Ingibjörg Jóna Jónsdóttir kjólameistari fæddist í Bolungarvík 14. apríl 1923. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi 29. desember síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Háteigskirkju 5. janúar.

Inn milli fjallanna hér á ég heima, hér liggja smaladrengsins léttu spor. Hraun þessi leikföng í hellunum geyma, hríslan mín blaktir enn í klettaskor. Við þýðan þrastaklið og þungan vatnanið, æska mín leið þar sem indælt vor. (G.M.)

Í fáum orðum langar mig að minnast Imbu, Ingibjargar Jónu Jónsdóttur, móðursystur minnar.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eyða mínum fyrstu mánuðum á heimili Imbu og Didda og alast síðan upp næstu árin í sama húsi og þau við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.

Samband okkar var alveg sérstakt, ég var "hjartadrottningin" hennar og sem barni var hún sú manneskja sem stóð mér næst fyrir utan foreldra mína. Ég hugsaði mikið um hver yrði mamma mín ef foreldrar mínir létust. Það var ekki spurning í mínum huga, Imba mundi ganga mér í móður stað. Ég valdi reyndar einstaklinga en ekki hjón sem foreldra og síðan skyldi Sólberg móðurbróðir minn verða pabbi minn. Hjá Imbu leið mér alltaf eins og einu hjartadrottningunni í öllum heiminum. Okkar bestu stundir voru þegar við vorum einar saman og lausar við krakkana, Vildísi og Jón Inga, eldri börn Imbu. Hún hvatti mig oft til þess að koma í heimsókn og vera hjá sér þegar krakkarnir voru ekki heima, þá gátum við dundað okkur og haft það notalegt alveg einar. Þessar stundir skiptu mig, sem er hluti af einum fjölmennasta árgangi Íslandssögunnar, miklu þar sem í þá daga var oft litið á barn sem hluta af barnahjörð en ekki einstakling.

Þegar ég hugsa til baka var Imba frumlegasta og hressasta kona sem ég hef þekkt. Hún rumpaði af kjól á nokkrum klukkustundum, ef boð eða annar mannfagnaður var í nánd, enda voru hæg heimatökin þar sem hún var kjólameistari. Síðan breytti hún þessari sömu flík nokkrum sinnum þannig að kjólinn varð óþekkjanlegur. Það var eins og hún gæti alls ekki látið sjá sig í sama kjólnum tvisvar. Mér þótti þessi kjólasaumur og breytingar alltaf mjög heillandi. Annað sem einkenndi hana var að virkja alla til vinnu í kringum sig. Alltaf var gaman þegar þau hjónin héldu veislur og Imba verkstýrði liðinu, stórum sem smáum. Ég var ekki stór þegar upplagt var að láta mig rífa niður endalaust af harðfiski fyrir veislu og síðan gat ég tekið yfirhafnir af gestunum í sjálfri veislunni.

Það má skipta lífi Imbu í tvö megin tímabil en fyrir 26 árum fékk hún hjartastopp.

Langvarandi súrefnisskortur og meðvitundarleysi leiddi til þess að hún varð aldrei söm manneskja á eftir. Á löngum tíma náði hún sér að flestu leyti líkamlega en eftir andlát eiginmanns síns, Guðmundar Kristjáns Jónssonar, bjó hún ein í 14 ár. Jón Ingi sonur Imbu býr í nágrenninu og hefur hann og fjölskylda hans hlúð að henni og verið innan handar í daglegu amstri í gegnum árin. Síðustu árin hefur Vildís ásamt börnum sínum búið á hæðinni í Vatnsholtinu en Imba í notalegri íbúð í kjallaranum. Þrátt fyrir erfiðleika og veikindi leiddist Imbu aldrei og var alltaf þakklát og glöð. Hún hélt áfram að hanna og á þessu seinna stigi lífsins voru það ekki kjólar heldur teppi sem margir nutu góðs af.

Að leiðarlokum vil ég þakka Imbu samfylgdina og votta börnum hennar, Vildísi, Jóni Inga, Guðrúnu Elísabetu og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Sigrún Hauksdóttir.

Nú hefur hún Imba frænka mín bæst við englaskarann sem vakir yfir okkur allt um kring og þar hafa ástvinir og ættingjar tekið henni fagnandi.

