STJÓRNARFORMAÐUR Íslandspósts hf. segir að þegar hafi verið gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þau vandræði sem urðu við póstdreifingu um jólin endurtaki sig.

STJÓRNARFORMAÐUR Íslandspósts hf. segir að þegar hafi verið gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þau vandræði sem urðu við póstdreifingu um jólin endurtaki sig. Ákveðið hefur verið að um næstu jól verði pósthús opin bæði á Þorláksmessu og aðfangadag.

Björn Jósef Arnviðarson, stjórnarformaður Íslandspósts, segir að helstu mistök fyrirtækisins hafi falist í því að loka pósthúsum á Þorláksmessu. Þá hafi hnökrar komið fram í skipulagi hjá póstmiðstöðinni á Stórhöfða. Hleðsla á bögglum í bíla fyrirtækisins til útkeyrslu hafi gengið illa og langar raðir myndast fyrir utan fyrirtækið. Gríðarmikill tími hafi tapast við þetta. Björn segir að þegar hafi verið lögð drög að því að breyta húsnæðinu þannig að hægt sé að hlaða mun fleiri bíla í einu.

Íslandspóstur hóf nýlega að aka bögglum í heimahús fremur en að láta viðtakendur ná í þá á pósthús. Björn segir að kerfið hafi yfirleitt gengið vel ef desember er undanskilinn. Þegar álagið var sem mest fyrir jólin hafi komið í ljós ýmsir gallar á kerfinu. Bögglar sem ekki tókst að koma til skila til viðtakenda fóru gjarnan aftur í flokkun hjá póstmiðstöðinni í stað þess að senda þá á næsta pósthús. Þá hafi ekki komið fram á miða til viðtakandans hvert hann ætti að vitja böggulsins.

"Þetta er hið leiðinlegasta mál fyrir Póstinn vegna þess að Pósturinn hefur lagt á það mikla áherslu að skila vel og hratt. Og það hefur tekist að flestu leyti," segir Björn. Hann bendir á að dreifing bréfa hafi gengið mjög vel og betur en í fyrra. Þá segir hann að ekki hafi komið upp vandamál við böggladreifingu utan höfuðborgarsvæðisins.

Pósthúsinu í Kringlunni lokað

"Vinna er þegar hafin við að breyta fyrirkomulaginu þannig að svona eigi ekki að geta komið fyrir. Menn eru búnir að finna hvar skórinn kreppti og þá er bara að taka á því," segir Björn.

Afgreiðslu hefur verið hætt í pósthúsinu í Kringlunni. Björn segir að enn verði þó hægt að afhenda þar póst. Notkun pósthússins þar hafi verið lítil og Björn segir að Íslendingar hafi dregið mjög úr komum sínum í pósthús. "Menn eiga færri erindi á pósthús þótt póstmagn sé sífellt að aukast," segir Björn.

Stjórn Íslandspósts hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún harmar þau vanhöld sem urðu við dreifingu bögglasendinga fyrir nýliðin jól og biður alla þá velvirðingar sem urðu fyrir óþægindum af þeim sökum.