8. febrúar 2001 | Innlendar fréttir | 296 orð | 1 mynd

Ingibjörg Benediktsdóttir skipuð hæstaréttardómari

Önnur konan sem tekur sæti í Hæstarétti

Ingibjörg Benediktsdóttir
Ingibjörg Benediktsdóttir
FORSETI Íslands skipaði í gær Ingibjörgu Benediktsdóttur, héraðsdómara í Reykjavík, til að verða dómari við Hæstarétt Íslands frá og með 1. mars 2001. Ingibjörg tekur við af Hirti Torfasyni, sem lætur þá af störfum.
FORSETI Íslands skipaði í gær Ingibjörgu Benediktsdóttur, héraðsdómara í Reykjavík, til að verða dómari við Hæstarétt Íslands frá og með 1. mars 2001. Ingibjörg tekur við af Hirti Torfasyni, sem lætur þá af störfum.

Þetta er í annað sinn sem kona er skipuð í stöðu hæstaréttardómara. Guðrún Erlendsdóttir varð fyrsta konan til að gegna því starfi en hún var skipuð árið 1986. Með skipan Ingibjargar verða því tvær konur í embætti hæstaréttardómara.

Í viðtali við Morgunblaðið í gær sagðist Ingibjörg búast við því að konum myndi fjölga enn meira á næstu árum og áratugum enda fjölgaði konum sífellt í lögfræðingastétt. Þá bærust þær fregnir frá lagadeild Háskóla Íslands að rúmlega helmingur nemenda við deildina væri konur. Ingibjörg sagði mikilvægt að konur ættu sæti í Hæstarétti. Túlkun þeirra á lögum gæti í vissum tilvikum verið önnur en karla.

Ingibjörg var sakadómari í Reykjavík frá 1984 til 1992 og héraðdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá 1. júlí 1992. Ingibjörg segir að reynsla sín af dómarastörfum hljóti að gagnast afar vel þegar hún taki sæti í Hæstarétti.

Allir umsækjendur hæfir

Umsækjendur um starfið voru sjö talsins. Auk Ingibjargar sóttu héraðsdómararnir Hjördís Hákonardóttir og Sigríður Ingvarsdóttir og hæstaréttarlögmennirnir Dögg Pálsdóttir, Ingibjörg Rafnar, Jakob R. Möller og Sigurður G. Guðjónsson um starfið.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins taldi Hæstiréttur alla umsækjendurna hæfa til að gegna embætti hæstaréttardómara.

Auk þess að taka tillit til menntunar og starfsreynslu tók Hæstiréttur tillit til þeirra dóma sem héraðsdómararnir sem sóttu um höfðu kveðið upp og til málflutnings þeirra sem koma úr röðum starfandi lögmanna. Þá er litið til þess hverrar þekkingar og reynslu er helst þörf eins og dómurinn er skipaður hverju sinni.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins taldi Hæstiréttur þær Hjördísi Hákonardóttur og Ingibjörgu Benediktsdóttur úr röðum dómara og hæstaréttarlögmennina Ingibjörgu Rafnar, Jakob R. Möller og Sigurð G. Guðjónsson standa öðrum umsækjendum framar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.