenza di Tito eftir Mozart og síðan syng ég hlutverk Michaelu í Carmen eftir Bizet í tónleikauppfærslu Sinfóníuhljómsveitar Íslands seinna í vetur."

Lúxusár í Þýskalandi

Sesselja Kristjánsdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi úr tónmenntakennaradeild og síðar 8. stigi frá söngdeild skólans þar sem kennari hennar var Rut Magnússon. Hún lauk diplómprófi með hæstu einkunn frá Hanns Eisler-tónlistarháskólanum í Berlín, þar sem hún leggur nú stund á eins árs viðbótarnám við skólann, eða eins konar "lúxusár", eins og Sesselja kallar það. "Að vísu eru engin skólagjöld í Þýskalandi," segir hún, "en fyrir þetta ár þarf að taka inntökupróf upp á nýtt og það eru aðeins nokkrir valdir úr hópnum. Lúxusinn felst í því að þetta ár byggist á einkatímum og fyrir þá þurfum við ekki að borga."

Sesselja lýkur náminu í vor og segist eitthvað vera farin að fikra sig áfram í að koma sér á framfæri. Hún hlaut Bayreuth-styrk þýsku Richard Wagner-samtakanna síðastliðið sumar og hefur komið fram á tónleikum hér á landi og erlendis. Einnig hefur Sesselja tekið þátt í ýmsum óperuuppfærslum, nú síðast söng hún hlutverk Bertu í Rakaranum frá Sevilla við National Rijksoper í Hollandi. Næsta verkefni hennar er hlutverk Babette í The English Cat eftir Heinze við óperuhúsið í Osnabrück í Þýskalandi.

Ánægður í Finnlandi

Ágúst Ólafsson hóf söngnám hjá Eiði Á. Gunnarssyni í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar í október 1992. Þaðan lauk hann 8. stigs prófi vorið 1997. Þá um haustið fékk hann inngöngu í einsöngvaradeild Síbelíusarakademíunnar í Finnlandi og hóf þar meistaranám í söng hjá Jorma Hynninen. Haustið 1999 færði Ágúst sig yfir í óperudeild skólans - en til þess þurfti hann að gangast undir inntökupróf og var á meðal fárra sem inn komust. "Í óperudeildinni eru færðar upp ein eða tvær óperur á ári og skólanum ber skylda til að sjá til þess að við í óperudeildinni fráum tækifæri til þess að taka þátt í þeim, svo þjálfunin þar skiptir miklu máli," segir hann.

Ágúst hefur einnig tekið þátt í námskeiðum í ljóðasöng og sótt meistaranámskeið í hinni miklu óperuborg Savonlinna í Finnlandi. Hann hefur haldið marga einsöngstónleika í Helsinki. Hér heima var hann með einsöngstónleika í Hafnarborg haustið 1999 og kom fram á tónleikum í tónleikaröðinni Íslenska einsöngslagið í Salnum síðastliðið vor.

En hvers vegna valdi hann Finnland til framhaldsnáms?

"Ég hafði heyrt margt gott um skólann," segir Ágúst, "og ég hafði líka hlustað á finnska söngvara sem ég hef hrifist mjög af. Ég ákvað að fara í inntökupróf í Finnlandi og kunni einfaldlega svo vel við mig í Helsinki að ég ákvað að fara ekki í önnur inntökukpróf."

Endalaus próf

Garðar Thor Cortes hóf nám við Söngskólann í Reykjavík 1993 hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og lauk þaðan 8. stigi 1997. Síðan hélt hann til framhaldsnáms við Tónlistarháskólann í Vínarborg hjá prófessor Helene Karusso og þaðan til Kaupmannahafnar til náms hjá prófessor Andrej Orlowitz. Garðar hefur sungið í nokkrum söngleikjum heima og erlendis, þeirra á meðal West Side Story, Oklahoma og Carmen Negra og nú síðast í The Phantom of the Opera í London. Síðastliðið haust byrjaði Garðar Thor í tveggja ára framhaldsnámi í óperudeild The Royal Academy of Music í London, eftir að hafa staðist inntökupróf. Hann segir skólann setja upp þrjár óperur ár ári, auk sýningar þar sem færð eru upp valin atriði úr hinum ýmsu óperum. Í haust tók hann þátt í þeirri sýningu og seinna í vetur verður hann í óperu eftir Rossini sem heitir Il Signor Bruschino.

Þegar söngvararnir ungu eru spurðir hvers vegna þeir séu stöðugt að taka inntökupróf inn í nýjar deildir, hvort ekki sé nóg að hafa lokið námi og hafa prófskírteini í höndunum, segja þau svo ekki vera. "Það sem einkennir söng- og óperuheiminn," segja þau, "er að hann byggist upp á prófum - inntökuprófum og söngprufum. Það er öllum sama hvar við höfum lært og hvaða prófskírteini við höfum. Valið snýst alltaf um hvað við getum hverju sinni.

Það er valið inn í allar framhaldsdeildir og margir um hituna. Eftir nám taka við söngprufur þegar valið er inn á fasta samninga hjá óperuhúsum og þegar verið er að velja söngvara fyrir tónleika og einstök hlutverk hjá húsunum. Þannig er bara líf óperusöngvarans."

Efnisskráin kynnt á tónleikunum sjálfum

Þegar undirleikarinn, Jónas Ingimundarson, er spurður um efnisskrá Tíbrártónleikanna á sunnudaginn verður fátt um svör. "Það er nú þannig," segir Jónas, "að hún er kynnt á tónleikunum og þá spjallað um lögin sem sungin eru. En ég get upplýst að fyrir hlé syngja þessir fjórir söngvarar á átta erlendum tungumálum, þýsku, ensku, hebresku, spænsku, rússnesku, finnsku, norsku og frönsku og síðan verður sungið á íslensku - kannski til þess að sýna að þjálfun þeirra snýst ekki bara um að kunna einhverjar tvær til þrjár óperur. Eftir hlé syngja þau síðan óperuaríur, dúetta og kvartetta."

Hvernig velurðu söngvara á Tíbrártónleikana?

"Það er misjafnt. Stundum hef ég samband við söngvarana, stundum hafa þeir samband við mig. Ég valdi þessa fjóra söngvara saman vegna þess að þau eru öll á svipuðum aldri, öll jafnfalleg og syngja öll yndislega."

En hvað segja söngvararnir ungu um framtíðarmöguleikana og búsetu á Íslandi?

"Framtíðin er auðvitað frekar ófyrirsjáanleg," segja þau. "Hingað til hefur lítið sem ekkert verið um föst störf fyrir söngvara, en það gæti verið að breytast. Nú standa yfir inntökupróf hjá Íslensku óperunni þar sem verða fimm til tíu stöðugildi og þetta er mjög jákvæð þróun. Söngvarar fá hér tækifæri til þess að sitja við sama borð og kynna sig hér heima." Ágúst segir það þó ekki endilega markmið sitt að koma heim að námi loknu.

Hulda segist helst vilja starfa hér heima vegna þess að hún sé með fjölskyldu og hér vilji hún helst búa. Þau Sesselja og Garðar taka undir það og bæta því við að það sé orðið mun auðveldara fyrir söngvara að búa hér heima og skreppa tímabundið út til þess að syngja hlutverk erlendis.

"Það gengur allur ferillinn út á að sanna sig," segja þau, "hvort sem við syngjum hér heima eða erlendis og við erum þegar farin að sjá dæmi þess að söngvarar geti búið hér um leið og þeir byggja upp alþjóðlegan feril."