Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Umönnunarstéttir hefur skort góð mælitæki, segir Elín Ebba Ásmundsdóttir, sem sýna fram á árangur og mikilvægi starfanna.

FAGFÓLK og neytendur munu aldrei verða sammála um hvað sé mikilvægast í heilbrigðiskerfinu.

Ýmsir neytendahópar telja það rétt sinn að fá að vera með í ákvarðanatökum og mótun heilbrigðisþjónustunnar og víða erlendis eru þessir hópar virkir í heilbrigðispólitíkinni. Neytendur heilbrigðisþjónustunnar fá æ stærra hlutverk í stefnumótun hennar og eiga stjórnvöld hérlendis að ýta undir og hlúa að aukinni þátttöku hagsmunaaðila. Neytendurnir gera kröfu um að vera virkir í samfélaginu þrátt fyrir fötlun eða aðrar takmarkanir. Það er ekki nóg að bjarga lífi heldur verður lífið að vera þess virði að lifa því. Í augum neytenda er nú jafnmikilvægt að eiga þess kost að "lifa lífinu lifandi" og að bjarga lífi. Þar sem kostnaður við heilbrigðiskerfið fer sívaxandi er nú aðeins borgað fyrir lausnir sem þegar hafa "sannað sig" og krafan á alla heilbrigðisþjónustu að hún sýni fram á gildi sitt. Greina þarf alla þætti þjónustunnar og þar skiptir að sjálfsögðu höfuðmáli hver er við stjórnvölinn. Vegna tæknilegrar framþróunar verða þau vandamál sem heilbrigðsstarfsmenn fást við það flókin að engin ein stétt ræður við þau. Því er nauðsynleg samvinna hinna fjölmörgu stétta, svo og neytandans. Stéttir sem hafa hagsmuna að gæta geta aldrei gert hlutlægt mat á eigin vinnu, hvað þá á vinnu annarra í sama geira, sérstaklega ef um samkeppni er að ræða. Ef meta á árangur heilbrigðisþjónustunnar verður það að gerast af óvilhöllum aðilum sem aðeins hafa hagsmuni neytendanna og samfélagsins í heild að leiðarljósi. Einnig þarf að gera úttekt á starfseminni utan hins hefðbundna kerfis til að greina vanda heilbrigðiskerfisins; hvað það ræður ekki við eða hvað ekki stenst væntingar neytandans.

Fageinkenni sem tengjast hinum hefðbundnu kvennastéttum hafa ekki þótt eftirsóknarverð eða svarað kröfum vísindanna. Vísindunum var framan af stjórnað af karlmönnum og hin viðurkennda aðferðafræði mælir ekki þá þætti sem kvennastéttir fást aðallega við, s.s. mannleg samskipti, umönnun og þjálfun. Kvennastörf sem tengjast mannrækt hafa haft lítið verðgildi, þó svo að langrar þjálfunar og menntunar sé krafist til þeirra starfa á sama hátt og karlastéttanna. Þó svo að margar kvennastéttir hafi tekið karlastéttir sér til fyrirmyndar, s.s. með lengdu námi, framhaldsnámi og að þær hafi gerst vísindamenn, hefur það á engan hátt skilað sér í auknu verðmæti vinnu þeirra.

Umönnunarstéttir hefur skort góð mælitæki sem sýna fram á árangur og mikilvægi starfanna. Heilbrigðiskerfið er byggt í kringum hræðsluna við að deyja, fá alvarlega sjúkdóma eða hljóta fötlun. Samfélagið metur hátt þær sérgreinar læknisfræðinnar sem nota tæki og tól. Sjúkdómar karla passa líka betur inn í, þar sem tæki og tól eru notuð og heilbrigðiskerfið styður þetta mynstur. Það kæmi ekki á óvart ef "tæki-og-tól-nálgunin" yrði fyrst einkavædd hér á landi. Leysitækni og skurðaðgerðir duga skammt þegar fengist er við þreytu eða glæða þarf lífsneistann. Að efla fólk, auka sjálfstraust þess, eða að kenna því lífsleikni eru varanlegar aðgerðir sem oft lenda neðst í forgangsröðinni. Einkavæðing íslenska heilbrigðiskerfisins sem bíður handan við hornið mun snúast um tæki, skurðaðgerðir, "akkorð" og skjótar lausnir. Að breyta lífsstíl og kenna fólki að taka ábyrgð á eigin heilsu tekur tíma en skilar sér. Ef skoðuð eru verðgildi læknisfræðinnar, þá eru það iðnaðarmenn hennar sem þéna mest, þar sem borað er, skorið, sparslað, fjarlægt, skrapað, og viðeigandi tæknikunnáttu beitt. Þetta endurspeglar einungis gildismat samfélags okkar. Breyta þarf hugsunarhættinum, því fjölmargir neytendur fá enga lausn í núverandi kerfi. Þótt kostnaður ríkisins við heilbrigðiskerfið sé í augum margra allt of mikill eru þær tölur sem liggja á borðinu aðeins toppurinn á ísjakanum. Ríkiskassinn hefur ekki yfirsýn yfir það hve miklu landsmenn eyða í lækningar sem ekki eru niðurgreiddar af Tryggingastofnun. En tilvist þessara lækningaforma helgast af því að það heilbrigðiskerfi sem við höfum svarar ekki þörfum neytendanna. Aukin þátttaka fulltrúa hagsmunasamtaka er því nauðsynlegt innlegg í stefnumótun heilbrigðisþjónustunnar.

Höfundur er forstöðum. geðd. iðjuþjálfunar Lsp. - háskólasjúkrahúss og lektor við HA.