[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
J ÓLIN eru sjaldnast stóra vandamálið," segir Laufey Steingrímsdóttir, forstöðumaður Manneldisráðs, og byrjar á því að slá á áhyggjur fólks yfir að hafa bætt á sig fáeinum aukakílóum yfir hátíðarnar.

J ÓLIN eru sjaldnast stóra vandamálið," segir Laufey Steingrímsdóttir, forstöðumaður Manneldisráðs, og byrjar á því að slá á áhyggjur fólks yfir að hafa bætt á sig fáeinum aukakílóum yfir hátíðarnar. "Ef fólk hefur bætt á sig einu eða tveimur kílóum eru aukakílóin fljót að hverfa þegar aftur er farið yfir í venjulegu rútínuna. Ekki er við raunverulegan vanda að etja nema tímabilið sé orðið lengra eins og gerist þegar fólk er að halda upp á jólin allan desember og langt fram í janúar svo ekki sé talað um allt árið. Mest er um vert að temja sér almennt holla lifnaðarhætti," bætir hún við og brosir, "því þá er hægt að gera sér dagamun með góðri samvisku."

Laufey segir mikinn hug í Manneldisráði enda hafi nýlega verið bætt við heilu stöðugildi. Miðað við víðtækt hlutverk stofnunarinnar kemur á óvart hversu stöðugildin eru fá. "Ég hef verið í fullu starfi og Hólmfríður Þorgeirsdóttir matvælafræðingur í hlutastarfi. Ekki alls fyrir löngu bættist Anna Sigríður Ólafsdóttir í hópinn. Anna Sigríður hefur nýlokið MS-gráðu í næringarfræði frá Háskólanum í Vínarborg í samvinnu við Háskóla Íslands. Með þessum liðstyrk stefnum við að því að vinna að heildarúttekt á mataræði Íslendinga á árunum 2001-2002. Ekki hefur verið gerð hliðstæð úttekt frá því árið 1990. Aðeins hafa verið gerðar minni kannanir og fylgst með heildarframboði matvæla á mann á hverju ári og greint frá niðurstöðunum á heimasíðunni www.manneldi.is.

Með fyrirhugaðri heildarúttekt vonumst við til að fá ítarlegri upplýsingar um neyslumynstur þjóðarinnar. Gott dæmi um nauðsyn slíkrar úttektar er að þótt við vitum mætavel að sykurneysla er gífurleg á Íslandi, þ.e. um eitt kíló á viku, og hafi haldist stöðug svo áratugum skiptir, höfum við haft afskaplega litlar vísbendingar um hvernig neyslumynstrið hefur breyst á undanförnum áratugum. Að vísu hefur ýmislegt gefið til kynna að sykurneysla hafi breyst á milli kynslóða. Yngri kynslóðin virðist nota sykur í vaxandi mæli og ætla má að þar sé sykruðum gosdrykkjum aðallega um að kenna. Eldri kynslóðin virðist heldur hafa minnkað neyslu sykurs og er þar hægt að nefna að færri virðast bæta sykri út í kaffið og sætir eftirréttir hafa orðið sjaldgæfari. Gaman verður að vita hvort landsúttektin á eftir að renna stoðum undir þessa kenningu."

Minnkandi fiskneysla

Laufey viðurkennir að mestur áhuginn sé fyrir því að fá upplýsingar um neyslumynstur viðkvæmra hópa á borð við börn, ungar fjölskyldur, barnshafandi konur og aldraða. "Við höfum verið að vinna að rannsókn á mataræði og heilsufari barnshafandi kvenna með Háskóla Íslands og Miðstöð mæðraverndar í Heilsuverndarstöðinni. Konurnar hafa samviskusamlega svarað löngum spurningalistum um mataræði sitt. Jafnóðum hefur verið unnið úr niðurstöðunum og ýmislegt athyglisvert komið í ljós, t.d. varðandi fiskneyslu. Íslendingar borðuðu að jafnaði fisk tvisvar til þrisvar í viku fyrir um tíu árum. Nú virðist fiskur vera mun sjaldnar á borðum og hefur verðlagningin ábyggilega haft sitt að segja í þeirri þróun. Á hinn bóginn virðast Íslendingar í æ ríkari mæli velja tilbúna rétti."

