Frá vinstri: Landakotsskólinn (byggður 1909), prestahúsið (byggt 1837), St. Jósefsspítali (byggður 1902) og Jesúhjartakirkjan (byggð 1897).
Frá vinstri: Landakotsskólinn (byggður 1909), prestahúsið (byggt 1837), St. Jósefsspítali (byggður 1902) og Jesúhjartakirkjan (byggð 1897).
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
REGLA heilags Jósefs var formlega stofnuð í bænum Le Puy, í Velay-héraði í Frakklandi, hinn 15. október árið 1650, og hugsuð sem almenn hjálpar- og verndunarsamtök innan kaþólsku kirkjunnar þar, en þá hafði tignun dýrlingsins færst í vöxt.

REGLA heilags Jósefs var formlega stofnuð í bænum Le Puy, í Velay-héraði í Frakklandi, hinn 15. október árið 1650, og hugsuð sem almenn hjálpar- og verndunarsamtök innan kaþólsku kirkjunnar þar, en þá hafði tignun dýrlingsins færst í vöxt. Stofnandin var franski jesúítapresturinn Jean-Paul Médaille, sem á trúboðsferðum sínum hafði orðið vitni að mikilli neyð alþýðu fólks í kjölfar þrjátíu ára stríðsins, en það hófst árið 1618 vegna deilna kaþólskra manna og mótmælenda um rétta trú og stóð til ársins 1648. Ófriðarbálið logaði um alla Mið-Evrópu og afleiðingar stríðsins urðu hörmulegar. Médaille langaði að gera eitthvað til hjálpar. Á sama tíma vissi hann um sex ungar konur, sem höfðu áhuga á að ganga í þjónustu kirkjunnar og helga þar líf sitt fátækum og sjúkum. Médaille lagði málið fyrir þáverandi biskup Le Puy, Henri de Maupas, sem bauð að þær yrðu settar til þjónustu við munaðarleysingjahæli þar fyrir stúlkur. Þetta varð ein af fyrstu reglunum, sem leyfðu að konur sem ynnu regluheit tækju þátt í samfélagsþjónustu út á við. Og biskupinn ákvað að nefna regluna eftir Jósef, handverksmanninum og fósturföður Jesú, sem orð fór af að hefði verið réttvís maður og tillitssamur, ávallt reiðubúinn að hjálpa.

Á næstu árum breiddist reglan út um næstum allt Frakkland, og þaðan m.a. til Ítalíu og Korsíku. En í Frönsku byltingunni (1789-1799) var hún lögð af, eignir hennar gerða upptækar, og systurnar neyddust til að hverfa inn í aðrar trúarreglur erlendis eða fara til síns heima. Margar voru hnepptar í varðhald og fimm þeirra liðu píslarvættisdauða.

Árið 1807 var St. Jósefsreglan endurvakin í bænum Saint-Etienne, af St. Jean Fontbonne, sem í Frönsku byltingunni hafði verið dæmd til lífláts, en sloppið naumlega. Og með tímanum skiptist reglan í nokkrar sjálfstæðar deildir eða greinar. Fyrstu reglusysturnar sem komu til Norðurlanda voru í þeirri grein hennar, sem öðlaðist sjálfstæði árið 1812 í frönsku borginni Chambéry í Savoy-héraði og kennir sig við hana (CSJ; stendur fyrir: Congregatio Sancte Joseph). Greinin hóf þjónustu í Danmörku 1856, í Svíþjóð 1862, í Noregi 1865 og á Íslandi 1896, og varð stærsta systraregla á Norðurlöndum.

