ENN einu sinni sest ég niður við tölvu sonar míns til að skrifa nokkrar línur um það hve stutt er á milli hláturs og gráts. Ég lá inni á Grensásdeild (frá nóv.) og um 20.

ENN einu sinni sest ég niður við tölvu sonar míns til að skrifa nokkrar línur um það hve stutt er á milli hláturs og gráts.

Ég lá inni á Grensásdeild (frá nóv.) og um 20. desember komu þau dásamlegu tíðindi að Öryrkjabandalag Íslands hefði unnið mál hjá Hæstarétti Íslands þar sem staðfest var að ekki væri heimilt að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka. Þvílík fagnaðarlæti hjá okkur sjúklingunum sem eigum vinnufæra maka.

En Adam var ekki lengi í paradís, strax daginn eftir fengum við þær fréttir að ráðamenn þjóðarinnar, ríkisstjórnin, ætluðu sér ekki að standa við úrskurð Hæstaréttar. Þetta kom okkur verulega á óvart, sem hnífstunga í bakið, því hverjum getum við treyst ef ríkisvaldið þarf ekki að lúta Hæstarétti og forseti Íslands getur ekki ráðið yfir ríkisstjórninni, hverjir ráða þá í landinu; er það ef til vill Tölvunefnd?

Það virðist vera að þegar um stórmál er að ræða fyrir minnihlutahópa þá stöðvast allt. Hver stöðvar það? Við sátum nokkur saman á Grensásdeild þar sem við vorum að ræða nýfengið réttlætismál, sér í lagi við sem höfum verið öryrkjar til margra ára, en þá sagði einn sjúklingur sem hafði lent í slysi fyrir tveimur mánuðum: "Eruð þið svo vitlaus að halda virkilega að þetta komist í gegn?" Þarna talaði greinilega sjúklingur sem ekki hefur þurft að berjast við kerfið og vonandi þarf ekki að gera það. Ég var svo lánsöm að fá að fara heim fyrir jól og þegar ég frétti af bónargöngu formanns Öryrkjabandalagsins til Ólafs Ragnars Grímssonar og þau fátæklegu svör sem þar fengust féllust mér endanlega hendur.

Þegar greiðsluseðill Tryggingastofnunar kom fyrir janúarmánuð árið 2001 þá var það 18.424 kr. og tekjutryggingin var engin og engin leiðrétting. Að vísu höfðu greiðslur almannatrygginga hækkað um 4,0% frá og með 1 janúar 2001. Það virðist vera fyrirsjáanlegt að við í þessari stöðu höldum áfram að vera ölmusufólk í þjóðfélaginu án mannréttinda.

Ég vil skora á hugsandi, ráðandi landsmenn að reyna að setja sig í okkar spor á þessum góðæristímum. Ég sendi öllum landsmönnum ósk um frið og réttlæti á komandi ári. Í Guðs friði.

ÞÓRUNN KR. EMILSDÓTTIR

Víghólastíg 4, Kópavogi.

Frá Þórunni Kristínu Emilsdóttur: