Kristín Cecilsdóttir fæddist á Búðum í Eyrarsveit við Grundarfjörð hinn 20. júní 1921. Hún lést á St. Fransiskusspítala í Stykkishólmi hinn 27. desember síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Stykkishólmskirkju 6. júní.

Nú er hún amma mín komin í fang afa míns. Hann hefur örugglega beðið hennar með útrétta arma og vafið hana að sér. Loksins hittust þau aftur.

Fyrstu fjögur æviárin mín bjó ég undir sama húsþaki og amma mín og afi í Stykkishólmi en þó ekki á sömu hæðinni. Amma og afi voru iðin við að gæta okkar systranna meðan foreldrar okkar menntuðu sig, unnu og byggðu þak yfir höfuðið.

Það gekk svo sem á ýmsu. Mér þótti t.d. tilvalið að berja Önnu systur mína í höfuðið með glænýju leikfangi sem pabbi hafði svo stoltur komið með heim enda hafði hann smíðað það sjálfur. Amma sá til þess að þetta leikfang væri ekki notað í hennar húsum eftir þessar barsmíðar! Amma mín þurfti líka utanaðkomandi aðstoð þegar ég, þá tveggja ára gömul, læsti hana og Önnu systur mína inni á baðherbergi og harðneitaði að opna, alveg sama hvað var í boði! Það mætti kannski halda að ég hafi verið uppátækjasöm! Amma og afi áttu alltaf goskassa í kompunni og stundum fengum við systurnar gos en yfirleitt var okkur boðið upp á kaffi. Í eitt af þessum skiptum sem gosið var í boði lenti amma í smáóhappi. Hún skipti kókflöskunni eins jafnt á milli okkar Önnu systur og hún mögulega gat enda sáum við systurnar til þess. Svo illa vildi til að ömmu fannst eins og hún hefði verið að bjóða okkur upp á kaffi og hellti mjólk út í kókglasið mitt! Anna systir drakk sitt með bros á vör og passaði sig á að ég fengi ekki einn sopa hjá henni. Því miður hafði þetta verið síðasta flaskan í kompunni og ég sat því eftir með sárt ennið! Ég veit að amma hefur bætt mér þetta upp síðar.

Það er því á hreinu að hún amma hefur haft í mörgu að snúast þegar við systurnar vorum annars vegar.

Við amma tengdumst mjög vel, enda eyddi ég mörgum stundum hjá henni, bæði vegna þess að Anna systir þurfti mikið að leita sér lækninga og foreldrar mínir voru löngum stundum fjarverandi vegna veikinda hennar, og hins vegar var alltaf svo notalegt að koma til ömmu og fá brúnköku og kaffi.

Það gaf auga leið að ég skipaði afa og ömmu á háan stall í lífi mínu og alltaf hefur amma treyst og trúað á að ég yrði til staðar þegar hún þyrfti á að halda. Eftir að ég flutti aftur vestur eftir háskólanám, bjó ég aftur undir sama þaki og amma mín, á sama stað og ég bjó fjögur fyrstu æviárin mín.

Urðu því samskipti okkar mikil þau ár sem að ég bjó þar.

1995 fæddist fyrsta langömmubarnið hennar ömmu, dóttir mín, og var nefnd í höfuðið á Önnu systur og henni. Það veitti henni ómælda ánægju að eiga litla nöfnu og langömmubarn. Ég og Anna Kristín fórum einmitt á jóladag til ömmu og heilsuðum upp á hana. Það var í fyrsta skipti sem Anna Kristín þorði að kíkja á hana eftir að hún fór á spítalann. Amma brosti til okkar og þekkti okkur og við mæðgurnar eigum eftir að eiga þessa minningu um hana ömmu okkar um ókomna tíð.

Elsku amma mín. Það var mér mikil ánægja að fá að verða þér samferða fyrstu 32 æviár mín og þú kenndir mér margt þó svo að ég hafi kannski ekki alltaf farið eftir því. Ég veit að þér líður vel í örmum afa míns og það fyllir hjarta mitt gleði að vita af þér hjá honum. Þú saknaðir hans alltaf svo mikið.

Megir þú hvíla í friði.

Þín

Oddfríður Kristín.

Oddfríður Kristín.