Tignun heilags Jósefs virðist hafa byrjað meðal Kopta í Egyptalandi á fyrstu tugöld kristninnar, en vinsældir þessa alþýðu- og handverksdýrlings jukust mjög í iðnþróunarsamfélagi 19. aldar, ekki síst eftir að páfinn, sem þá var Píus IX, útnefndi "heilaga patríarkann Jósef" verndara rómverks-kaþólsku kirkjunnar í heild, 8. desember árið 1870, en fram að því hafði heilagur Jósef einungis verið útnefndur verndardýrlingur Mexíkó (1555), Kanada (1624), Bæheims (1655), trúboðs í Kína (1678) og Belgíu (1689). Fjölgaði nú verulega í St. Jósefsreglunni, og voru hópar sendir til ýmissa landa Evrópu, Ameríku og Afríku.

Regla heilags Jósefs skiptist í sex aðalumdæmi eftir heimshlutum og löndum. Systurnar á Íslandi hafa ævinlega tilheyrt danska umdæminu og "móðurhúsinu" í Kaupmannahöfn. Staðbundnir hópar í hverju umdæmi eru nefndir systrasamfélög, og eru þau með sjálfsstjórn og eigin príorinnu. Fram til ársins 1946 var miðstöð greinarinnar í Chambéry í Frakklandi, en hefur síðan verið í Róm. St. Jósefsreglan hefur verið ein af öflugari hjálparreglum rómversk-kaþólsku kirkjunnar og stundað samfélagsþjónustu víða um heim. Fjölmennust var Chambéry-greinin um miðbik 20. aldar og voru þá í henni um 5.000 systur, en síðan tók þeim að fækka, líkt og gerðist í mörgum öðrum þjónustureglum. Um 1996 voru í henni um 2.500 systur, sem nam um 10% af St. Jósefssystrum í heiminum. Reglusystur og nunnur kaþólsku kirkjunnar voru þá alls um 800 þúsund.

Eins og nafnið gefur til kynna er reglan eingöngu skipuð konum, enda hafa þær frá upphafi kallað sig "dætur heilags Jósefs" og falið sig vernd brúðguma Maríu meyjar. Þær eru ekki nunnur, því samkvæmt kaþólskri málhefð nefnast svo aðeins reglusystur sem búa í lokuðum klaustrum. Reglunni hefur frá upphafi verið ætlað að koma til liðs þar sem brýnnar aðstoðar er þörf, einkum meðal fátækra, eins og áður sagði. Annaðist hún löngum fyrst og fremst hjúkrun og kennslu en hefur á 20. öld tekið þátt í víðtækara safnaðar- og þjóðfélagsstarfi.

Fyrstu systurnar koma til Íslands

Íslenskt landnám þessara dætra heilags Jósefs átti sér frumforsendur í þróun stjórnmála og trúarlífs með stórþjóðum Evrópu undir lok 19. aldar, í auknu trúboðsstarfi og nýmótaðri félagsmálastefnu kirkjunnar. Þessi regla stundaði þó ekki trúboð og hefur aldrei gert, nema að því leyti sem postulleg boðun fólst í störfum og fordæmi. Engin hvatning eða beiðni norðan úr höfum varð þess valdandi að hinar suðrænu konur fylltu hér skarð, en tveir Íslendingar komu þó við sögu, báðir kaþólskir, Ólafur Gunnarsson og Jón Sveinsson. Árið 1857 vakti sá fyrrnefndi athygli páfa á möguleikum trúboðs á Íslandi, ef tekin væri upp þjónusta við franska sjómenn, en þeir voru hér í miklum fjölda á sumarvertíðum í þá tíð. Tengdist þetta hugmyndum um sjúkrahúsbyggingu. Sama ár fæddist Jón Sveinsson, betur þekktur sem Nonni, íslenski jesúítapresturinn og rithöfundurinn, sem lengst af starfaði í Danmörku. Í heimsókn til Íslands árið 1894 kannaði hann ítarlega þarfir landsmanna og safnaði í kjölfar þess fé erlendis í þeim tilgangi að byggja kaþólskan spítala fyrir holdsveika, en féð var síðan notað sem hluti af stofnkostnaði St. Jósefsspítalans í Reykjavík. Fyrstu systurnar af þessari reglu heilags Jósefs af Chambéry stigu á land í Reykjavík af gufuskipinu Láru, 25. júlí árið 1896, níu mánuðum eftir að kaþólsk trúboðsstöð var enduropnuð í Reykjavík. Þær voru fjórar talsins. Þetta voru systir María Ephrem, príorinna, frönsk, og systir María Justine, af frönskum ættum en dönskfædd, báðar lærðar hjúkrunarkonur og jafnframt þær fyrstu til að hefja störf hér á landi, en hinar tvær voru danskar, systir María Thekla, leiksystir, og systir María Clementia, en hún stundaði kennslustörf. Systurnar hófu þegar aðhlynningu sjúkra og fátækra ásamt kennslu barna við þröngar aðstæður en óbugandi kærleik og bjartsýni; settu á laggirnar þrjú sjúkrahús og jafnmarga skóla og urðu allatkvæðamiklir brautryðjendur á þeim vettvangi. Um það leyti voru Íslendingar ríflega 75.000 talsins.