Móðurfólkið mitt allt frá Bolungarvík er gott fólk, duglegt, vinafast og ættrækið. Tryggð og umhyggja eru þar líka snarir þættir. Þetta var líka ríkt í fari minnar elskulegu frænku sem alltaf lét sér annt um annarra hag. Systkinin öll frá Sólbergi og fjölskyldur þeirra hafa alla tíð sýnt mér og mínu fólki einstaka elsku og vináttu. Fyrir það ber svo sannarlega að þakka.

Ingibjörg Jóna og Jónína Ingibjörg. Imba og Inga. Þær nöfnur og frænkur, mamma og Imba, voru ekki bara frænkur heldur einnig vinkonur. Ég man vel skraf þeirra og hlátur; þeim leið vel saman og það var alltaf gaman að vera með þeim. Imba frænka lét sig aldrei vanta á stórhátíðum í lífi okka mæðgna á Akureyri, og mér fannst mikið til um að fá frænku mína úr Reykjavík í heimsókn, hún var sigld, kunni að sníða og sauma, rak verslun og heimili ásamt honum Didda sínum.

Nöfnurnar töluðu reyndar oft um saumaskap enda báðar færar á því sviði. Það voru líka "húrraðir" nokkrir kjólar í skyndi þegar mikið lá við og prinsessan í Glerárgötunni vildi vera fín!

Það voru líka Imba og Diddi blessaður sem útveguðu okkur mömmu húsnæði í ættarhúsinu hans á Bræðraborgarstíg þegar við fluttumst suður og aðstoðuðu síðan við íbúðarkaup og fjármál okkar mæðgna.

Þau fóstruðu mig og pössuðu vel og vandlega fyrir hana mömmu mína og ég á sannarlega ljúfar minningar um þessi góðu hjón sem voru höfðingjar á alla lund. Umhyggjan fyrir mér og mínum virðist ganga í erfðir og mér sýnist Jón Ingi vera tekinn til við að hugsa um okkar velferð!

Þakklæti er mér efst í huga á þessari stundu.

Þakklæti fyrir að hafa átt þessa glöðu og góðu frænku að.

Þakklæti fyrir það sem hún var okkur öllum.

Þakklæti fyrir að börnin hennar og fjölskyldur þeirra skuli hafa getað sinnt henni svo vel sem raun ber vitni, sem og systkini og mágafólk . Henni leið vel og hún var ánægð með sitt.

Þakklæti fyrir að hafa getað heimsótt hana á aðventunni og fengið að sjá jólaundirbúninginn í Vatnsholtinu þar sem hún sat við kortaskrif með smákökur á borðum.

Þakklæti til almættisins fyrir að taka hana hægt og hljótt til sín og veita henni hvíld án þjáninga.

Fjölskylda mín sendir Jóni Inga, Vildísi og Gunnu og þeirra fólki ásamt systkinum Imbu og mágafólki öllu innilegar samúðarkveðjur.

Veri hún frænka mín Guði falin og allt hennar fólk.

Steinunn (Stenný).

Það er vor, árið er 1963. Við bræðurnir sitjum í Viscount-flugvél Flugfélags Íslands á leið heim eftir sjö ára búsetu í Englandi. Á Reykjavíkurflugvelli er hin lífsglaða Imba frænka ásamt Guðmundi eiginmanni sínum að taka á móti okkur. Við féllum fyrir henni. Ekið er frá flugvelli í Volvo station-bifreið þeirra hjóna að Bræðraborgarstíg 19, þar sem frænka og börnin Vildís og Jón Ingi hresstu upp á þreytta, unga ferðalanga með sinni frábæru lífsgleði og gestrisni.

Þannig eru fyrstu minningar okkar bræðra af Imbu frænku, sem nú er fallin frá.

Ingibjörg (Imba) er önnur í röðinni af sjö systkinum, f. 1923, þrjú eru þegar fallin frá. Hún var lífsglöð og elskuleg kona sem hélt mikilli tryggð við fjölskyldu, vini og heimabyggð sína, Bolungarvík. Lífsförunautinn sótti hún til Önundarfjarðar, það gerði Halldóra besta vinkona hennar líka enda einstaklega kært með þeim. Imba var kjólameistari og rak verslun og saumastofu í Kirkjustræti í Reykjavík. Árið 1974 kom fyrsta kallið að ofan, hún var ekki tilbúin til flutnings, streittist á móti og hafði sigur að lokum. En áfallið hafði sín áhrif á líf hennar eftir það. Nú var Imba frænka orðin hæglát, elskuleg kona sem lítið bar á, krafturinn hafði dvínað en vináttan og kærleikurinn til allra skein enn í augum hennar. Hún bjó í Reykjavík á veturna en á sumrin í sumarbústað sínum að Skriðu í Syðridal við Bolungarvík.

