Orðabókin er besti vinur þýðandans.
Orðabókin er besti vinur þýðandans.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rússneski rithöfundurinn Vladimir Nabokov öðlaðist heimsfrægð í kjölfar umdeildrar ástarsögu um unglingsstúlkuna Lólítu en átti þá þegar að baki áratugalangan ritferil. Færri vita að Nabokov var einnig afkastamikill og afar umdeildur þýðandi.

EFTIR rússneska rithöfundinn Vladimir Nabokov liggja sautján skáldsögur, auk smásagna, leikrita og ljóða. Hann varð heimskunnur í kjölfar sögunnar um Lólítu sem út kom í Bandaríkjunum árið 1958, en bók sú fjallaði um kynferðissamband miðaldra karlmanns og barnungrar titilpersónunnar. Skáldsagan vakti strax mikið umtal, hún var bönnuð í a.m.k. sex þjóðlöndum og harðlega gagnrýnd af mörgum fyrir siðleysi. Fáir gengu þó jafnlangt og gagnrýnandi nokkur sem við útkomu sagði Lólítu skaðlegustu bók sem skrifuð hefði verið síðan Hitler ritaði Mein Kampf. Bókin náði hins vegar metsölu þar sem hún var ekki bönnuð, mótmælin vöktu áhuga fólks í stað þess að fæla það frá eins og oft vill verða. Tvær kvikmyndir hafa síðan verið byggðar á sögunni, leikverk og ópera og nýlega ritaði ítalski höfundurinn Pia Pera framhaldsbókina Dagbók Lólítu. Þetta hefur átt stóran þátt í að höfundarnafn Nabokovs tengist þessari skáldsögu umfram annað sem hann skrifaði, enda sagði Nabokov eitt sinn í blaðaviðtali að sín yrði minnst fyrir Lólítu og vinnuna við Évgení Ónegin. Það hefur margsannað sig að hann hafði rétt fyrir sér í fyrra tilvikinu. Seinni vísunin þykir sumum kannski óljósari, en Nabokov varði drjúgum hluta ævinnar í að þýða söguljóð Alexanders Púshkín um rómantíska einfarann Ónegin. Enda þótt frægð þýðingarinnar hafi ekki borist jafnvíða og áðurnefndrar skáldsögu gefa orð Nabokovs til kynna hversu mikilvægt þýðingarstarfið var í hans augum. Sú er nefnilega reyndin að þótt Nabokov sé einna helst þekktur fyrir skáldverkin átti hann langan og afkastamikinn feril sem þýðandi. Hann þýddi eigin verk úr rússnesku yfir á ensku, og öfugt, ásamt því að þýða fjölmarga þekkta enska og franska höfunda á rússnesku. Síðan launaði hann greiðann og þýddi höfunda á borð við Lermontov á ensku. Eftir því sem ferill hans sem þýðanda varð lengri myndaði hann sér ákveðnari aðferðafræði þar til hann varð að lokum einn helsti málsvari bókstafsþýðinga á öldinni. Í bókstafsþýðingum er lipurleika og lesvænleika kastað fyrir róða í þeirri von að í staðinn náist "nákvæmari" yfirfærsla frumtextans, þótt sennilega verði hún óskáldlegri fyrir vikið. Þetta er sjaldgæft þýðingarform og mikið var deilt á Nabokov fyrir að beita aðferðinni við þýðingu sína á Púshkín.

Nabokov var reyndar alltaf þekktur fyrir sterkar og afdráttarlausar skoðanir, og lét hann þær í ljós varðandi þýðingarfræði sem og annað. Óneginþýðingin leiddi t.d. til einnar þekktustu ritdeilu bandarískra bókmennta en það var á milli Nabokovs og bandaríska rithöfundarins og fræðimannsins Edmunds Wilsons. Áður en frekar er fjallað um þýðingarstörfin er þó rétt að gæta betur að ævintýralegu lífshlaupi Nabokovs, en hann þekkti af eigin raun atburðina sem leiddu til tveggja helstu hörmungaskeiða aldarinnar: byltingu bolsévika árið 1917 og valdatöku Hitlers í Þýskalandi.

Aldurslaust alþjóðlegt viðundur

Nabokov fæddist árið 1899 í Sankti-Pétursborg en fjölskylda hans, sem á þeim tíma var fjarskalega auðug, hafði um langt skeið verið áberandi í rússneskum stjórnmálum og staðið keisurunum nærri. Eftir byltingu bolsévika breyttust þó hagir Nabokov-fjölskyldunnar því að þrátt fyrir almennt frjálslyndi föður Nabokovs og þátttöku hans í réttindabaráttu alþýðunnar tilheyrði hún gamla hefðarveldinu og var í hættu. Af þeim sökum flúði fjölskyldan til Krímskaga árið 1917, þar sem hún dvaldist í tvo vetur. Að svo búnu hélt Nabokov ásamt bróður sínum til náms í Englandi en foreldrar hans og önnur systkini fóru til Berlínar þar sem þau komu sér fyrir. Þangað fluttist Nabokov að loknu námi árið 1922 en sama ár var faðir hans myrtur af pólitískum ofstækismönnum. Í Berlín átti Nabokov fasta búsetu í fimmtán ár, fjölskylduauðæfin voru uppurin, en hann sá fyrir sér með ritstörfum og tungumálakennslu. Árið 1937 hraktist hann á flótta á nýjan leik, í þetta sinn af völdum nasista en Vera, eiginkona hans, var gyðingur. Þau komust naumlega til Parísar og þaðan til Bandaríkjanna þar sem Nabokov kenndi rússneskar bókmenntir við ýmsa háskóla í tæpa tvo áratugi. Nabokov lést árið 1977.

Hefð hefur skapast fyrir því að skipta rithöfundarferli Nabokovs í tvo hluta. Fyrstu níu skáldsögurnar skrifaði hann á rússnesku á árunum 1925-1938 en næstu átta á ensku og eru oft dregin mörk þarna á milli. Nabokov hafði getið sér góðan orðstír sem rithöfundur í stóru samfélagi rússneskra flóttamanna sem myndast hafði í Berlín milli stríða. Hann var þó nær óþekktur í Bandaríkjunum þegar hann fluttist þangað, þurfti að byrja aftur á byrjun og smíða sér nýjan feril, en eftir útgáfu Lólítu breyttist það. Afleiðingin af þessum tvöfalda ferli er sú að þrátt fyrir miðlæga stöðu Nabokovs í bókmenntasögu þjóðanna beggja verður til ákveðinn skilgreiningarvandi. Sjálfur lýsti hann stöðu sinni sem tvítyngdur rithöfundur á eftirfarandi hátt: "Enginn getur ákveðið hvort ég er miðaldra bandarískur höfundur, gamall rússneskur rithöfundur eða aldurslaust alþjóðlegt viðundur." Eftir Lólítu lét Nabokov af kennslustörfum og helgaði sig ritlistinni. Af miklum móð tók hann líka að þýða sínar fyrri skáldsögur á ensku og naut þar liðsinnis sonar síns, Dmitri. Því má segja að á sjötta áratugnum hafi höfundarverk Nabokovs byrjað að vaxa í báðar áttir. Á sama tíma og eldri rússnesk verk birtust enskumælandi lesendum í fyrsta skipti voru nýju bækurnar skrifaðar á nýju tungumáli. Áhugavert dæmi um skilgreiningarvandann sem hefur fylgt Nabokov alla tíð er að rússnesku skáldsögurnar eru jafnan tengdar evrópskum módernisma en þeim sem hann skrifaði á ensku um og eftir seinna stríð er annaðhvort skipað í flokk póstmódernískra verka eða mikilvægra áhrifavalda á póstmódernisma í bandarískum bókmenntum. Má því ætla að Nabokov njóti nokkurrar sérstöðu meðal tuttugustu aldar rithöfunda þar sem hann flytur sig ekki aðeins milli tungumálaheima, sem er ekkert einsdæmi, heldur færir hann sig að því er virðist á sama tíma úr flokki módernista í hóp póstmódernista. Einfaldar flokkanir sem þessar eru þó takmörkunum háðar, þær veita ákveðna yfirsýn en rista ekki ýkja djúpt. Þó er freistandi að halda örlítið lengur áfram á sömu braut því að þýðingarferli Nabokovs má einnig skipta í tvo hluta: sjálfsþýðingar og þýðingar hans á öðrum höfundum.