Á árunum 1896-1902 var í bústað systranna í Reykjavík árið um kring eins konar göngudeild ætluð fólki með minni háttar mein, auk þess sem þær stunduðu heimahjúkrun. Frá 1897 til 1902 höfðu þær einnig opið þar frumstætt sjúkraskýli að vor- og sumarlagi. Og á Fáskrúðsfirði ráku þær lítið sjúkrahús í 4-5 mánuði að sumarlagi, árin 1897-1904, einkum fyrir áðurnefnda sjómenn, en einnig Íslendinga, og með heimahjúkrun í nágrannabyggðum. En haustið 1902 tóku systurnar í notkun fyrsta nútímasjúkrahúsið á Íslandi, St. Jósefsspítala í Landakoti, með 40 sjúkrarúmum, en það merkti fjölgun um rúman þriðjung á landsvísu. Útveguðu systurnar þar bestu fáanlegu aðstöðu til skurðaðgerða. Má segja að með þessu hafi orðið tímamót í sögu heilbrigðismála á Íslandi. Spítalinn var eiginlegt bæjarsjúkrahús Reykjavíkur og landspítali og auk þess kennslustofnun Læknaskólans og síðar Háskóla Íslands, þar til Landspítalinn var opnaður, árið 1930. Landakotsspítalinn var tvívegis stækkaður mikið og ríkissjóður keypti hann 1976.

Systurnar reistu einnig spítala í Hafnarfirði. Fyrsta skóflustunga að þeirri byggingu var tekin 9. maí 1925 og í sama mánuði lagður hornsteinn að spítalanum. Reisugildi var haldið 26. september 1925 en 4. febrúar 1926 var byrjað að kynda húsið. Þessi spítali var einnig búinn 40 sjúkrarúmum og þjónaði í upphafi nærsveitum og einnig Suðurnesjum um skeið, en varð síðar ein helsta miðstöð kvensjúkdómalækninga á suðvesturhorni landsins. Sjúkrahúsið var tvisvar stækkað og ríkissjóður og Hafnarfjarðarbær keyptu það 1987.

Strax við komuna hingað til lands, árið 1896, hófu systurnar jafnframt barnakennslu í Reykjavík, eins og áður var getið. Varð hún vísir að Landakotsskóla, og voru þær mikilvirkar við rekstur og mótun hans um áratuga skeið. Aflaði Landakotsskólinn sér brátt vinsælda, ekki hvað síst í röðum efnahagslega vel settra fjölskyldna, enda þóttu kennararnir vel menntaðir og skólinn að öllu leyti til fyrirmyndar. Árið 1908 voru t.d. 70-80 börn þar við nám, og af þeim einungis lítið brot frá kaþólskum heimilum. Ný skólabygging var reist árið 1909.