Nú er desember, árið 2000. Imba er í matarboði hjá bestu vinkonu sinni Halldóru ásamt systur sinni Halldóru (mömmu) og fleiri vinum. Klukkan er þrjú, seinna kallið er komið. Jú, herra minn, nú er ég tilbúin, staðurinn getur ekki verið betri, í faðmi minna bestu vina.

Við bræður kveðjum Imbu í dag með söknuði og þakklæti og vottum börnum hennar, Vildísi, Jóni Inga, Guðrúnu Elísabetu, og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Halldór Jón Hjaltason,

Einar Garðar Hjaltason,

Gísli Jón Hjaltason.

Nú þegar komið er að leiðarlokum langar okkur systkinin að minnast Imbu, föðursystur okkar. Við ólumst upp á Sólbergi, sem amma og afi byggðu og var æskuheimili pabba og systkina hans. Imba kom heim til Bolungavíkur á hverju sumri með sína fjölskyldu og var það stór stund þegar þau renndu í hlað á drekkhlöðnum Volvónum. Þau dvöldu í nokkrar vikur og fylgdi þeim líf og fjör. Náinn vinskapur var á milli pabba og Imbu og fjölskyldna þeirra og fóru þau saman í útilegur, veiðiferðir og ferðalög vítt og breitt um landið.

Heimili Imbu og Didda í Reykjavík stóð okkur alltaf opið. Imba var alltaf tilbúin að taka á móti bræðrum sínum og þeirra börnum og sinna þeim, hvort sem um var að ræða skemmtiferðir, nám eða veikindi.

Imba var sterkur persónuleiki, gestrisin, hjartahlý og jákvæð. Hún átti einstaklega gott með að hrífa fólk með sér með glaðværð sinni og hressileika sem smitaði út frá sér. Við munum vel eftir því þegar eitthvað var um að vera í fjölskyldunni, afmæli, fermingar o. þ. h., þá stjórnaði hún öllu og öllum með miklum skörungsskap.

Fyrir rúmum aldarfjórðungi veiktist Imba en eftir að hún náði aftur nokkru af fyrra þreki hélt hún áfram að koma vestur á hverju sumri. Þau Diddi byggðu sumarbústað á Skriðu og hefur Imba verið þar á sumrin og haldið miklum og góðum tengslum við ættingja og vini fyrir vestan. Leið henni vel á æskustöðvum sínum og hugur hennar leitaði mikið í Víkina.

Við erum þess fullviss að vel hefur verið tekið á móti Imbu í nýjum heimkynnum og langar okkur að kveðja hana með uppáhaldsljóðinu hans afa:

Inn milli fjallanna hér á ég heima,

hér liggja smaladrengsins léttu spor.

Hraun þessi leikföng í hellunum geyma,

hríslan mín blaktir enn í klettaskor.

Við þýðan þrastaklið

og þungan vatnanið,

æska mín leið þar sem indælt vor.

(G.M.)

Systkinin frá Sólbergi.

Sorgin endurspeglar oft gamlar og góðar minningar.

Fjölmargar minningar um Imbu, æskuvinkonu mömmu minnar, tengjast gleði og skemmtilegum samkomum fjölskyldnanna. Imba og mamma voru vinkonur frá barnæsku og ólust upp í Bolungarvík. Seinna bjuggu þær heimili sín í Reykjavík og hélst mikil og góð vinátta þeirra alla ævi. Vinátta þeirra tengdi einnig fjölskyldur okkar sterkum böndum. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég vissi að ferð á "Bræðraborgarstígnítján Öldugötumegin" boðaði eitthvað skemmtilegt. Mikil gleði og oft fjör einkenndi heimsóknirnar á heimili hennar. Fjölskylduboð eða afmælisboð yngstu meðlimanna - það er eins og alltaf hafi verið gaman.

