[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lesandi góður, vertu velkominn að slást í för með mér um draumaland náttúruunnenda og þeirra sem hafa ánægju af því að leita fróðleiks og sagna um menningu og sögu þeirra sem byggðu strendur og nes austast á Austurlandi.

EINKENNANDI fyrir Austfjarðaslóðirnar eru há fjallaskörð með hrikafögru útsýni bæði til sjávar og inn til lands, tindar í fjöllum og stapar við sjó. Þetta landsvæði er heimkynni trölla, hafvætta og sjódrauga. Austfirðir eru afskaplega spennandi fyrir þá sem ferðast um á hestum postulanna því skammt er á milli óbyggða og hlýlegra byggða og hægt er um vik að fá vistir og viðlegubúnað flutt á milli staða, annaðhvort sjó- eða landleiðis.

Austfirðingar hafa haft forystu um það að gefa út göngukort og stika gönguleiðir og á árinu 2001 verður hægt að ganga alla leið frá Borgarfirði eystra suður í Berufjörð eftir stikuðum leiðum. Þar með hefur mörg mosagróin gatan fengið nýtt hlutverk eftir áratuga hvíld. Utan aðalleiðar eftir Austfjörðum liggja spennandi landsvæði sem hvert um sig eru kjörin til nokkurra daga skoðunar. Þrjú þau helstu eru Víkur sunnan Borgarfjarðar, Gerpissvæðið og Lónsöræfaleið frá Snæfelli. Um þau öll er auðvelt að komast í skipulagðar ferðir og Víkna- og Gerpissvæðið eru stikuð að því marki að fremur auðvelt er að komast um þau, þó sjálfsagt sé að spyrjast fyrir sé þess þörf og víða við sjó er flæðihætta.

Hér verður fjallað um Gerpissvæðið, eyðibyggðirnar milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar, sem eru hluti af Fjarðabyggð, og fjöllin sem umlykja hana.

Gerpissvæðið

Gerpissvæðið var allt í byggð frá landnámstíð allt þar til búháttabreytingar í kjölfar stríðsins umbyltu samfélaginu. Björgin var jöfnum höndum sótt í sjó og af landsnytjum. Sandvík fór í eyði í stríðslok, Hellisfjörður, Viðfjörður og Suðurbæir um miðjan sjötta áratuginn og Vöðlavík um 1970. Á svæðinu er hreindýrahjörð, 120-150 dýr og mikið fuglalíf. Á tveimur stöðum eru nytjuð æðarvörp.

Vöðlavík er sunnan Gerpis og hét fyrrum Krossavík. Þórir hinn hávi nam land í Krossavík, en þekktastur fornmanna þar er Þorleifur kristni, sem fyrstur Íslendinga neitaði að borga hoftoll og ekki síður fyrir það að hafa rekið tröll og forynjur á haf út. Var það í svo miklu hasti gjört að þau uggðu ekki að sér og döguðu uppi sem drangar og strýtur bæði úti í hafi og uppi á fjöllum. Gerpir varð að steini utan við Barðsneshorn og nefnist dranginn í dag Hornstapi en Nípu kerlingu dagaði uppi á Kerlingarflöt í hamraflugum fjallsins Norðfjarðarnípu, en þaðan steyptist hún í hafið laust fyrir 1900. Þorleifur var bróðir Þórarins á Þórarinsstöðum í Seyðisfirði, þar sem nú er búið að grafa upp stafkirkju frá því í árdaga kristni, þá fyrstu sem fundist hefur á Íslandi. Í Vöðlavík voru eftirtöld býli að norðanverðu: Vöðlar, Ímastaðir og Karlsstaðir og sunnan við á; innst Músalækur þá Þverá, Kirkjuból og yst Krossanes sem er á miðju nesinu milli Vöðlavíkur og Reyðarfjarðar. Uppi standa hús á Vöðlum, Ímastöðum og Þverá. Einnig eru nokkur sumarhús í víkinni. Á Karlsstöðum hefur Ferðafélag fjarðamanna komið upp hreinlætisaðstöðu og stefnir á smíði svefnskála.