Hamskipti ævisöguritarans

Ekki fer mjög gott orð af sjálfsþýðingum, flestir rithöfundar kjósa fremur að skrifa beint á sitt annað tungumál en að skrifa fyrst á móðurmálinu og þýða svo. Nabokov lýsti sjálfsþýðingarferlinu þannig að það væri eins og að róta í eigin innyflum og máta þau síðan eins og hanska. Það verður einnig að hafa í huga að sjálfsþýðingar geta grafið undan mikilvægi frumtextans, sérstaklega þegar þýðingin er á víðlesnara tungumáli en frumútgáfan. Í stað þess að vera hliðstæður eða undirskipaður texti, sem í flestum tilfellum á við um þýðingar þegar annar en höfundur kemur að þeim, er að sumu leyti um "betrumbættan" texta að ræða sem getur komið í stað hins fyrsta. Ef á hinn bóginn sjálfsþýðingunni er ekki vel tekið kann það að koma illa við sjálfsmynd höfundarins, tvær útgáfur sömu bókar sveima í endalausri samkeppni um veröldina líkt og meinfýsnir tvíburar í hryllingsmynd. Rússnesku skáldsögurnar Hlátur í myrkri (1933) og Örvænting (1936) eru ágæt dæmi um margþætta þýðingarsögu verka Nabokovs frá þessum tíma, en áður en yfir lauk höfðu þær verið þýddar fimm sinnum á ensku, tvisvar hvor af höfundi, á fjórða áratugnum og svo á þeim sjöunda, og sú fyrrnefnda einu sinni í viðbót af þýðandanum Winfred Roy. Nabokov endurskoðaði verkin á róttækan hátt þegar hann þýddi sjálfur, breytingarnar fólust í viðbótum, lagfæringum og öðrum afdrifaríkum endurskrifunum. Í raun var um nýtt verk að ræða við hverja útgáfu. Frumtexti verður því dálítið snúið hugtak í þessu samhengi. Eitt verka Nabokovs á sér þó enn ævintýralegri tungumálsbakgrunn en áðurnefndar skáldsögur. Sjálfsævisagan Speak Memory eða Conclusive Evidence eða Drugie berega. Eða Speak, Memory: An Autobiography Revisited. Þessum nöfnum hefur hún öllum gegnt. Fyrsta kaflann skrifaði Nabokov á frönsku, hélt áfram á ensku en fannst það erfitt því minningarnar voru svo ríkulega bundnar rússneskunni en lét sig þó hafa það og kaflarnir birtust reglulega í tímaritinu New Yorker allt þar til ævisögunni var lokið og hún var gefin út í bókarformi sem Conclusive Evidence árið 1951. Hann var ánægður með bókina, sem að vísu seldist ekki vel en fékk einstaklega lofsamlega umfjöllun. Svo ánægður var Nabokov að tveimur árum síðar ákvað hann að þýða ævisöguna á rússnesku. Það ferli reyndist opna ýmsar flóðgáttir og áður meðvitundarlausar minningar rönkuðu við sér. Í Drugie berega bætir hann heilu undirköflunum við fyrri útgáfuna, tekur út nokkra skýringakafla sem rússneskum lesendum voru óþarfir, en kýs þó oftar að halda slíkum köflum og fjalla á rússnesku um það hvers vegna enskumælandi lesendur hafi þurft á þeim að halda. Þannig varð frumútgáfan á ensku mikilvægur hliðartexti rússnesku útgáfunnar. Þá var Speak, Memory: An Autobiography Revisited sem út kom árið 1967 annað og meira en endurþýðing rússnesku útgáfunnar, því þótt hún tæki mið af breytingunum sem þá höfðu átt sér stað var efnið endurskoðað á nýjan leik og fleiru bætt við. "Þessi enska þýðing á rússneskri endurgerð á endursögn rússneskra minninga á ensku reyndist erfitt verkefni en mér var það nokkur huggun að hamskipti sem þessi höfðu aldrei áður verið framkvæmd af manneskju, enda þótt þau séu fiðrildum kunnug," segir Nabokov í formála nýlegrar útgáfu ævisögunnar.