Laufey segir að niðurstöðurnar hafi gefið til kynna mikla sykurneyslu sumra kvenna. Hún væri þó talsvert mismunandi því komið hafi í ljós að ákveðinn hópur hafi neytt sykraðra gosdrykkja daglega. Fituneysla hafi yfirleitt reynst innan hóflegra marka. En hefur ekki óhófleg fituneysla einmitt verið vandamál meðal Íslendinga í gegnum tíðina?

"Jú, alveg sérstaklega hörð fita. Óhófleg neysla veldur hækkandi kólesteróli og eykur þar með líkurnar á hjartasjúkdómum. Sem betur fer virðist þróunin vera í rétta átt því samkvæmt mælingum Hjartaverndar hefur kólesteról í blóði Íslendinga lækkað um 12 til 14% á síðustu tuttugu árum. Það er greinilegt að ákveðinn hópur hefur meðvitað minnkað fituneyslu sína niður í eðlilegt magn þótt enn eigi margir nokkuð í land. Þorri almennings hefur tileinkað sér breyttar neysluvenjur, t.d. með því að nota mýkri fitu í olíu til steikingar í stað smjörlíkis. Ekki þarf heldur að efast um að neysla á fituminni mjólk og mjólkurafurðum hefur skipt sköpum. Athygli vekur að fólk er ekki aðeins farið að velja fituminna viðbit heldur alla jafna að smyrja þynnra lag ofan á brauðsneiðar. En betur má ef duga skal. Við þurfum að standa okkur enn betur til að ná viðunandi takmarki."

Þurfum að bæta okkur um 80%

Laufey segir að Íslendingar þurfi helst að bæta sig í tengslum við neyslu á grænmeti og ávöxtum.

"Góðu fréttirnar eru að neysla grænmetis hefur vaxið um 30% á undanförnum tíu árum. Eigi að síður borðum við minnsta magnið af grænmeti og ávöxtum af öllum öðrum þjóðum í Vestur-Evrópu. Markmið Manneldisráðs er að Íslendingar borði um 500 g af grænmeti, kartöflum og ávöxtum á hverjum degi. Núna borðum við ekki nema um 275 g og þurfum því að bæta okkur um 80% til að ná settu marki á hverjum degi. Að hluta til eru ástæðurnar fyrir því hversu illa við stöndum okkur landfræðilegar og menningarlegar. Vegna legu landsins var ekki mikið um þessar fæðutegundir í hefðbundnu íslensku fæði. Með breyttum samfélagsháttum hefur íslensk matargerð tekið stökkbreytingum á síðustu árum og áratugum. Ærin ástæða er til að láta ekki deigan síga því að rannsóknir hafa sýnt fram á að við 500 g markið lækkar tíðni krabbameins að jafnaði um 20% og hjartasjúkdóma um 15%."

Offita stærsta heilsufars- vandamálið á nýrri öld

"Ég sé í rauninni aðeins jákvæðar hliðar á aukinni neyslu grænmetis og ávaxta, t.d. í tengslum við holdafar," segir Laufey hugsi og tekur fram að því hafi verið haldið fram að offita verði eitt helsta heilsufarsvandamálið á nýrri öld. "Þróunin hefur því miður verið langt frá því að vera í rétta átt hér á landi síðustu áratugi. Með hliðsjón af gögnum Hjartaverndar hefur Hólmfríður Þorgeirsdóttir komist að því að Íslendingar á aldrinum 45 til 64 hafa þyngst um 7 kg að meðaltali á síðustu tuttugu árum.

Mér hrýs enn meira hugur við því að samkvæmt rannsókn Brynhildar Briem, lektors við Kennaraháskóla Íslands, eykst þyngd íslenskra barna ört. Brynhildur tók saman upplýsingar úr heilsufarsbókum níu ára íslenska barna á tíu ára fresti. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að aðeins 0,7% níu ára drengja töldust of þungir árið 1938 en tæplega 18% árið 1998. Enginn drengjanna taldist eiga við offitu að stríða árið 1938 en 4,8% árið 1998. Stúlkur á sama aldri eru heldur þyngri og töldust 3,1% of þungar árið 1938 en 19,7% árið 1998. Aðeins 0,4% stúlkna töldust eiga við offituvandamál að stríða árið 1938 en 4,8% árið 1998. Tölurnar segja sína sögu og eðlilegt að reynt sé að bregðast við vandanum með afgerandi hætti. Ekki aðeins af því að offita veldur börnum ýmiss konar erfiðleikum heldur af því að meiri líkur eru á að of þung börn eigi eftir að glíma við offitu síðar meir á ævinni."