Í Vöðlavík var búið þar til um 1970 og því eru þar sléttuð tún og vegir. Íbúar Víkurinnar byggðu sér samkomuhús eftir seinna stríð úr herskála og má sjá rústir þess. Til Vöðlavíkur liggur jeppavegur um Víkurheiði. Það er afar sumarfallegt í Vöðlavík, mikið af ám og lækjum, aldan leikur við sandinn og spennandi gönguleiðir í allar áttir. Af og til hafa skip strandað á Víkinni og er skemmst að minnast björgunarskipsins Goðans sem fórst þar fyrir nokkrum árum. Miðja vegu frá Víkurheiði niður í víkina er Víkurvatn í svokölluðum Vatnsbotni. Austan við vaðið á Þverá greinist Viðfjarðarvegur frá Vöðlavíkurvegi og liggur hann eftir brúnum Dysjardals sem nefnast Langahlíð upp á Dys. Dysjardalur liggur upp frá Karlsstöðum. Niður hann rennur Dysjardalsá með sérkennilega fallegum skessukötlum og fossum. Fyrir augum þess, sem upp dalinn gengur, verða einnig miklar og merkilegar hleðslur þar sem gamli Viðfjarðarvegurinn er nánast hlaðinn utan í hlíðina.

Hellisfjörður

Inn úr Norðfjarðarflóa ganga þrír firðir og er Hellisfjörður í miðið. Innan hans eru fjögur eyðibýli; innst Hellisfjarðarsel, þá Björnshús, Hellisfjörður og Sveinsstaðir yst. Fjörðurinn og dalir hans, Kvígindisdalur, sem liggur til suðurs að Vindhálsi, og Hellisfjarðardalurinn inn af eru ákaflega grösugir og sumarfallegir. Hellisfjarðaráin liðast út Hellisfjarðardalinn og er æðarvarp sunnan við ós hennar. Kirkja var við Hellisfjarðarbæinn fram undir 1750 (hálfkirkja). Á Sveinsstaðaeyri var stofnuð hvalstöð af Brödrene Bull á fyrsta áratug aldarinnar og sjást þess enn nokkur ummerki. Líkan af stöðinni er að finna í Sjóminjasafninu á Eskifirði. Á Eyrinni hefur nú verið komið upp grillaðstöðu og út frá henni liggur nýleg bryggja. Þarna hafa ferðaþjónustuaðilar í Neskaupstað haldið fólki veislur út í guðsgrænni náttúrunni. Engin hús frá fyrri tíð standa uppi í Hellisfirði, en tvö sumarhús eru þar í einkaeigu. Landbúnaður lagðist af fyrir tíma tækninnar og því er þar að mestu ósnortin náttúra.

Viðfjörður

Viðfjörður er syðstur fjarðanna í Norðfjarðarflóanum. Býlið Viðfjörður svo og tvö afbýli sem um skamma hríð var búið á, Klif inni í dalnum og Borg sunnanvert nær fjarðarbotni, eru öll í eyði. Út með firði að norðanverðu er fornbýlið Másstaðir. Viðfjörður er aflokaður og friðsæll staður, útdalurinn kjarri vaxinn og Viðfjarðará rennur út með suðurhlíðinni, en sveigir við fjarðarbotninn til norðurs og allt norður undir Viðfjarðarhúsið. Sunnan árinnar er æðarvarp og mikill reki. Í Viðfirði er glæsilegt íbúðarhús byggt um 1930 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Nú síðustu ár hefur það verið endurbyggt af miklum stórhug eigenda eftir áratuga niðurníðslu. Húsið hefur haft margvísleg hlutverk. Það var byggt fyrir stórfjölskyldu, en þar var líka skemmtanahald svo sem þorrablót fyrir allt Gerpissvæðið.

Frá því að vegur kom í Viðfjörð laust eftir 1940 og þar til að Oddsskarðsvegur var opnaður 1949 þjónustuðu Viðfirðingar ferðamenn á leið til og frá Neskaupstað. Í tengslum við rútuferðir Akureyri-Viðfjörður voru áætlunarsiglingar til Neskaupstaðar. Skammt utan bæjar er þokkaleg bryggja. Um miðja 19. öld bjuggu í Viðfirði hjónin Guðrún Jónsdóttir og Bjarni Sveinsson og er af þeim komin mikil ætt, Viðfjarðarætt. Af henni var dr. Björn Bjarnason, sá merki fræðimaður og kennari. Doktorsritgerð hans (1905) fjallaði um íþróttir fornmanna, hann safnaði þjóðsögum og ævintýrum, þýddi bækur, fékkst við orðabókar- og orðasmíði og var frábær íslenskukennari.

Þórbergur Þórðarson segir í Ofvitanum að kennsla hans í Kennaraskólanum hafi verið það eina sem hélt honum þar innan veggja í heilan vetur og fer mörgum orðum um verðleika hans. Af Viðfjarðarætt eru einnig margir hagleiksmenn svo sem Sófus Sveinsson sem smíðaði undurfallega taflmenn úr Hallormsstaðabirki. Þeir eru varðveittir í Náttúrugripasafninu í Neskaupstað. Einnig er Viðfjörður þekktur fyrir reimleikasögur.

