LAGT er til að Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og Orðabók Háskólans verði ásamt fleiri rannsóknarstofnunum í íslenskum fræðum í viðbyggingu við Þjóðarbókhlöðuna, Suðurgötumegin við hana, í áliti nefndar menntamálaráðherra sem gengið var frá á...

LAGT er til að Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og Orðabók Háskólans verði ásamt fleiri rannsóknarstofnunum í íslenskum fræðum í viðbyggingu við Þjóðarbókhlöðuna, Suðurgötumegin við hana, í áliti nefndar menntamálaráðherra sem gengið var frá á föstudag. Í viðbyggingunni er einnig gert ráð fyrir lestrarstofum fyrir stúdenta í hliðarbyggingu og bókageymslum og sýningaraðstöðu í stórum kjallara.

Við hönnun Þjóðarbókhlöðunnar á sínum tíma var gert ráð fyrir viðbyggingu Suðurgötumegin við hana. Í riti, sem kynnt var við athöfn, sem haldin var í tilefni af fimm ára afmæli Þjóðarbókhlöðunnar, 1. desember 1999, og greinir frá stefnumótun Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, var lagt til að viðbyggingin hýsti safngögn og hentugt lesrými fyrir stúdenta en einnig fræðastofnanir á hugvísindasviði, svo sem Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og Orðabók Háskólans.

Björn Bjarnason menntamálaráðherra skipaði í byrjun síðasta árs nefnd til að móta hugmyndir um viðbyggingu við Þjóðarbókhlöðuna sem jafnframt því að leysa úr húsnæðisvanda Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns yrði aðstaða fyrir Stofnun Árna Magnússonar og fleiri stofnanir sem fást við rannsóknir á íslenskri tungu og bókmenntum og vinna að viðgangi þeirra. Garðar Halldórsson arkitekt er formaður nefndarinnar og með honum í nefndinni eru Einar Sigurðsson landsbókavörður, Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, og Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors Háskóla Íslands. Nefndin gekk frá áliti sínu í gær, að sögn formanns nefndarinnar, og skilar því til menntamálaráðherra um miðja næstu viku.

Þriggja hæða bygging

Nefndarmenn kváðust í gær ekki geta skýrt frá niðurstöðum sínum fyrr en þeim hefði verið skilað til ráðuneytis. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins leggur nefndin til að viðbyggingin verði tvískipt. Í þriggja hæða byggingu verði aðstaða fyrir Stofnun Árna Magnússonar, Orðabók Háskólans og fleiri minni stofnanir, sem eru í óbeinum tengslum við Háskóla Íslands. Í hinum hlutanum verði lestrarsalir fyrir stúdenta, á vegum Þjóðarbókhlöðunnar. Hugmyndin er að hafa þannig rekstrarfyrirkomulag á lestrarsölunum að auðvelt verði að hafa þá opna lengur en aðra hluta byggingarinnar. Neðanjarðar verði rými fyrir bókageymslur sem Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn vantar sárlega og sýningarými fyrir safnið og Árnastofnun. Viðbyggingin yrði tengd við aðalbyggingu Þjóðarbókhlöðunnar, til dæmis með glerbyggingu í stíl við inngang bókhlöðunnar enda yrði inngangurinn sameiginlegur. Búið er að gera skissur að fyrirkomulaginu. Markmiðið með flutningi stofnananna í Þjóðarbókhlöðuna er að skapa þeim rýmri og nútímalegri aðstöðu og skapa frjótt rannsóknarumhverfi með því að flytja þær saman.

Til þess að koma þessari starfsemi fyrir er talið, samkvæmt heimildum blaðsins, að viðbyggingin þurfi að vera um 1.500 fermetrar að grunnflatarmáli, sem er talsvert minna en núverandi Þjóðarbókhlaða. Aftur á móti yrði heildargólfflötur viðbyggingarinnar, með tengibyggingu og rými neðanjarðar, hátt í 11 þúsund fermetrar. Þjóðarbókhlaðan sjálf er um 13 þúsund fermetrar.