LANDSVIRKJUN hefur að undanförnu staðið fyrir kynningu á tveimur fyrirhuguðum rennslisvirkjunum neðarlega í Þjórsá, annars vegar Núpsvirkjun og hins vegar við Urriðafoss.

LANDSVIRKJUN hefur að undanförnu staðið fyrir kynningu á tveimur fyrirhuguðum rennslisvirkjunum neðarlega í Þjórsá, annars vegar Núpsvirkjun og hins vegar við Urriðafoss. Með virkjunum þeim sem Landsvirkjun stefnir nú að að reisa neðarlega í Þjórsá mun áin teljast fullvirkjuð.

Núpsvirkjun er í landi Minna-Núps í Gnúpverjahreppi en hin við Urriðafoss í Villingaholtshreppi. Hvor virkjun um sig gæti orðið um 140 megawött.

Alls munu framkvæmdirnar snerta 38 jarðir í 5 sveitarfélögum og hefur sveitarstjórnarmönnum þegar verið gerð grein fyrir áætlunum Landsvirkjunar. Fram kemur í Sunnlenska fréttablaðinu að fyrstu athuganir um virkjun við Urriðafoss séu hafnar og gerðar hafi verið tilraunaboranir í landinu austan við Árnes vegna fyrirhugaðrar virkjunar í landi Minna-Núps. Snemma á næsta ári verða áætlanir kynntar Skipulagsstofnun og Náttúruvernd ríkisins, en miðað er við að unnið verði að undirbúningi og rannsóknum vegna þessara virkjana allt árið 2001.

Fram kom í greinaflokknum Ísland og álið í Morgunblaðinu nýlega að fyrirhugaða Búðarhálsvirkjun (100 MW) megi nýta til raforkuframleiðslu vegna stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga, en aukin raforka þurfi að koma til. Með byggingu Búðarhálsvirkjunar sé verið að virkja síðasta virkjanlega fallið (auk Vatnsfellsvirkjunar) á milli Búrfellsvirkjunar og Þórisvatns. Með virkjuninni sé verið að nýta enn frekar vatnsmiðlanir og veitur sem fyrir eru á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu.

Einar Ben benti fyrstur á möguleika virkjunar

Einar Benediktsson skáld mun hafa verið fyrstur manna til að benda á mögulegar virkjanir neðst í Þjórsá. Landsvirkjun hefur látið gera athugun á virkjanakostum þar og hafa einkum tveir kostir verið skoðaðir. Virkjun við Urriðafoss og Núp. Um er að ræða rennslisvirkjanir með lítil inntakslón.

Jafnframt þessu hafa verið til skoðunar hjá Landsvirkjun miðlunarmöguleikar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Einn möguleiki í því sambandi er að nýta þá orku sem býr í Efri-Þjórsá í þeim virkjunum sem fyrir eru, eða eru áformaðar, eins og Búðarhálsvirkjun, og hinn möguleikinn er að taka jökulvatnið í Skaftá og veita því yfir í Langasjó og taka síðan rennslið úr hinum enda hans með göngum yfir í farveg Tungnaár, skila því þar með inn í Krókslón og við Sigöldu og nýta vatnið í virkjununum þar.

Virkjanirnar háðar mati á umhverfisáhrifum

Hugmyndir þessar munu misjafnlega á vegi staddar, en ljóst er að einhvern tíma tæki að rannsaka og hanna þessar virkjanir áður en unnt væri að ráðast í byggingu þeirra. Jafnframt er ljóst að allar yrðu þær háðar lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ekki er ljóst hversu mikla orku þessir virkjunarkostir geta gefið.