Börn úr Íslenskuskólanum lásu jólaguðspjallið.
Börn úr Íslenskuskólanum lásu jólaguðspjallið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ ER orðinn nauðsynlegur hluti af lífi Íslendinga sem búsettir eru í Hollandi að sækja alíslenska jólaskemmtun sem haldin er í sameiningu af Íslendingafélaginu í Hollandi og Íslenskuskólanum.

ÞAÐ ER orðinn nauðsynlegur hluti af lífi Íslendinga sem búsettir eru í Hollandi að sækja alíslenska jólaskemmtun sem haldin er í sameiningu af Íslendingafélaginu í Hollandi og Íslenskuskólanum. Á nýafstaðinni jólahátíð var engin undantekning þar á og hin veglegasta jólatrésskemmtun haldin í borginni Utrecht. Aðsóknin var og með endemum góð, um 150 Íslendingar sem búsettir eru um allt Holland sóttu gleðina og skemmtu sér hið besta.

Í hvívetna var kappkostað að hafa skemmtunina sem líkasta því er gerist heima á Fróni. Gömlu og góðu íslensku jólalögin voru sungin og dansað í kringum jólatréð. Hurðaskellir og Giljagaur komu í heimsókn alla leið frá Íslandi, með íslenskt góðgæti handa börnunum. Kór Íslendingafélagsins söng nokkur íslensk jólalög undir stjórn Rúnars Óskarssonar klarinettleikara og undir lokin teygaði fullorðna fólkið jólaglögg og skrafaði.

Jólaskemmtunin í Hollandi á sívaxandi vinsældum að fagna og er nú orðin stærri viðburður en sjálft þorrablótið. Því er ekki ólíklegt að íslensku krakkarnir sem búsettir eru í Hollandi séu þegar farnir að hlakka til næstu skemmtunar.