Systurnar kenndu einnig tungumál og hannyrðir á sérstökum námskeiðum. Í Hafnarfirði stunduðu þær barnakennslu á árunum 1930-1962, lengst af í eigin skólahúsi, eða frá 1938, en ráku síðan forskóla og leikskóla til ársins 1987. Einnig vor þær með sérstök hannyrðanámskeið þar fyrir stúlkur.

Um 2.300 mannár í sjálfboðavinnu fyrir íslenska þjóð

Við inngöngu í reglu heilags Jósefs vinna systurnar heit um fátækt, hlýðni og skírlífi og þiggja aðeins fæði, klæði og húsnæði. Starfshóparnir á hverju svæði verða að standa undir kostnaði sínum, og systurnar hér fjármögnuðu því allar meiriháttar framkvæmdir með lánum og síðan tekjum af rekstri, ásamt reiknuðu kaupi, sem þær létu ganga inn í hann. Nokkra aðstoð fengu þær jafnframt erlendis frá. Sjúklingar greiddu sjálfir fyrir hjúkrun og læknismeðferð, uns Tryggingastofnun ríkisins kom til sögunnar, með lögum frá 1936, en eftir það fengu St. Jósefsspítalarnir opinber daggjöld. Systurnar nutu engra annarra íslenskra styrkja við uppbygginguna og reksturinn fram til 1951, en þá kom Reykjavíkurborg til skjalanna og ríkissjóður frá 1956. Sjúkrahúsunum bárust einnig umtalsverðar gjafir frá einstaklingum, samtökum og fyrirtækjum innan lands og utan.

Í upphafi önnuðust St. Jósefssystur flest sjúkrahússtörfin, önnur en þau sem læknar gegndu. Aðkeypt vinna nam um 4-5% af rekstrarkostnaði fram undir 1930, en síðan réðu þær til sín vaxandi fjölda starfsmanna, enda stækkuðu þær stofnanir sínar margsinnis, auk þess sem hlutfallsleg fjölgun varð á starfsfólki á hvern sjúkling eftir því sem tímar liðu. En vegna minnkandi aðsóknar stúlkna í þjónustureglur, og aukinnar þátttöku opinberra aðila í heilsugæslu og menntakerfi, dró úr hlutdeild systrareglna á þeim sviðum hérlendis sem annars staðar. Á árunum 1976-1978, þegar systurnar hættu að mestu störfum á sjúkrahúsunum, voru þær rúmlega 20, en starfsmenn þeirra alls um 500. Nam þá launaliðurinn um 70% af rekstrarkostnaði.

St. Jósefssystur skiluðu alls um 2.300 mannárum í sjálfboðavinnu fyrir íslenska þjóð. Framlag þeirra og afköst voru samt meiri en sú tala felur í sér, því að systurnar voru á sólarhringsvöktum og unnu langan vinnudag, eyddu mestum frítíma sínum í þágu stofnananna og tóku lengi vel engin frí. Þær voru hér flestar tæplega 50 samtímis, en alls komu hingað til lands um 140 konur úr reglunni, af ellefu þjóðernum, langflestar frá Þýskalandi, en voru nær allar menntaðar og þjálfaðar í Danmörku. Auk þess unnu hér um áratugsskeið á þeirra vegum níu írskar systur úr Mercy-reglunni.

St. Jósefssystur hafa verið kirkjuverðir allra þriggja kirkna kaþólskra á Landakotshæð og lögðu líka guðshúsum og söfnuðum þeirra í Reykjavík og Hafnarfirði til vinnu og framlög með ýmsum hætti. Þær voru virkir þátttakendur í Félagi kaþólskra leikmanna og gáfu veglegt framlag til stofnunar Þorlákssjóðs á sínum tíma, en hann sér m.a. um stuðning við útgáfu- og menningarmál.

Fjórar íslenskar konur gerðust St. Jósefssystur og störfuðu hér allar hluta af ferli sínum, en 34 hinna erlendu kvenna öðluðust íslenskan ríkisborgararétt. Margar systranna vörðu nær allri starfsævinni hér á landi og 36 þeirra hvíla í grafreitnum við Kristskirkju í Landakoti.