Listin að þýða

Nabokov þýddi líka verk annarra höfunda. Árið 1922 snaraði hann Lísu í Undralandi á rússnesku og þótti hafa unnið mikið þrekvirki og útgáfan er orðin sígild þar í landi. Það sem gerði Lísu í Undralandi erfiða í þýðingu eru fjölmargar paróderingar höfundarins Lewis Carrolls á enskri ljóðahefð. Nabokov færði verkið aftur á móti inn í rússneskan bókmenntaheim, hann lætur persónurnar til dæmis fara með skrumskælingar á Púshkín í stað Roberts Southey eins og í frumverkinu. Upp frá því má segja að nokkuð stríður þýðingastraumur hafi legið frá honum, bæði úr frönsku og ensku á rússnesku, og rússnesku á ensku og frönsku. Meðal höfunda sem hann þýddi eru Byron og Baudelaire á rússnesku og Gogol og Lermontov á ensku. Það var svo árið 1941 sem Nabokov byrjaði að færa hugmyndir sínar um þýðingar og góða þýðendur á blað, en þá skrifaði hann greinina "Listin að þýða". Þar tínir hann til ýmsar glæfralegar þýðingarvillur sem hann hefur rekist á í rússneskum bókmenntum á ensku og teflir síðan fram eigin skilgreiningu á fyrirmyndarþýðandanum: "Þýðandinn verður að búa yfir mikilli þekkingu á þjóðunum tveimur og tungumálunum sem unnið er með. Þá verður hann að þekkja höfundinn og stílbrögð hans í smáatriðum, svo ekki sé minnst á félagslega forsögu orða, hvenær þau voru í tísku og hvert þau vísuðu." Þarna getur að líta vísi að þeim hugmyndum sem síðar áttu eftir að blómstra í allsérstæða og verulega umdeilda þýðingarkenningu. Áherslan sem lögð er á þekkingu og vitneskju þýðandans og mikilvægi smáatriða er viðvarandi einkenni á hugmyndum Nabokovs og rúmum tuttugu árum síðar sýndi hann í verki hvernig hann ætlaðist til að þýðendur bæru sig að við störf sín. Þýðing hans á Évgení Ónegin var metnaðarfullt verkefni og það stærsta sem hann nokkru sinni tók sér fyrir hendur. Vinnan við Ónegin hófst árið 1945 þegar Nabokov gaf út þrjá kafla í bundnu máli. Segja má að hann hafi verið kominn vel áleiðis þegar þýðingin var gefin út í fjórum bókum og óbundnu máli árið 1964 og að hann hafi síðan lokið vinnunni 1975 þegar endurskoðuð þýðingin birtist í enn óbundnara máli.

Breytingarnar sem verða á hugmyndum Nabokovs frá því að ritgerðin um þýðingarlistina var skrifuð og þar til hann réðst af fullri alvöru í Ónegin eru róttækar og í raun gagngerar hvað eitt atriði varðar. Í ritgerðinni gætir enn þeirrar skoðunar að þýðandanum, eftir að hafa fullnægt ákveðnum skilyrðum, geti lánast þýðingaverkefnið. Þetta viðhorf breytist eftir að Nabokov hefur vinnu sína við Ónegin. "Það er ómögulegt," segir hann á ofanverðum sjötta áratugnum, "að þýða Ónegin og halda rímskipaninni." Og ef valið stendur milli "ríms og rökvísi" eins og hann orðar það er mikilvægara að koma innihaldinu til skila en bragfræðinni. Lausnin sem Nabokov leggur fram er að lýsa rími og öðrum bragfræðilegum eiginleikum textans í aftanmálsgreinum, ásamt vísunum og félagslegum skírskotunum. Allt annað er lesvæn umorðun, paródering og skrumskæling þar sem flatneskjulegt orðgjálfur er látið fylla upp í textann svo að formið haldist. Á þessu gat Nabokov ekki lýst nægilegri fyrirlitningu.

Évgení Ónegin

Það sem þessi rómaði fagurkeri og stílisti gerði í þýðingu sinni á Púshkín var að fórna fegurð ljóðsins fyrir merkingu textans. Bent hefur verið á að fáir, ef nokkur, hefðu átt að geta verið betur í stakk búnir til að takast á við þýðingu á Púshkin í bundnu máli. Af hverju tekur Nabokov þessa ákvörðun? Á fyrstu blaðsíðu fyrsta bindis þýðingarinnar svarar hann spurningunni með því að varpa fram annarri: Hvernig skilgreinir maður orðið "þýðing"? Þetta er retórísk spurning því í næstu málsgrein skiptir hann tilraunum til að skila ljóðum í nýtt tungumál í þrjá flokka: 1) Umorðanir, frjáls útgáfa frumtextans með viðbótum og úrfellingum til að mæta kröfum formsins, væntingum neytenda og fáfræði þýðandans. Slíkar umorðanir kunna að hljóma vel en það er bara glingur og gabb og skiptir ekki máli.