Suðurbæir

Suðurbæir eða Barðsnesbæir eru: Stuðlar innst, þá Barðsnesgerðisstekkur (Gerðisstekkur), Barðsnesgerði (Gerði) og Barðsnes. Bæirnir eru allir norðanvert á Barðsnesi. Eina íbúðarhúsið sem stendur enn á Suðurbæjum er Barðsnesbærinn. Hann hefur verið gerður upp og er í prýðilegu ásigkomulagi. Í kringum hann vitnar allt um horfna tíð, bæði rústir mannabústaða og minjar frá útgerð. Hluti af útihúsum stendur á Gerði en hús eru fallin á Gerðisstekk og Stuðlum.

Barðsnes var bústaður landnámsmannsins Freysteins hins fagra er að sögn Landnámu nam Hellis- og Viðfjörð, Suðurbæi og Sandvík. Munnmælasögur, sem dr. Björn í Viðfirði skráði, segja hinsvegar svo frá að Barði hafi numið þetta land og búið á Barðsnesi. Var hann bæði glæsilegur höfðingi og fjölkunnugur. Í landi Stuðla á litlum tanga, Barðatanga, var Barða orpinn haugur, Barðahaugur, svo hann sæi yfir lönd sín. Haugurinn er álagablettur. Nokkru utan við Barðsnesbæ eru fornar rústir sem sagan segir að séu af bæ Barða og heitir þar Bæjarstæði. Fornleifafræðingar hafa nú beitt öskulagarannsóknum við að ákvarða aldur rústanna og komist að því að þær eru mjög gamlar.

Barðsneshorn er stórbrotin náttúrusmíð. Innan Stuðla er geysistórt berghlaup, Stuðlahnausar. Ysti hluti Barðsneshorns er nálægt miðju eldstöðvar sem nú er að mestu sokkin í sæ. Til norðurs brosa þar mót Neskaupstað fögur líparítbjörg, Rauðubjörg. Innan við þau er stuðlabergsfjara Hellisfjara og í Hellisfjörukambinum er rituvarp þar sem ungar ritunnar sitja á syllum sínum fram í ágúst. Sunnan við Horn er að finna steingerð tré allt að 80-90 cm í þvermál í vaxtarstöðu í kolalagi. Þar eru hamrahallir úr líparíti og beggja vegna Horns er ríkulegt fuglalíf, básar og stapar, ótrúlega litskrúðugar fjörur og svo sagan við hvert fótmál. Engin bryggja er á Suðurbæjum. Þar er lent í básum og vogum. Útsýnið af Horninu er þó það sem heillar mest. "Panorama" til dæmis af Vatnshól norðan Skollaskarðs. Þaðan er ótrúleg fjallasýn allt norður á Gletting, suður á Gerpi og fjallaröðina þar á milli.

Á slóðum Sandvíkur-Glæsis

Sandvík var austasta mannabyggð á Íslandi. Að sunnan liggur Gerpirinn, austasti oddi landsins, með óteljandi hraunlögum og grónum rákum. Gerpirinn er elsti hluti Austurlands og jafnvel landsins alls. Á þessari öld var búið á fimm bæjum í Sandvík; Sandvíkurstekk (Stóra-Stekk), Sandvíkurhundruðum, Sandvík, Sandvíkurparti og Sandvíkurseli. Nú er Sandvíkin öll í eyði og fáfarið um hana, enda erfið lending af sjó og um há fjallaskörð að fara. Víkin er nokkuð stór og grösug og út með sjó eru básar og fallegar fjörur. Sunnanvert við víkina er lendingin Skálar. Um tíma á þriðja áratugnum var þar lítil verstöð. Frá Skálum liggur kerruvegur yfir til bæjanna sem allir voru norðanvert við víkina. Fjöldi rústa eru í Sandvík, margar ævafornar, enda komu þangað aldrei vélar til þess að umbylta þeim. Allar líkur eru á að líf Sandvíkinga hafi verið með svipuðu sniði í aldir áður en víkin fór í eyði. Menn sóttu björg til sjávar, fisk og fugl, áttu kindur, kýr og hesta og sóttu egg í Gerpinn. Í Sandvík er slysavarnaskýli frá 1961. Þekktastur þeirra sem tóku sér bólfestu í Sandvík er heimsmaðurinn og sjódraugurinn Sandvíkur-Glæsir sem ber svartan frakka og pípuhatt, er með glæsibringu, hefur svarta skó á fótum og reykir feiknamikla pípu. Kveðju manna tekur hann kurteislega, blæs síðan ilmandi reyknum í vit þeirra, tekur ofan höfuðið og hneigir lifrauðan strjúpann.