Eftirmælin?

En hver skyldu verða eftirmæli þessara dætra heilags Jósefs af Chambéry, sem nú kveðja Ísland hinsta sinni, eftir rúmlega 100 ára fórnarþjónustu við íbúa þess og aðra, sem á þurftu að halda?

Sagt hefur verið, að bein og óbein menningaráhrif St. Jósefssystra hafi verið fólgin í kynningu þeirra hérlendis á "nútímanum". Á Landskotsspítala hafi tugþúsundir Íslendinga framan af öldinni, sem sjúklingar, læknar eða gestir, hlotið fyrstu reynslu sína af ýmsum aðstæðum, þáttum og venjum sem þá voru hér mörgum óþekkt en nú teljist sjálfsagðir hlutir í þróuðu nútímasamfélagi, og hafi borið þessa vitund út um landið. Þarna hafi margur í fyrsta sinn kynnst nútímalegum húsakynnum, baðkerum og vatnssalernum, líkama sínum ólúsugum, hreinum fatnaði og rúmklæðum, hnífapörum, reglulegum og hollum máltíðum, jurtafæði og stofublómarækt, nákvæmni eftir klukku, vísindastarfsemi tæknialdar, jafnvel nýjum sálmalögum.

Önnur sjúkrahús og sérhæfðar heilbrigðisstofnanir hafi þá náð til mun takmarkaðri hóps. Aukinheldur hafi systurnar haft forgöngu um margs konar verklegar framkvæmdir og tækninýjungar og verið líka með sínum hætti fyrirmyndir í sjálfboðaliðsstarfi. En þetta álit hefur ekki alltaf verið svona, því miður. Í bókinni "St. Jósefsystur á Íslandi 1896-1996" segir Ólafur H. Torfason t.d. orðrétt:

"St. Jósefssystrum og framlagi þeirra var ekki tekið hér af óskiptri hrifningu. Ýmsir af málsmetandi frammámönnum létu opinberlega í ljós tortryggni á starfsemina á Landakotshæð framan af öldinni, einkum varðandi skólann, og töldu hana setta til höfuðs evangelísk-lúthersku samfélagi. Alþingi hafnaði sumarið 1901 stuðningi við fyrsta sjúkrahús systranna og þær höfðu fjárhagslega á brattann að sækja lengst af. Loks varð sú staðhæfing lífseig að með St. Jósefsspítalanum á Landakoti hefði reglan tafið byggingu Landspítalans og jafnvel Borgarspítalans í Reykjavík. Með tímanum unnu systurnar sér hins vegar vináttu og virðingu landsmanna sem birtist í ýmsum myndum, ekki hvað síst í ummælum forystumanna þjóðkirkjunnar."

Hinn 17. september árið 2000 var afhjúpaður minnisvarði á lóð kirkjunnar í Landakoti, um velgerðarstarf St. Jósefssystra á Íslandi. Þetta var höggmyndin "Köllun", sem var gerð af listamanninum Steinunni Þórarinsdóttur, en að frumkvæði menningarmálanefndar Reykjavíkur og með liðsinni kristnihátíðarnefndar, í þakklætisskyni fyrir fórnfúst starf systranna að hjúkrun sjúkra og uppfræðslu barna á 20. öld.

Það hugarþel, sem fram kemur í lokasetningu Ólafs hér að ofan, sem og í gerð og afhjúpun minnisvarðans, er enn við lýði og mun verða hér á landi um ókominn tíma. Systurnar fengu ekki alltaf þakkir, og þær ætluðust ekki til þess að fá þakkir. Þær vita hvar þær fá þakkir fyrir vinnu sína og fórnarlund, og þær þakkir eru þeim meira virði en allar mannanna þakkir. Samt segi ég: Hafið þakkir, kæru St. Jósefssystur.