2) Orðfræðilegar þýðingar. Þar sem orð eru þýdd eftir augljósustu vísun þeirra og í réttri röð. Þetta getur maskína gert undir umsjá málfræðings.

3) Bókstafleg þýðing. Hér er merking frumtextans, eins og hún er skilin í víðu samhengi, færð yfir í annað tungumál með eins mikilli nákvæmni og málfræðilegar og menningarlegar takmarkanir tungumálsins leyfa. Þetta er það eina sem hægt er að kalla þýðingu.

Í texta Nabokovs átti Púshkin að skína í gegn, en þýðandinn vera ósýnilegur. Sem er dálítið fyndið vegna þess að í jafnankannalegri þýðingu sem þessari er þýðandinn langt frá því að vera ósýnilegur, lesendur rekast harkalega á hann um leið og lestur hefst - svo ólík er þýðingin hefðbundnum ljóðaþýðingum, orðtakið er á köflum stirt og alltaf óskáldlegt. En Nabokov stóð á sama um það og stefndi ekki að ósýnileika sem gerði það að verkum að lesandinn gleymdi að um þýðingu væri að ræða. Nabokov ákvað að fela sig ekki á bak við lesvænan texta. Hann birtir Púshkin eins nákvæmlega og hann telur að hægt sé að gera í öðru tungumáli en rússnesku. Til að svo megi verða skrúfar hann niður í miðluninni, í staðinn fyrir að reyna að miðla öllu ljóðinu, formi og innihaldi, einskorðar hann sig við merkinguna. Á því leikur síðan enginn vafi að þýðingin truflar lesandann með framandi orðnotkun og málfari. En hvers vegna ekki, spyr Nabokov? Ónegin á ensku á sér ekkert sjálfstætt líf, slétt og felld umgjörð er blekking. Þetta er rússneskt ljóð og ef lesandinn vill raunverulega kynnast því er næsta skref að læra rússnesku. Þýðing Nabokovs er bara stoðgrind, segir hann. Sumir líta á þessi harðneskjulegu orð sem uppgjöf, aðrir sem raunsæi. Nabokov var hins vegar vel meðvitaður um að lesvæna rímaða þýðingin væri hið ráðandi viðmið hvað ljóðaþýðingar varðar og að með því að nota aðferðafræðina sem hann hafði kosið sér staðsetti hann verk sitt í hrópandi andstöðu við væntingar flestra lesenda. Þetta olli honum þó ekki nema takmörkuðum áhyggjum, hann var óhræddur við að bjóða hefðinni birginn og svaraði gagnrýnendum fullum hálsi eins og greinin bráðskemmtilega "Reply to My Critics" er sýnidæmi um, en hana er að finna í safnritinu Strong Opinions.

Vel má velta fyrir sér viðmiðinu sem Nabokov mótmælir eins og Ástráður Eysteinsson gerir í bókinni Tvímæli. Ástráður spyr hvort ekki sé á ferðinni dulbúin herferð fyrir áferðarsléttum textum sem í engu stugga við þeirri fagurfræði og þeim málheimi sem fyrir er þegar læsileiki og "frelsi" þýðandans verður gagnrýnislaus forsenda allra þýðinga. Lipurlegar þýðingar sem undir merkjum hins þýðgenga máls eiga á hættu að sneiða fram hjá leiðum sem gætu glætt textann lífi væri glímt við þær, bætir hann við. Hjá Nabokov er markmiðið reyndar ekki að glæða textann lífi. Heldur vill hann styðja við lesandann á erfiðri leið inn í annan málheim, en það sem Ástráður kallar viðnám þýðingarinnar, sem leiðir til þess að viss menningarmunur frumtextans og þýðingarmálsins birtist lesendum, má sjá sem lykilhugtak í Ónegin-þýðingu Nabokovs. Nabokov vill að þýðingin bendi til frumtextans, innganginn endar hann á að segja að hann vonist til að textinn, og ekki síst skýringarnar, verði til þess að lesendur finni hjá sér löngun til þess að læra tungumál Púshkíns og lesa Ónegin aftur, án stoðgrindarinnar. Þetta þýðir að kannski er viðnámið of mikið fyrir almenna lesendur. Nabokov myndi hins vegar segja að það væru ekki til neinir almennir lesendur og viðnámið væri ekki nægilegt.