Hreyfing á að vera skemmtileg

Laufey segir hikandi að eiginlega sé skrítið að fólk skuli ekki vera þyngra. "Við eigum kost á að neyta nær ótakmarkaðs magns af alls kyns kræsingum og hreyfum okkur minna með hverjum deginum. Smám saman hefur öllum litlu viðvikunum í tilveru okkar verið að fækka. Hugsaðu þér að aðeins þarf að ganga upp og niður fjörutíu tröppur á hverjum degi til að þurrka út 7 kg þyngdaraukninguna hjá fullorðna fólkinu! Við verðum að huga að því að hreyfa okkur meira. Sumir hafa gaman af því að fara í líkamsrækt og auðvitað er ekki nema gott um það að segja," segir Laufey og laumast er til að spyrja hvort hún sé í þeim hópi. "Nei, reyndar ekki alveg reglulega. Hins vegar fer ég í dansleikfimi og hef mjög gaman af því. Aðalatriðið er að hver og einn finni sína leið til að njóta þess að stunda reglulega hreyfingu."

Verðlækkun eykur neyslu

Sú spurning vaknar hvaða áhrif verðlagning á grænmeti og ávöxtum hafi á neyslu. Laufey minnir á að ávextir séu ekkert sérlega dýrir á Íslandi. "Þótt mikið umtal um dýrt grænmeti sé mér eiginlega þvert um geð, því það hvetur síður en svo til aukinnar neyslu, er erfitt að neita því að grænmeti er dýrt á Íslandi. Ef ekki er gætt sérstakrar ráðdeildar er hægt að hugsa sér að fjögurra manna fjölskylda þurfi að eyða um 600 kr. á dag til að ná því magni sem við mælum með. Hins vegar verður að taka það með í reikninginn að grænmeti og ávextir koma í staðinn fyrir aðra matvöru sem er síður en svo ókeypis. Það þarf því ekki að vera neitt dýrara þegar upp er staðið að borða meira grænmeti en minna kjöt eða ávexti í staðinn fyrir kex. Stjórnvöld verða að sjálfsögðu að taka ákvörðun um hvort vegi þyngra hagsmunir neytenda eða framleiðenda. Annars held ég að verndartollar séu ekki endilega rétta leiðin til að styðja við bakið á framleiðendum, t.d. væri hægt að lækka raforkuverð til þeirra. Verðlækkun á grænmeti myndi án efa skila sér í söluaukningu og reyndar hefur verið reiknað út að 20% verðlækkun hafi í för með sér 10% aukningu í sölu. Aukin neysla á þessum hollu matvælum er raunar sérstakt forgangsverkefni Manneldisráðs þar til markmiðinu um hálfa kílóið verður náð."

Óhollara fæði í mötuneytum

Af öðrum sérstökum forgangsverkefnum nefnir Laufey mat í mötuneytum enda hafi komið fram ákveðnar vísbendingar um að mötuneytisfæði sé ekki sérlega hollt í landsúttektinni árið 1990. Maturinn hafi víða verið of feitur, reyktur og saltur. "Vinnuveitendur hafa örugglega ekki ætlað sér að bjóða upp á óhollan mat í mötuneytunum. Hvar skýringanna er að leita er erfitt að segja til um. Væntanlega er verið að reyna að gera fólki til geðs með áðurnefndum afleiðingum. Ef til vill vegna þess að menn kunna ekki nægilega vel að búa til mat þar sem bæði hollusta og gæði eru í heiðri höfð."

