SKÍÐALEIÐANGUR Guðmundar Eyjólfssonar gekk erfiðlega í gær, fimmtudag. Hann gekk 12 km í mótvindi og var þjáður í baki eftir meiðsli eftir óhapp á leiðinni að Laugafelli þar sem hann gekk fram af slakka og fékk sleðann í bakið.
Veðurspá fyrir daginn í dag, föstudag, er ekki mjög hagstæð, en spáð var snjókomu sem mun gera honum erfiðara fyrir. Hagstæðari spá er fyrir helgina og sagði hann mikilvægt að fá sæmilegt veður til að ljúka leiðangrinum á réttum tíma.
Aðfaranótt fimmtudags gisti hann í tjaldi sínu við Skjálfandafljót á Gæsavatnaleið og mun hann eiga um 180 km eftir á leiðarenda.