Atorkusemi Imbu var ótrúleg. Í amstri dagsins hafði hún tíma til margvíslegra hluta; hannyrða og sauma, sinna börnum og frændfólki og ekki síst - að halda uppi fjörinu! Loftkökurnar fyrir jólin voru líka alveg rosalega góðar.

Eftir að Imba veiktist fyrir rúmum aldarfjórðungi var orka hennar og kæti minni en áður. Engu að síður voru persónueinkenni hennar alltaf mjög greinileg, alltaf var hún glöð og ánægð. Aldrei var annað en "yndislegt að hittast" og aldrei var maður minna en "elsku vinurinn". Svo braut hún nokkur þekkt læknisfræðilögmál með því að ná miklu meiri bata en nokkurn óraði fyrir.

Imba hefur nú kvatt okkur. Hún er farin á fund hans Didda síns. Og alveg örugglega munu persónueinkenni Imbu njóta sín þar til fulls.

Þegar ég nú skoða hug minn eru minningarnar um Imbu svo ótalmargar og skemmtilegar. Þær minningar skal ég geyma. Við systkinin á Ægisíðunni vottum ástvinum Imbu okkar dýpstu samúð en vitum um leið að minningarnar eru þeim huggun í harmi.

Ásgeir Haraldsson.

Í dag kveðjum við Imbu föðursystur. Samverustundum með henni má skipta í tvö skeið, annars vegar fyrir hjartaáfall og hins vegar eftir áfallið. Mynd af Imbu frænku fyrir áfallið einkennist af glaðværð, óþrjótandi ímyndunarafli og framtakssemi.

Henni var einni lagið að fá alla í kringum sig, börn jafnt sem fullorðna, til að hrífast með og njóta augnabliksins. Gilti þar einu hvort um veislu, bæjarferð eða gönguferð væri að ræða því allt breyttist í ævintýri í augum okkar barnanna. Ógleymanleg er gönguferðin þegar undirrituð voru í fylgdarliði Imbu frænku í göngu á Drangajökul þegar hana vantaði tvo í fimmtugt. Fékk hún frænda okkar Sigga Viggó til að lóðsa okkur en hann hafði áralanga reynslu af björgunarsveitarstörfum. Imba og Siggi áttu auðvelt með að komast á flug og ekki spillti fyrir stemmningunni að öll hersingin var með Imbuhúfur. Imbuhúfur voru húfur hannaðar og ýmist prjónaðar eða heklaðar af Imbu. Þær líktust einna helst alpahúfum nema öllu skrautlegri. Nýtti hún garn og efnisafganga úr Pandóru verslun þeirra hjóna og Últímu, sem var í eigu vinahjóna. Húfurnar voru röndóttar og jafnvel lífgað upp á þær með fléttu á hvirflinum. Enn eru nokkrar af þessum húfum í notkun. Í sumarhúsi foreldra okkar er að finna mýmörg dæmi um hugmyndaauðgi Imbu, meðal annars bútasaumsteppi saumuð úr kápuprufum og ofnar gólfmottur úr gömlum fötum og efnisafgöngum.

Eftir hjartaáfallið breyttist Imba en hún skipaði áfram stóran sess í hjörtum okkar. Sköpunargleðin og frjótt hugmyndarflug hélst þó verklagið minnti á barn en ekki verklag gamals handavinnukennara og kjólahönnuðar. Skemmtilegustu afmælisgjafirnar og jafnframt þær frumlegustu voru frá Imbu fænku. Ein af mörgum eftirminnilegum gjöfum er þegar hún gaf einu okkar, sem var í námi fyrir sunnan, Mackintosh dós. Dósin innihélt tvö ósoðin egg, eina Maggie súpu og Mackintosh karamellurnar í gulbrúnu bréfunum. Imbu þótti þær vondar en það var aldrei að vita nema námsmanninum fyndust þær góðar.

Eftir veikindin byggðu Imba og Diddi maður hennar sumarhús að Skriðu í Syðridal. Var alltaf jafn notalegt að koma í heimsókn að Skriðu og sötra kaffi og sjúga kandís.

Við munum alltaf minnast þín, Imba, með hlýhug og virðingu.

Við vottum börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar samúð.

Systkinin Miðstræti 7,

Bolungarvík.

Sigrún Hauksdóttir.