Salt ekki eina kryddið

Laufey vekur athygli á því að eðlilegt sé að hafa í huga að salt sé ekki lengur eina kryddið. "Margir hafa vanist því að borða mjög saltan mat og salta matinn óhóflega. Sá hugsunargangur á kannski rót að rekja til þess tíma þegar salt var nánast eina kryddið sem völ var á. Mikið salt er óheppilegt því það hækkar blóðþrýsting og í síðastliðinni viku fékkst staðfesting á áhrifamætti saltsins í rannsókn sem birtist 4. janúar í einu virtasta læknariti í Bandaríkjunum, New England Journal of Medicine. Rannsóknin sýndi fram á að með því að stilla saltinu í hóf má lækka blóðþrýsting til muna og meira en áður var talið. Fólk sem áður hafði þurft að taka blóðþrýstingslækkandi lyf gat jafnvel hætt allri lyfjanotkun með því að breyta um mataræði. Áhrifin voru mest ef bæði fitu og salti var stillt í hóf, meira borðað af grænmeti, ávöxtum, hrísgrjónum og mögrum mjólkurvörum, en söltum súpum og öðrum söltum og reyktum mat var skipt út fyrir nýtt kjöt og fisk," segir hún og viðurkennir að í sumum tilvikum geti reynst snúið að minnka saltið því oft sé búið að salta mat í framleiðslu eða matartilbúningi.

"Það er sjálfsögð tillitssemi við matargesti að salta hóflega við matreiðslu, ekki síst í mötuneytum. Hver og einn getur auðveldlega bætt salti í matinn við borðið en það reynist öllu erfiðara að minnka saltið eftir að maturinn er kominn á diskinn!"

Laufey tekur fram að spennandi verði að komast að því hvort einhverjar breytingar hafi orðið á mötuneytisfæði síðasta áratug.

"Ég þykist sjálf greina ákveðna breytingu til batnaðar í mötuneytum ýmissa framsækinna fyrirtækja og sérstaklega þar sem ungt fólk er að störfum. Vandinn er raunar mest aðkallandi þar sem starfsmenn geta ekki leitað annað eins og á skipum. Víða er talsvert lagt í mat úti á sjó og ekki nema sjálfsagt að borinn sé fram saðsamur matur. Gallinn er að oft hefur fæðið ekki nægilega góð áhrif á áhöfnina þegar til lengri tíma er litið eins og útgerð togara nokkurs áttaði sig á fyrir nokkrum árum. Gagngerar breytingar voru gerðar á matseðlinum og viti menn! Áhöfninni leið miklu betur og léttist í kjölfarið."

Börn fái sem oftast heitan mat

Manneldisráð hélt nýlega fund með formönnum skólanefnda í nágrenni Reykjavíkur, formanni fræðsluráðs og umboðsmanni barna um stefnumótum í tengslum við skólamáltíðir í grunnskólum. "Á fundinum kom fram að stefnt væri að því að boðið yrði upp á heitan/kaldan mat í öllum grunnskólum Reykjavíkur fyrir árið 2002. Manneldisráð hvetur til þess að börn fái sem oftast heitan mat og minnst annan hvern dag. Ekki aðeins af því aðeinfaldara er að útbúa hollan heitan mat en kaldan heldur einnig vegna þess að heitur matur veitir meiri saðningu. Meginvandinn hefur falist í aðstöðuleysi í skólunum og því þarf að breyta til að hægt sé að bjóða nemendunum upp á nægilega næringarríkt fæði. Börn eiga ekki að þurfa að lifa á endalausum samlokum, enda verður slíkt fæði afar einhæft og leiðigjarnt til lengdar.

Foreldrar bera auðvitað sína ábyrgð og því miður virðist sífellt minni tíma vera eytt í matartilbúning inni á heimilunum. Að öll fjölskyldan komi saman til að borða staðgóða máltíð hefur ekki aðeins góð áhrif á heilsuna heldur hefur það líka félagslegt og uppeldislegt gildi. Fyrir utan náttúrulega að við ættum að njóta þess að borða góðan mat. Góð máltíð er hluti af því að njóta lífsins og ætti ekki að hafa yfir sér syndayfirbragð, eins og stundum virðist vera raunin."

Manneldisráð hefur gert ýmislegt til að koma fræðslu um hollustuhætti á framfæri við fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga, t.d. er auðvelt að nálgast stefnumótun Manneldisráðs um mataræði í skólum á heimasíðu stofnunarinnar. Matreiðslubók Manneldisráðs, Af bestu lyst, er hægt að fá í flestum bókabúðum. "Við getum ekki beitt valdi heldur aðeins komið með ábendingar eins og við höfum verið að gera með því að senda bæklinga, t.d. í leikskólum, þar sem ástandið virðist vera heldur betra en í grunnskólum. Bæklingarnir eru með almennum upplýsingum og tillögum að matseðlum. Óskað hefur verið eftir því að matseðlar og leiðbeiningar verði send í grunnskólana og er unnið að því verkefni."