Þekktasta silfurbergs- náma í heimi

Byggðin utan Eskifjarðarþéttbýlis hét fyrir daga nýlegrar sameiningar Helgustaðahreppur og var Vöðlavík hluti hans. Nafnið fékk hreppurinn af höfuðbólinu Helgustöðum, sem var sýslumannssetur. Í landi Helgustaða er heimsþekkt silfurbergsnáma, Helgustaðanáman. Silfurbergskristallar úr henni eru þeir stærstu í heimi og er þá víða að finna á söfnum. Í þeim brotnar ljósið þannig að allt verður tvöfalt lesið í gegn um þá. Þeir urðu mikilvægt hjálpartæki vísindamönnum í þekkingarleit um eðli ljóssins, einnig var silfurbergið, sem ber nafnið Iceland spar, notað í sjónauka. Náman var rekin um aldir og allt fram á þá tuttugustu, þegar steinkurl úr henni var notað utan á hús. Nú er náman friðlýst náttúruvætti. Unnið er að því að gera sögu hennar og umhverfi aðgengilegt ferðafólki.

Skammt utan við Helgustaði er Útstekkur, gamla " Plássið" frá einokunartímanum, í sérkennilegri hvilft. Sjór hefur nú tekið þar hluta af landinu. Það er áhrifaríkt að ganga um staðinn, sem geymir sögu niðurlægingar og erfiðleika. Á blómaskeiði sjávarbændanna var gott að búa í Helgustaðahreppi og var þá umfangsmesta útgerðin á Karlskála. Á sumrum lágu menn víða við í kofum og byrgjum með ströndinni og sóttu björg í sjóinn. Íbúar í Helgustaðahreppi voru 292 á 21 lögbýli árið 1901, en nú fylla þeir ekki lengur heilan tug.

Seley undan Krossanesi var, frá fornu fari og vel fram á þessa öld, matarkista fólks, sem bjó við Reyðarfjörð. Seinast voru menn þar í veri 1936. Eyjan heyrði og heyrir enn undir Hólmaklerk, sem nú er búsettur á Eskifirði. Þurftu vermenn að gjalda klerki hlut vegna viðlegu í eynni. Gert var út yfir sumarmánuðina og einkum veiddur hákarl og lúða. Talsverðar verbúðarústir eru í Seley. Enn eru nokkrar nytjar af eyjunni. Í bók Ásmundar Helgasonar á Bjargi, "Á sjó og landi", er að finna afar góðar lýsingar á lífi og aðbúnaði þeirra sem þaðan sóttu sjóinn.

Það er einstök upplifun að komast á fjallatinda og sjá vítt yfir. Það er talsvert af fjöllum skammt frá þjóðvegi í Fjarðabyggð sem eru um og yfir þúsund metrar á hæð og fremur auðgengt á. Á sumum þeirra eru gestabækur þar sem menn geta skilið eftir sönnun þess að þeir hafi komist á tindinn. Nokkur þessara fjalla nefni ég hér. Fyrst skal telja Kistufell innan við Reyðarfjörð, 1.239 metra á hæð og þar með hæsta fjall utan hálendisins á Austfjörðum, Hádegisfjall sunnan Reyðarfjarðar, Hólmatind milli Eski- og Reyðarfjarðar, Svartafjall milli Eski- og Norðfjarðar, en á það liggur stikuð leið úr um 600 metra hæð Eskifjarðarmegin af gamla Oddsskarðsveginum og Goðaborg milli Fannardals í Norðfirði og Mjóafjarðar. Það er lán hverjum manni sem uppgötvar þá uppsprettu orku og lífsfyllingar sem útivist og náttúruskoðun eru og gildir þar einu hvort viðkomandi er alinn upp í borg eða sveit. Fjölbreytni þess sem hægt er að fást við og nema í náttúrunni er óendanleg og hverskonar landslag hefur sín sérkenni. Á Austurlandi er margt sérstætt að finna svo sem blómjurtir sem bundnar eru fjórðungnum, til dæmis sjöstjörnu, lyngbúa, gullsteinbrjót og bláklukku, og austfjarðabobbinn kúrir hátt í hlíðum. Þar er líka að finna hreindýr, leifar hvalstöðva, austfjarðaþokuna, sem oftar en ekki er undarlegt sjónarspil, villta bjargdúfu á hreiðri og síðast en ekki síst austfirsku blágrýtisfjöllin skreytt líparíti, með heilu tröllahersingunum döguðum uppi á tindum. Og fyrir austan eru fjöllin alltaf blá.

Eftir Ínu Dagbjörtu Gísladóttur

Höfundur er fararstjóri og formaður Ferðafélags fjarðamanna, Fjarðabyggð.