Eftirköst Ónegins

Það er einkennilegt að utan við Lólítu hefur sennilega engin bók Nabokovs vakið jafnhatrammar deilur og Ónegin-þýðingin. Allir sem einhvers voru megnugir í bandarísku bókmenntalífi tjáðu sig um hana. Margir voru hrifnir en jafnmargir voru það ekki. Ritdeilurnar milli Edmunds Wilsons og Nabokovs sem spruttu upp í kjölfar þýðingarinnar eru skráðar á spjöld bókmenntasögunnar enda einkar blóðugar. Wilson var á þessum tíma einhver virtasti bókmenntafræðingur Bandaríkjanna og Nabokov sömuleiðis á hátindi frægðarinnar. Þar fyrir utan höfðu þeir verið nánir vinir um áratuga skeið, sem gerði deilurnar enn safaríkari því hvorugur hikaði við persónulegar aðdróttanir. Anthony Burgess, sem lýst hafði hrifningu sinni á þýðingu Nabokovs, sagði að þegar þessir risar fóru að takast á hefðu minni spámenn eins og hann sjálfur flýtt sér í skjól. Það var náttúrlega enginn sérstakur endi bundinn á deilurnar umhverfis Ónegin, skoðanir eru skiptar enn þann dag í dag, en vinskap Nabokovs og Wilsons lauk þarna.

En það var ekki bara þýðingin sem lenti á milli tannanna á fólki. Í rauninni var þýðingin ekki nema brot af útgáfunni. Skýringarnar fylltu þrjú bindi, þýðingin aðeins hið fyrsta af fjórum. Almennt viðhorf Nabokovs eins og það birtist þarna virðist hafa farið í taugarnar á mörgum. Enda þótt hann hafi að flestu leyti haft ströngustu fræðikröfur að leiðarljósi kennir margra grasa í viðbótarbindunum. Þær eru ítarlegasta rannsókn sem unnin hefur verið á söguljóði Púshkín, samstaða er um þessa skoðun meðal rússneskufræðinga, en öðrum þræði er persóna Nabokovs sjálfs nokkuð fyrirferðarmikil á köflum. Hann hikar ekki við að gera stólpagrín að virtum rithöfundum sem honum mislíka af einhverjum sökum, hann tætti í sundur fyrri þýðingar á ljóðinu, tengdi það eigin æskuminningum og dró enga dul á fyrirlitningu sína á Sovétríkjunum. Svona mætti lengi telja. Þetta eykur enn við skilgreiningarvandann umhverfis Nabokov því það er ekki vaninn að fræðimenn hegði sér á þennan hátt, séu svona frjálslegir í fasi og fórni virðulegri fjarlægð fyrir persónulegar samræður við lesendur. Þó tók Nabokov stöðu sína sem fræðimaður afar alvarlega og stundaði að auki náttúruvísindi af kappi og má til dæmis nefna að fiðrildategund sem hann uppgötvaði var skírð eftir honum. Truflaða ljóðskýrandann Charles Kinbote, aðalsöguhetju skáldsögunnar Pale Fire sem Nabokov hafði í smíðum meðan á þýðingarvinnunni stóð, má því að mörgu leyti sjá sem brenglaða spegilmynd þýðandans Nabokovs. Síðan deila menn bara um hversu brengluð spegilmyndin sé í raun.

Heimildir:

Ástráður Eysteinsson. Tvímæli. Þýðingar og bókmenntir. Bókmenntafræðistofnun. Háskólaútgáfan. Reykjavík 1996.

Boyd, Brian: Vladimir Nabokov: The American Years. Princeton University Press, New Jersey 1991.

Nabokov, Vladimir. "The Art of Translation". Lectures on Russian Literature. Harcourt Brace. New York 1981.

Nabokov, Vladimir. Eugene Onegin. A Novel in Verse by Alexander Pushkin, vol. 1. Routledge & Keagen Paul. London 1964.

Nabokov, Vladimir. "Problems of Translation: Onegin in English". Theories of Translation. Ritstj. Rainer Schulte og John Biguenet. Chicago University Press. Chicago 1992.

Nabokov, Vladimir. Speak, Memory. An Autobiography Revisited. Vintage International. New York 1989 (fyrsta útgáfa 1967).

Nabokov, Vladimir. Strong Opinions. Vintage International. New York 1990 (fyrsta útgáfa 1973).

Pitman, Robert. Encounter. Febrúar 1959.

EFTIR BJÖRN ÞÓR VILHJÁLMSSON

Höfundur er bókmenntafræðingur.