Dreitill í kjölfar rannsókna

"Annar liður í starfi Manneldisráðs er rannsóknir í samvinnu við aðrar stofnanir og einstaklinga. Tvær rannsóknir hafa verið ofarlega á baugi hjá okkur að undanförnu. Önnur er liður í afkomendarannsókn Hjartaverndar og snýr að tengslum mataræðis og tíðni hjartasjúkdóma. Hin er unnin í samstarfi við Gunnar Sigurðsson lækni og fleiri vísindamenn á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Fossvogi og beinist að beinþéttni, þar sem ungar stúlkur og eldri konur eru sérstaklega viðkvæmir hópar. Fljótlega kom í ljós að ungar íslenskar stúlkur skorti tilfinnanlega D-vítamín í kroppinn. Þessi hópur virðist því miður ekki vera nægilega duglegur að taka lýsi og nær ekki upp nægilegu magni af D-vítamíni þegar birtan er minnst á veturna. Manneldisráði þótti full ástæða til að grípa í taumana, enda fullsannað að skortur á D-vítamíni veldur því að kalk nær ekki að nýtast nægilega vel við uppbyggingu beinanna. Þess vegna var ákveðið að bregðast við með því að leggja til að hafin yrði framleiðsla á D-vítamínbættri léttmjólk eins og gert hefur verið með framleiðslu á Dreitli."

Ekki er að mati Laufeyjar hægt að segja að miðað við núverandi ástand séu horfurnar sérstaklega bjartar fyrir holdafar og heilsu þjóðarinnar. "Holdafar íslenskra barna er orðið svipað og var í Bandaríkjunum árið 1976. Ef ekkert fæst að gert verðum við því í svipuðum holdum og Bandaríkjamenn eru núna eftir tuttugu til þrjátíu ár. Við ættum auðvitað að líta á Bandaríkjamenn sem víti til varnaðar og falla ekki í þá gryfju að halda að hægt sé að halda fullri heilsu með því að sitja endalaust á rassinum og innbyrða óhóflegt magn af mishollum mat. Helsti vandinn meðal barna er hreyfingarleysið. Fyrst kom sjónvarpið, síðan myndbandið og nú síðast er tölvan farin að taka yfir frítíma barna. Hinir fullorðnu eru heldur ekki alsaklausir því að börnin eru keyrð nánast allra sinna ferða. Eins vil ég vara við skyndilausnum eins og ströngum megrunarkúrum. Ekki er óalgengt að fólk brenni sig á því að gefast upp á að vera svangt í langan tíma og líti svo á að viljastyrkurinn hafi einfaldlega ekki verið nægilegur þegar í rauninni hefur verið ætlast til hins ómögulega af líkamanum. Eina varanlega leiðin er að breyta um lífshætti og hafa manneldissjónarmið að leiðarljósi. Við ættum að huga að því að borða meira af mat sem gefur okkur gróf kolvetni og prótein. Með því fæst, kaloríu fyrir kaloríu, betri saðning en með fitu. Grófmeti eins og grófur kornmatur þarf að vera oftar á boðstólum, einnig fiskur og magrar mjólkurvörur, að ógleymdu grænmetinu, kartöflunum og ávöxtunum. Eins og þú sérð er ekki á ferðinni sérstök meinlætastefna og endilega njótið þess að borða."

Laufey segist telja að velmegun almennt ætti að hafa jákvæð áhrif á hollustuhætti. "Rannsóknir í Bandaríkjunum og víðar hafa leitt í ljós sterka fylgni á milli menntunar og góðra tekna og þess að hugsa vel um heilsuna. Hins vegar virðist vera við mesta heilsuvandann að etja í lægri stéttum þjóðfélagsins. Hér á landi virðist aukin menntun hafa í för með sér aukna meðvitund um hollustuhætti. Með meiri menntun aukast líkurnar á að fólk stundi líkamsrækt og sé meðvitað um hollt mataræði. Sem betur fer er ekki eins mikil misskipting í íslensku þjóðfélagi og víða erlendis. Þess vegna eigum við ekki við sama vanda að stríða í tengslum við að ná til allra þjóðfélagshópa, enda er eitt af meginverkefnum Manneldisráðs að fræða almenning um næringu og hollustu."